Að kaupa forrit í Android síma
Hér útlista ég hvernig hægt er að kaupa Android forrit og fá fullan aðgang að Android Market - án þess að standa í því vafasama veseni brjóta upp stýrikerfið í símanum sínum eða keyra sem "root" notandi. Þessi bloggfærsla er fyrir þann hóp notenda sem kýs að gera það ekki - en vill samt kaupa forrit fyrir Android tækið sitt.
Fyrst smá útskýringar:
Margir vita að Apple fastbindur iPhone/iPad tækin sín við Apple AppStore búðina sína. Apple AppStore er eina leiðin til að fá forrit í iOS tæki - og saman mynda AppStore og iOS tækin órofa heild.
Í Android heiminum er þessu öðruvísi farið. Android er stýrikerfi (eins og Windows, Linux, etc.) sem Google framleiðir og keyrir á alls kyns tækjum. Jafnframt starfrækir Google forritabúðina Android Market, og sérstakt forrit sem tengist henni kemur uppsett á öllum Android tækjum.
Það sem fæstir vita, er að Android Market er bara ein búð af mörgum sem eigendur Android tækja geta verslað við (en vissulega sú stærsta). Amazon starfrækir t.d. Appstore for Android, og Opera Mobile Store er önnur, og enn fleiri búðir eru til.
Íslendingar sem eiga Android tæki geta sótt sér forrit í Android Market, en verða fljótt þess varir að Google leyfir þeim ekki að sækja ýmis forrit s.s. Google Earth, og Skype. Jafnframt leyfir Google Íslendingum ekki að kaupa forrit á Android Market.
(Líklegt er að margs konar ástæður liggi að baki þessari viðskiptaákvörðun Google - bæði skattalegar og einnig mögulega kjánalegir viðskiptasamningar við stór símafyrirtæki.)
Fyrir Íslendinga að kaupa forrit í Android síma eru þrjár leiðir færar:
Höfundar sumra forrita taka við greiðslum gegn um PayPal eða sínar eigin greiðslusíður. Hægt er að byrja á að fletta upp áhugaverðum forritum, t.d. á Android Market vefnum, og skoða svo heimasíðu höfundanna eða senda þeim tölvupóst og spurjast fyrir um þennan möguleika.
Sumar forritabúðir, aðrar en Android Market, taka glaðar við íslenskum greiðslukortum. Mér sýnist t.d. að Opera Mobile Store selji forrit til Íslands - þó ég hafi ekki sannreynt það enn. Opera Mobile Store er m.a. með Skype!
Fullan aðgang að Android Market er hægt að fá með því einfaldlega að stinga erlendu SIM korti í símann (t.d. gamalt óvirkt/ónýtt kort frá USA, Bretlandi, Frakklandi, Danmörku, etc.) Á meðan kortið er í símanum hefur maður fullan aðgang og getur keypt forrit - svo fremi sem maður hefur áður skráð íslenska greiðslukortið sitt á Google Checkout
Eftir að maður hefur sett íslenska SIM kortið sitt aftur í símann, halda keyptu forritin áfram að virka eins og venjulega - nema að manni bjóðast ekki uppfærslur á þau fyrr en maður setur útlenska SIM kortið aftur í.
Það eina sem er vert að passa sig á er að uppfæra ekki ókeypis forritin sem maður sótti með íslenska SIM kortinu sínu á meðan útlenska SIM kortið er í. Geri maður það, "flytjast" viðkomandi forrit yfir í útlenska markaðinn - og manni hætta að bjóðast uppfærslur á þau nema þegar útlenska SIM kortið er í símanum.
Eftir því sem ég best veit getur maður sett mismunandi erlend SIM kort í símann, og alltaf fengið sama "fulla aðganginn" og uppfærslur á öll keyptu forritin sín - jafnvel þótt þau hafi verið keypt á öðru erlendu SIM korti. Ég á þó eftir að sannreyna þá kenningu.
...
Ég vona að þessi óreiðukennda yfirferð mín hjálpi einhverjum. Endilega setjið leiðréttingar og frekari ábendingar í svarhalann hér að neðan, en vinsamlega sleppið því að dásama þessar eða hinar aðferðirnar við að rútta Android stýrikerfið o.þ.h.
Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.