Ljótur leikur hjá kirkjunni
Ég hef fylgst með því í forundran hvernig ríkiskirkjan ræðst með dylgjum og lygum að þeim sem berjast gegn ágangi ríkiskirkjunnar á lítil börn þegar þau eru utan beinnar forsjár foreldra sinna.
Kirkjunnar menn (t.d. biskup) stilla upp ljótri skrumskælingu af sjónarmiðum þeirra sem gagnrýna skólatrúboðið. Útkoman eftirfarandi gervimálstaður:
- Vondu heiðingjarnir vilja banna börnum að fá jóla- og páskafrí.
- Vondu heiðingjarnir vilja banna alla fræðslu um trúarbrögð í skólum.
- Vondu heiðingjarnir vilja úthýsa kærleikanum og góðu siðferði úr skólum landsins.
- Vondu heiðingjarnir vilja afneita menningarsögu þjóðarinnar.
- Vondu heiðingjarnir vilja banna fólki að vera kristið.
Þessu hamra kirkjunnar menn á í sífellu, og þessi sömu ósanndindi lepja svo popúlískir ritstjórar og leiðarahöfundar dagblaðanna upp eftir þeim.
Mér þykir þetta afskaplega ljótur leikur - ekki síst þar sem um er að ræða ríkisstarfsmenn.
Á hinn bóginn sitja núna félagarnir í Vantrú og sleikja sárin eftir árásir síðustu daga - og vikna. Þær hafa verið margar hverjar afar ódrengilegar og ósanngjarnar, en þó kannski ekki alveg ófyrirséðar.
Eins og ég sagði í svarhala á blogginu hans Matta, þá virðast þeir forsvarsmenn Vantrúar vera búnir að koma sér í svipaða stöðu og Sóley Tómasdóttir og femínistavinkonur hennar.
Þau hafa þokkalega greiða leið inn í fjölmiðla, en þá helst sem nokkurs konar absúrd skemmtiefni. Jafnframt eru þau komin með stóran hóp bloggara sem fylgist með öllu sem þau segja eða skrifa og bíða færis að rífa það í sig og básúna andstæðu sjónarhorni út um allt.
Þrátt fyrir að vera að miklu leyti skoðanabróðir þeirra í Vantrú, þá hef lengi haft efasemdir um vægi Vantrúar sem pólitísks afls. Mér hefur sýnst að þau skref sem þeir stíga fram á við (t.d. með hreint út sagt frábærri framgöngu Matta í Silfri Egils um daginn) fenni jafnóðum yfir með óþarfa árásargirni, dónaskap og illa völdum "bardögum".
En mögulega sjá Vantrúarmenn þetta ekki svona. Mögulega telja þeir sig einmitt vera að ná markmiðum sínum. Mögulega hefur skapast þarna einhvers konar öfugsnúið (pervers) samlífisástand milli kirkjunnar manna og Vantrúar þar sem báðir nærast á árásum hinna. Báðir geta bent á illsku mótherjans, og haldið þannig áfram að sannfæra sinn eigin söfnuð um eigið ágæti.
Ég upplifi Sóleyju Tómasdóttur og hennar skoðanasystur svipað. Ég er femínisti (og maskúlínisti, o.fl.), en þær láta mig skammast mín fyrir að viðurkenna það opinberlega. Ég tel að þær geri baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna jafn mikið (ef ekki meira!) slæmt og þær gera henni gott. Og það sem verra er, ég held að þær geri sér innst inni alveg grein fyrir því, en baráttuástríðan slái þær blindu gagnvart því.
Á meðan stöndum við hin hjá og vonum að við fáum ekki sprengjubrot í hausinn.
...að ríkiskirkjan taki ekki enn meira valdið af foreldrum varðandi trúaruppfræðslu barna sinna, og að börnin okkar verði ekki upp til hópa fráhverf hugmyndum um jafnrétti og mannvirðingu til handa báðum kynjum.
Svör frá lesendum (14)
Bjarni Rúnar svarar:
Mér líður mjög svipað, hvað varðar femínistana. En þó byggir það mikið til á því að ég hef sótt fundina þeirra og eytt tíma með þeim; ég komst að því að ég er í mörgum grundvallaratriðum einfaldlega ósammála þeim sem hafa hvað hæst og leiða þann félagsskap. Þeim hefur tekist að hertaka hugtakið feminismi á Íslandi og mér dettur ekki lengur í hug að nota það til að lýsa sjálfum mér lengur. Ég er jafnréttissinni, punktur.
Hvað Vantrú varðar... ég var sammála þér á sínum tíma, fannst þeir ganga fram með of miklu offorsi, en er það eiginlega ekki lengur. Nú er ég bara þakklátur fyrir að einhver nenni að tala máli trúleysingja þrátt fyrir óvinsældirnar sem því fylgir. Ég er enn ánægðari að raddir þeirra skuli heyrast í fjölmiðlum! :-)
6. desember 2007 kl. 09:57 GMT | #
Ólafur Örn Nielsen svarar:
Það er með ólíkindum að fylgjast með fulltrúum beggja hópa í þessu máli. Í stað þess að ræða þetta á málefnalegum grundvelli málar kirkjan andstæðinga sína eins og þú lýsir hér að ofan en það sem verra er að Siðmennt og Vantrú fara alltaf með þeim niður í svaðið í stað þess að blása bullið útaf borðinu og ræða þetta á þeim grundvelli hvort rétt sé að trúboð sé stundað innan veggja skólanna.
6. desember 2007 kl. 10:03 GMT | #
Matti svarar:
Ég hef ekki betur séð en að 90% tímans hjá Siðmennt og Vantrú hafi farið í að svara fyrir misskilning og mistúlkun. Vantrúargreinar síðustu daga (og mánaða ef út í það er farið) hafa allar verið óskaplega hógværar. Ég veit satt að segja ekki hvað við gætum gert meira til að "blása bullið útaf borðinu".
Már, ég þarf að útskýra taktík, stefnu og starf Vantrúar fyrir þér einhverntíman í góðu tómu. Umræða síðustu daga hefur verið þörf en um leið afar óheppileg. Fjölmiðlar eru vandmeðfarið "tæki".
Ég hef sjálfur síðustu mánuði oft rætt um þessa snertifleti okkar við feminista. Var næstum búinn að flytja fyrirlestur um þetta en forfallaðist.
Auðvitað erum við svo ekkert á leiðinni að hætta að gagnrýna kristna trú og önnur hindurvitni og meðan við gerum það er alltaf hætta á því að fólki finnist við ofstopafólk :-)
6. desember 2007 kl. 11:18 GMT | #
svansson.net svarar:
Ég skil svo innilega upplifunina þína, en þó alls ekki fyrir félögin sem þú nefnir. Ég hef ekki kallað mig frjálshyggjumann í mörg ár - þó það séu að stofni til mínar skoðanir.
Ég er hins vegar ekki feministi og trúlega heldur ekki jafnréttissinni í þeim skilningi sem BRE leggur í það. Og þó ég sé trúlaus er ég í meginatriðum sáttur með þjóðkirkjuna - þó það megi skoða sumt í starfi hennar betur. Þjónustan sem hún veitir er almennt af hinu góða og ég get ekki séð hvað ætti að koma í staðinn
6. desember 2007 kl. 12:28 GMT | #
Óli Gneisti svarar:
Fyrir Ólaf Örn: Leikskólapresturinn Bolli og Vinaleiðarpresturinn Jóna Hrönn hafa viðurkennt að þetta séu trúboðsleiðir. Þar með myndi ég segja að það sé útrætt.
Fyrir Svansson: Mér sýnist að ef Siðmennt fengi sömu réttarstöðu og trúfélögin hafa þá hefði félagið alla burði til að sinna öllum þeim félagslegu hlutverkum sem þjóðkirkjan gerir og þá reyndar betur. Hvorki þjóðkirkjan né Siðmennt eiga hins vegar nokkuð að gera í skóla. Annars sé ég ekki hvernig það fer saman að vera frjálshyggjumaður og aðdáandi þjóðkirkjunnar.
Fyrir Má: Það sem hefur verið frábært síðustu daga er sá gríðarlegi stuðningur sem fram hefur komið. Ekki bara frá trúleysingjum sem eru almennt ekki að skipta sér af svona hlutum heldur líka frá frjálslyndu trúuðu fólki sem finnst að fólk eigi að fá að stjórna trúaruppeldi barna sinna. Ef gjaldið er að við þurfum að þola högg í leiðinni þá er mér eiginlega sama.
6. desember 2007 kl. 13:42 GMT | #
svansson.net svarar:
Nei óli, Siðmennt gæti aldrei sinnt því sem kirkjan gerir, þó þeir gætu áreiðanlega sinnt fermingum, giftingum og jarðarförum af stakri prýði, og mættu mín vegna gera það.
Í sveitinni heima hefur það margoft fallið á presta að koma á sáttum í erfiðum fjölskyldumálum, etv deilum um eignir eða samskiptavandamálum. Þeir sinna oftar en ekki samskiptum við eldra fólk, einstæðinga, sem eru afskiptir, sinna áfallahjálp og sálusorg hjá fólki sem er sárum.
ÞEgar ég var blaðamaður og þurfti að vinna fréttir sem tengdust banaslysum, ss. að fá nöfn látinna og myndir, var oftast talað við prest sem var í samskiptum við viðkomandi fjölskyldu. Oftar en ekki höfðu þeir fjölskyldum til þæginda tekið saman myndir og upplýsingar.
Við höfum starfandi sjúkrahúspresta. Við höfum starfandi fangapresta, sem ferðast á milli geta rætt við fanga í trúnaði - Vantrú ætlar varla taka baráttu gegn þessu á málefnaskrána?
Þetta eru aðeins fáein dæmi af fjöldamörgum um litla hluti sem eru gríðarlega mikilvægir og byggja í raun á aldagömlum hefðum og eru hluti velferðarkerfisins. Siðmennt er aldrei að fara að taka við því.
6. desember 2007 kl. 14:28 GMT | #
Már svarar:
Svansson, mér sýnist þú falla í "svona hefur það alltaf verið og þess vegna getur það aldrei orðið öðruvísi" gryfjuna.
Samfélagið hefur ekki sinnt þessum störfum af því að þess þótti ekki þörf - kirkjan tók þetta einfaldlega að sér. Það er ekki þar með sagt að eitthvað náttúrulögmál landi þessum verkefnum í höndunum á prestum. Raunar má leiða ágætum líkum að því að í a.m.k. sumum tilfellum séu þessi verkefni betur komin í höndunum á fagfólki sem er ekki heitbundið ákveðinni trúarstofnun eða kreddu.
Íslenskt samfélag á 20. öld var gerólíkt samfélaginu sem var 1-2 öldum áður. Þróunin og breytingarnar halda áfram og Ísland 21. aldarinnar verður jafnólíkt samfélagi 20. aldarinnar. Í dag eru hér innflytjendur af alls kyns trústofnum, og trúlausu eða trúlitlu fólki fjölgar hraðar en áður.
6. desember 2007 kl. 14:48 GMT | #
Óli Gneisti svarar:
Varðandi banaslys þá væri mjög auðvelt að koma þessu inn á hlutverk sjúkrahúsa. Ég held hins vegar að Siðmennt gæti vel sinnt þessu hlutverki. Annars þekki ég trúleysingja sem þurfti hjálp starfsmanna sjúkrahúsa til að losna við ágang sjúkrahúsaprests.
Nú er ég ekki úr sveit en kærastan mín er það þannig að ég þekki ágætlega til og ekki veit ég til þess að presturinn þar hafi verið að leysa einhver deilumál (og þau eru alveg til þarna í sveitinni).
Af hverju ætti ekki almennt að færa þetta meira og minna inn í félagslega kerfið? Þá veltur þjónustan ekki á því hve heppið fólk er með prest.
Ef stórt trúfélag vill bjóða upp á fangaprest fyrir sóknarbörn sín þá er það allt í lagi. En sumir virðast halda að svoleiðis þjónusta komi í staðinn fyrir aðkomu sálfræðinga og félagsráðgjafa sem eru mun betur menntaðir á þessum sviðum.
Hvað væri hægt að koma redda mörgum af þessum málum ef þjónustu sálfræðinga væri komið almennilega fyrir inn í heilbrigðiskerfinu í stað þess að þeir séu einungis valkostur fyrir þá sem eiga pening? Og að sjálfssögðu eru sálfræðingar/félagsráðgjafar mikið betur í stakk búnir til að sinna þessu enda sérmenntaðir á þessu sviði á meðan þessi þáttur er aukahlutur í menntun presta.
Þegar eitthvað kemur upp á og þjóðkirkjan stekkur til og heldur bænastund þá finnst mér verið að útiloka trúleysingja. Það væri lítið mál að standa fyrir samverustund eða eitthvað álíka án þess að blanda trúmálum inn í það.
6. desember 2007 kl. 15:04 GMT | #
svansson.net svarar:
Már, mér sýnist þú einmitt falla í þá gryfju að halda að það hljóti einhver annar að taka þessi "verkefni" (hlutverk?) að sér ef kirkjan myndi hætta því, af því þau séu svo þörf. ;)
Er þetta hlutverk þjóðkirkjunnar ekki klassískt dæmi um það sem í hagfræðinni heitir jákvæð ytri áhrif? Þetta er ekki lögbundið hlutverk, og þetta er heldur ekki skilgreint meginhlutverk presta, en samt mjög mikilvægt.
Af hverju "tók kirkjan þau að sér"? Óli talar um að koma þessum málum almennilega fyrir í heilbrigðiskerfinu. Hver segir að það sé sjálfgefið að fólk noti það? Staðreyndin er einfaldlega sú að fólk sem þarf á aðstoð að halda leitar ekki alltaf eftir henni. Prestar þurfa til að mynda að eiga í nánum samskiptum við fólk eftir andlát, við skipulagningu á útför og til að mynda við að semja líkræðu, og þar er líklegra að hlutirnir gerist "án frumkvæðis".
Þjóðfélög fúnkera yfirleitt ekki þannig að menn geti sisona kastað fyrir róða hefðum sem hafa þróast öldum saman með þjóðfélaginu og ætlað að skipuleggja eitthvað nýtt í staðinn - þau auðvitað sé lítið mál að bollaleggja um það á fundum og víðar.
6. desember 2007 kl. 20:59 GMT | #
Barbatus svarar:
Það sem eg skil ekki er þetta: Hvað er það í orðinu "kirkja" sem kristnir menn skilja ekki? Það er þar sem trúboð á að vera stundað. Það er þar sem trú er iðkuð, þar sem trúaðir koma saman til að ákalla sinn guð. Dugar það ekki þeim trúuðu? Þurfa þeir nauðsynlega að boða sitt "fagnaðar"erindi í skólum, fangelsum og sjúkrahúsum? Ekki fer eg hamförum yfir messugjörðum klerka í kirkjum á sunnudögum, það er þeirra mál er til þess koma. En skólar eiga að vera fríir frá þessu trúboði, reyndar öllu trúboði. En trúarbragðafræðsla er allt annað mál.
6. desember 2007 kl. 21:11 GMT | #
Már svarar:
Nei sko, innan kirkjunnar er margt gott fólk sem vinnur góð og óeigingjörn störf.
Sum þessara verkefna sem þú nefnir, er eðlilegt að prestar sinni, önnur er hrein tilviljun að presturinn sinnir í þinni sveit (hvaða kærleiksrík manneskja sem er hefði getað endað í því hlutverki) og enn önnur vil ég meina að séu í höndum presta af hreinni hefð - og þeim yrði sinnt af öðrum ef þess þyrfti.
(Þar er ríki og sveitarfélög með "aktíft afskiptaleysi" og sjá enga þörf til að manna þessi verkefni því prestar hafa þau með höndum - af því þannig hefur það alltaf verið.)
Kirkjan hefur jafnframt verið dugleg að skapa sér verkefni með því að taka þau að sér að fyrra bragði -- sbr. hina títtnefndu "vinaleið". Í því tilfelli er kirkjan markvisst að bjóðast til að veita fjármagni frá ríkinu inn í skólana og taka að sér störf sem sveitarfélagið þyrfti annars að manna með sínum peningum.
Dæmið er einfalt, ég er á móti pólitískum ráðningum í hvers kyns störf þar sem þarf hlutleysi og harða fagmennsku, og alveg eins er ég mótfallinn trúarlegum ráðningum í stöður í skólakerfinu og almennri félagsþjónustu.
Í mínum huga er algjör grundvallar munur á félagsráðgjafa sem vill svo til að er kristinnar trúar, og starfsmanni þjóðkirkjunnar sem stillir sér upp í hlutverk félagsráðgjafa.
7. desember 2007 kl. 01:39 GMT | #
svansson.net svarar:
Mikilvægasti þátturinn er nú samt að mikil meirihluti Íslendinga leitar með beinum eða óbeinum hætti til kirkjunnar þegar e-ð bjátar á, en margir leita líka til annarra.
Þyrfti sveitarfélagið að manna það sem kirkjan er að bjóða upp á með vinaleiðinni? - þe. bæri því skylda til þess? Er það ekki rétt, sem ég hélt, að víða myndi enginn sinna þessu ef kirkjan myndi ekki gera það? Altso jákvæð ytri áhrif.
Ég er hins vegar ekki trúleysingi sem er á móti trú og ef ég ætti börn myndi það ekki plaga mig þó þau fengju kristinfræðslu eða fermingarfræðslu eða annað samneyti við kirkjunnar fólk í skóla. Prestar þjóðkirkjunnar eru fæstir miklir öfgamenn í trú og boðskapurinn almennt mannbætandi. Og ég held að býsna margir álíka trúlitlir og ég séu sama sinnis.
Fjármögnun kirkjunnar aftur á móti kapituli fyrir sig og kannski annað mál - en það má einnig líta svo á að fjármagnið sem hún fær frá ríkinu sé renta fyrir eigur kirkjunnar frá fyrri tíð. Ég reyndar þekki þessa samninga ekki til hlítar
7. desember 2007 kl. 13:55 GMT | #
Már svarar:
Það er einmitt þessi hugmynd sem kirkjan spinnur - "Ríkiskirkjan er ómissandi, án beinna afskipta okkar færi íslenskt samfélag í hundana".
Sorrí, ég bara kaupi ekki svona málflutning. Ekki frá framsóknarflokknum, og ekki frá trúfélagi.
Í skólum (eða á vegum þeirra) eiga að starfa félagsráðgjafar og sálfræðingar. Óháð því hvort það sé lögboðin skylda eður ei, að úthýsa þessari þjónustu til eins ákveðins trúfélags er bara í prinsippinu rangt.
7. desember 2007 kl. 15:04 GMT | #
Bragi svarar:
Afsakið að ég sé að skipta mér af tveggja manna tali en mér finnst eins og í grunninn séuð þið sammála. Svansson er líklegast ekki að segja að hann vilji ekki sjá aðra en kirkjuna taka að sér þessi verkefni. Hann er einfaldlega að benda á að kirkjan standi sig vel í því að sinna þeim og því sé ekki þörf á breytingum. Már tekur þann pól í hæðina að valkosturinn þurfi að vera til staðar til að bjóða upp á raunhæfan valkost. Spurningin um getuna eigi ekki að vera svarað fyrirfram heldur með reynslu og framkvæmdum.
Hvorugur er því að gagnrýna kirkjuna fyrir góða þjónustu og hvorugur heldur því fram að verkefnin geti ekki verið framkvæmd af öðrum. Spurningin er því orðin orðræða um formlegan ramma utan um þá hluti sem kirkjan sinnir í dag og í því samhengi verður að líta á tengsl þjóðkirkjunnar við ríkið. Hér hefur kirkjan starfað í skjóli gífurlegs meirihlutaræðis í lengri tíma. Hins vegar virðist það vera að breytast og trúarlíf og vantrúarlíf er orðið fjölmennara og útbreiddara en áður. Þetta hlýtur að knýja á um að tengsl ríkis og kirkju rofni og það fyrr en seinna til þess að þjóðin klofni ekki alvarlega vegna þessa máls.
Ef um aðskilnað er að ræða er sjálfsagt að kirkjunnar menn láti sig hverfa úr öllum opinberum stofnunum.
7. desember 2007 kl. 18:29 GMT | #