hCalendar og hCard ófýsilegir staðlar fyrir íslenska vefi?
Fyrir ca. 2 árum síðan skaut upp kollinum í vefheiminum fyrirbærið "Microformat" sem er tilraun nokkurra bráðsnjallra vef-snillinga (aðallega í Bandaríkjunum og Bretlandi) til að skilgreina stöðluð HTML mörkunamunstur fyrir ákveðnar tegundir gagna - s.s. viðburði og heimilisföng og símanúmer. Markmiðið var að gera vefsíður með svona upplýsingum, í senn læsilegar fólki og tölvuforritum.
Í rótina er þetta algjörlega bráðsnjöll hugmynd!
Á þeim tíma fannst mér samt of snemmt að byrja að nota þessa staðla, og ég ákvað að rétt væri að bíða átektar eftir því að þeir þróuðust og þroskuðust meira.
Síðasta haust þegar SVEF bauð til kynningar á Microformats tók ég svo þráðinn upp að nýju að skoða þróunina, en það sem ég sá að hafði gerst í millitíðnni olli mér því miður dulitlum vonbrigðum.
Málið er að höfundar Microformat staðlanna gerðu tvö mjög óheppileg hönnunarmistök sem, því miður, eru enn í dag gegnumgandandi í bæði hCard og hCalendar stöðlunum:
Höfundarnir féllu í þá gryfju að leggja eindregna áherslu á enska tungu. Önnur málsvæði (t.d. íslenskan) standa eftir í óskilgreindu aukahlutverki.
Jafnframt fórnuðu þeir beinu aðgengi fólks (sér í lagi fatlaðra) fyrir aðgengi dauðra forrita sem eiga að skrapa upp hrá gögn.
Vandinn felst í tvíbentri misnotkun á HTML markinu <abbr>
.
Annars vegar er kveðið á um að <abbr>
skuli notað til að þýða fullkomlega læsilegan íslenskan texta yfir í tölvutækan auðkenniskóða á öðru tungumáli (ensku). Dæmi:
<abbr class="type" title="work">Vinnusími</abbr>
<abbr class="type" title="dom">Skrifstofa á Íslandi</abbr>
Og hins vegar er fullgildum mannlæsilegum upplýsingum fórnað fyrir "skammstöfunarskilgreiningu" sem nær einungis tölva getur skilið. Tvö dæmi:
<abbr class="dtstart" title="1998-03-12T08:30:00-05:00">12. mars 1998</abbr>
<abbr class="geo" title="64.129189;-21.919076">Perlan</abbr>
.
Í HTML staðlinum hefur <abbr>
markið nefnilega mjög skýra merkingu: Textinn á milli <abbr>
og </abbr>
er ígildi skammstöfunar sem skal jöfnum höndum skipta út fyrir skýringartextann í title=""
. Í dæmunum hér að framan eru slík skipti hins vegar ekki mjög fýsilegur kostur --
og notendur hugbúnaðar sem les vefsíður upphátt, og/eða skiptir úr skammstöfunum fyrir title
gildi þeirra, sitja uppi með illskiljanlegn texta á eftir.
(Í ofanálag vill svo skemmtilega til að Internet Explorer tekur ekki við neinum CSS reglum fyrir <abbr>
, svo að til að geta unnið
almennilega með microformat-væddar vefsíður, þarf að skeyta inn enn fleiri óþörfum HTML-mörkum (t.d. <span>
) til
að stjórna útliti textans í algengasta vafranum á markaðnum.)
Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að það er mjög auðvelt að leiðrétta bæði þessi vandamál án þess að draga á neinn hátt úr skilvirkni Microformat staðlanna.
Vandinn er bara að höfundar staðlanna hafa hingað til ekki viljað viðurkenna að um hönnunarmistök sé að ræða, sem er að mínu viti algjörlega óásættanleg afstaða.
Þar til, höfundar staðlanna a) viðurkenna hönnunarmistökin og b) sættast á að leiðrétta þau, eru hCard og hCalendar Microformat staðlarnir sorglega ófýsilegur kostur fyrir íslenskar vefsíður.
Í næstu bloggfærslu mun gefa konkret dæmi um það hvernig má laga þessi vandamál, hversu auðvelt það er í raun og veru, og þá skýru kost semi það hefði í för með sér.
Meira þessu líkt: Accessibility, Forritun, HTML/CSS.
Svör frá lesendum (4)
Hjálmar Gíslason svarar:
Fróðlegir og góðir punktar.
Væri ekki ráð að hafa komandi bloggfærslu á ensku svo að hægt sé að koma vitinu fyrir viðkomandi hönnuði?
17. febrúar 2008 kl. 02:22 GMT | #
Már svarar:
Næsta færsla verður það. :-)
17. febrúar 2008 kl. 10:32 GMT | #
Finnur svarar:
Sammála, microformat eru töff en þetta er svolítið klúður með markupið. Það væri sniðugt ef einhver sem vinnur hjá Símanum (wink wink) gæti fengið Já.is til að skella inn microformats á niðurstöðurnar svo maður gæti hent upplýsingunum beint í contacts hjá sér :p
18. febrúar 2008 kl. 14:44 GMT | #
Már Örlygsson: HOWTO: Fix the hCalendar and hCard accessibility and i18n problems
19. febrúar 2008 kl. 08:08 GMT | #