Espresso!
Við Stína fengum á jólunum óvænta gjöf frá Davíð og Koleen: Espressovél.
Þetta er lítil og nett AEG EA130 maskína og hefur, af sem komið er, reynst algjörlega vonum framar.

Þetta litla dásemdartæki býr til alveg svívirðilega gott kaffi.
Það sem ég fíla líka við hana er hversu einföld hún er; það eina sem hún gerir er að sjóða vatn undir miklum þrýstingi og sleppa gufunni niður í gegn um kaffi-haldarann sem maður skrúfar neðan í vélina. Engin tannhjól eða mekaník sem getur bilað, og kaffið og korgurinn er allur utan á og safnast ekki fyrir innan í vélinni. Svo er hún alveg mátulega snögg að hita sig og býr til, eins og áður sagði, alveg syndsamlega gott espresso - sem með hjálp gamla góða örbylgjuofnsins og mjólkurfroðukönnunar úr Te & Kaffi, býr til afar traust cappuccino, og aðra varíanta á koffíninntökuna.
Við erum nú þegar búin að fara eina pílagrímsferð í verslunina Kaffiboð (á horni Grettisgötu og Barónsstígs) og kaupa tvær týpur af ítölsku sérviskukaffi, til prufu. Mmmmm...
Ég hafði alltaf verið óskaplega sáttur við gömlu góðu mokkakönnuna á eldavélinni - og náði út úr henni alveg afbragðs kaffi. Það var líka alltaf eitthvað sem heillaði mig við þessa "lo-fi" virkni í henni. Ég hafði því aldrei getað fengið það af mér að kaupa svona rafmagnsmaskínu - en eftir að hafa fengið hana óvænt upp í hendurnar á jólunum, þá er ekki aftur snúið.
Það er því allt útlit fyrir það að elsku gamla mokkakannan okkar sé komin á eftirlaun. Ég hendi henni samt ekki, við eigum of margar góðar minningar saman.
Svör frá lesendum (4)
Árni Hermann svarar:
Mokkakönnurnar eiga sína kosti fram yfir svona vélar, t.d. að þær geta (fer eftir stærð reyndar) framleitt hentugri skammta af kaffinu..
Mjög gott t.d. í matarboðum þar sem eru fleiri en maður nennir að framleiða "góða kaffið" fyrir eða einfaldlega ef "góða kaffið" er of gott fyrir fólkið sem situr við borðið :)
5. janúar 2007 kl. 20:15 GMT | #
Sigurjón svarar:
Þið félagar þurfið að leita ykkur hjálpar vegna kaffifíknar...
6. janúar 2007 kl. 03:16 GMT | #
Árni Hermann svarar:
Minn kæri Sigurjón, ég leitaði hjálpar og ég hef verið frelsaður undan fíkn koffíns. Ég er drekk einungis einn bolla á dag (max) og aldrei í vinnunni.
Hins vegar er ég orðinn dáldið háður góðum og sterkum bolla af green tea sem gefur mér mun meira kick en allt kaffi sem ég hef smakkað. Samt stenst næstum enginn drykkur góðan tvöfaldan espresso... Mmmm.
6. janúar 2007 kl. 23:46 GMT | #
Már svarar:
Árni, en grænt te inniheldur koffín - ekki alveg jafn mikið og kaffi kannski, en þó er það erfitt að meta nákvæmlega, því "kaffibollar" eru í ýmsum stærðum og styrkleikum og svo ræðst koffíninnihald kaffibauna eitthvað af tegund/ræktunarsvæði og brennslu.
Svo geta hin og þessi örvandi efni komið í stað koffínsins, eða spilað með því og magnað upp áhrif þess, og þessi efni eru ekkert endilega neitt hollari eða saklausari en koffínið.
Allt er best í hófi. Ég tek gæði framyfir magn þegar kemur að kaffidrykkju.
7. janúar 2007 kl. 01:01 GMT | #