Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð
Við hjónin eigum tvö börn, strák fæddan 2002 og stelpu fædda í byrjun 2006, og við höfum haft góða reynslu af því að nota taubleyjur á þau. Ég hef ákveðið að skrifa lýsingu á því hvernig við fórum að - hver handtökin eru við samanbrot, þrif, ferðalög og það hvernig má nota pappírsbleyjur samhliða taubleyjunum til að nýta kosti beggja.
Að baki þessum skrifum liggja tvær aðal ástæður:
- Ég veit að mörgum þykir það óyfirstíganleg tilhugsun að nota taubleyjur á börnin sín - þó það sé í raun ósköp lítið mál.
- Maður er svo fljótur að gleyma og við eigum einhvern tíman í framtíðinni eftir að langa til að rifja upp hver handtökin voru og hvaða augum við litum þessi bleyjumál.
Ath: Allt sem kemur fram í þessari grein er byggt á persónulegri reynslu okkar hjónanna af því hvað okkur finnst virka og hvað ekki - fyrir okkur.
Það er engin spurning að það eru margar leiðir til að gera hlutina og við höfum gaman að því að heyra lýsingar á því hvernig aðrir hafa farið að í þessum efnum.
Efnisyfirlit:
- Reynslan af okkar börnum
- Af hverju taubleyjur?
- Hvenær notum við pappírsbleyjur?
- Hvaða græjur þarf maður?
- Verklag við skolun og þvotta
- Að brjóta saman bleyjur eftir þvott
- Bleyjubrot ("bleyju-origami")
- Hvað fer í skiptitöskuna þegar farið er út úr húsi?
- Niðurstaða - niðurlag
Reynslan af okkar börnum
Þegar strákurinn okkar fæddist vorum við fyrirfram ákveðin að nota taubleyjur - bæði af peningasparnaðar- og umhverfisástæðum, og svo grunar mig að í okkur hafi blundað smá hippastemmning sem þurfti útrás.
Af því við vorum viðbúin því að þetta yrði "rosalega erfitt", þá tókum við taubleyjupakkann með hvílíku trukki og dýfu og notuðum þær alltaf - dag og nótt, heima og heiman, etc.
Fljótlega komumst við samt að því að taubleyjum getur fylgt óttalegt vesen, t.d. á ferðalögum (sérstaklega í útlöndum! :-) svo við keyptum pappírsbleyjur fyrir ferðalögin - en oft liðu þó nokkrir dagar eftir að við komum heim áður en við komumst aftur í taubleyjugírinn.
Þegar strákurinn var eins og hálfs árs kom tveggja mánaða tímabil þar sem við stóðum í flutningum og áttum í vandræðum með að þvo þvotta. Taubleyjunum pökkuðum við þá ofan í kassa og notuðum pappírsbleyjur á meðan. Það fór svo einhvernveginn svo að kassinn með taubleyjunum kom aldrei úr geymslunni. Við vorum sprungin á limminu.
Þegar stelpan fæddist, hins vegar, þá tókum við þráðinn upp að nýju; drógum taubleyjurnar fram í dagsljósið og rifjuðum gömlu origami-brellurnar.
Í dag er stelpan tæpra tíu mánaða, enn á taubleyjum og ekki fyrirsjáanlegt að við munum hætta með þær í bráð.
Stærsti munurinn er líklega sá að við erum reynslunni ríkari og kunnum að spara okkur vinnu og gera okkur hlutina einfaldari en síðast. Svo er líka eins og við tökum þessu af minni stífni en síðast. T.d. eigum við alltaf stóran pakka af pappírsbleyjum inn í skáp og grípum, samviskubitslaust, til þeirra þegar hentar.
Af hverju taubleyjur?
Umhverfisvænni. Auðvitað er þvottaefnið mengandi, og slit á þvottavélinni flýtir því að hún breytist í ryðdrasl á ruslahaug, en pappírsbleyjur hafa mikið rúmmál, og brotna seint og illa niður í náttúrunni, og valda því að mikið magn af mannasaur lendir á ruslahaugum sem eru ekki sérstaklega ætlaðir fyrir slíkan úrgang.
Ódýrari. Það munar heilmiklu þarna á. Taubleyjunum fylgir nokkur kostnaður í upphafi - sérstaklega í bleyjubuxum og þurrkinnleggjum - en rekstrarkostnaðurinn er næstum enginn. Sömu taubleyjugræjurnar má nota aftur og aftur og aftur. Pakki af pappírsbleyjum kostar fullt af peningum og endist stutt.
Barnið hættir fyrr á bleyju. Rakinn, fyrirferðin og umstangið við taubleyjurnar gefur bæði barni og foreldrum ákveðinn hvata til að hætta á bleyju. Taubleyjan gefur barninu meira "fídbakk". Pappírsbleyjurnar eru beinlínis hannaðar til að barnið finni sem minnst fyrir hægðum sínum. Bleyjufyrirtækin hafa beinan hag af því að börn séu sem lengst með bleyju.
Mildari við barnshúðina. Þetta er a.m.k. reynslan á okkar börnum. Þótt pappírsbleyjurnar séu "þurrari" þá liggja hlandefnin samt upp við húðina á barninu og einmitt vegna þess að pappírsbleyjan er þurrari, þá nennir maður síður að skipta og hlandið liggur lengur upp við húðina á barninu.
Hvenær notum við pappírsbleyjur?
- Á nóttunni. Pappírsbleyjur eru rakadrægari en tau og stelpan sefur værar ef við þurfum ekki að skipta á henni um miðja nótt. Þetta gerir líka það að verkum að við sofum værar og erum betur hvíld á morgnana.
- Á ferðalögum. Ferðalög með börn eru nægt vesen að maður sé ekki með blautan/skítugan þvott í eftirdragi, og snapandi af gestgjöfum sínum þvottavéla- og snúrupláss í tíma og ótíma.
- Í pössun. Ókunnugir kunna ekki handtökin á taubleyjunum og verða stressaðir. Algjör óþarfi.
Heima við, í bæjarferðum og heimsóknum, þá eru taubleyjurnar hins vegar nákvæmlega jafn auðveld lausn og pappírinn - hafi maður tileinkað sér réttu handtökin.
Hvaða græjur þarf maður?
Bleyjur. Við keyptum nokkra pakka af gamaldags bómullarbleyjum (grisjubleyjur/gasbleyjur) í Rúmfatalagernum. Svona bleyjur eru hræódýrar, og ef maður kaupir ca. 60 stykki þá er engin hætta á að þær klárist, jafnvel þótt maður trassi aðeins að setja þær í þvottavélina eða hengja þær upp.
Svo eru þær svo hrikalega fjölnota. Þær breytast á svipstundu í borðtuskur og gólftuskur og olíutuskur og smekk og hvaðeina.
Bleyjubuxur. Bleyjubuxurnar liggja utan um bleyjuna og halda bleytunni inni. Hefðbundnar bleyjubuxur eru eins og nærbuxur prjónaðar úr ull og þæfðar svo þær halda næstum alveg vatni. Þær blotna þó mun hraðar en buxur úr nútíma gerviefnum.
Verslunin Þumallína (Skólavörðustíg 41) selur mjög fínar bleyjubuxur sem anda raka í gegn um sig. Þær eru svipaðar pappírsbleyjum í sniðinu: með franskan rennilás á flipum á bakstykkinu sem krækist framan á magastykkið. Þær kosta slatta en eru mjög þægilegar.
Okkar reynsla er að það dugir að eiga 2 stykki í hverri stærð - því ef sú staða kemur upp að báðar buxurnar séu blautar/kúkugar í einu þá er hægt að redda sér á meðan með öðrum buxum í stærðinni fyrir ofan eða neðan (eða einfaldlega með pappírsbleyju :-).
Bleyjuinnlegg. Innleggin liggja ofan á bleyjunni og halda rakanum frá húðinni á barninu. Jafnframt halda þau kúknum frá bleyjunni og þurrka hann, og auðvelda þannig losun kúksins í klósettið.
Við höfum mjög góða reynslu af mjúkum nælon innleggjum sem fást í Þumallínu, en þau eru margnota og skoluð/þvegin eftir hverja notkun. Okkur hefur dugað að eiga ca. 6 stykki.
Svo selur Þumallína líka dáldið sniðug pappírsinnlegg sem brotna niður í náttúrunni og má sturta niður í klósettinu. Þau eru sérstaklega þægileg þegar barnið kúkar oft og kúkurinn er linur/blautur - eins og vill vera framan af með brjóstmylkinga.
Djúp fata - fyrir blautar og skítugar bleyjur. Fatan þarf helst að rúma þvottavélarfylli af taui (án þess að þjappa). Oft er hægt að fá svona fötur með loki, sem er ágætis fítus en ekki nauðsynlegt.
Biotex blettahreinsir. Fínt að smella honum í blettahreinsihólfið á þvottavélinni, af og til, þegar bleyjurnar eru þvegnar. (kannski svona í 5. til 6. hvert skipti) Biotexið heldur tauinu hvítu og fínu.
Verklag við skolun og þvotta
Bleyjurnar:
- Pissubleyjur: Best að henda þeim beint í baðvaskinn og skrúfa frá vatninu á fullt, til að skola úr þeim mesta pissið (í ca. 10-15 sek á meðan maður gengur frá öðru). Svo vindur maður vatnið úr bleyjunni, losar hana í sundur og lætur hana detta lausa ofan í fötuna.
- Kúkableyjur: Byrja að hrista lausa kúkinn ofan í klósettið, skola restina af kúknum af bleyjunni í vaskinum undir heitri, kraftmikilli vatnsbunu (eða með sturtuhaus). Svo skola, vinda og losa í stundur eins og um pissubleyju sé að ræða.
- Reynslan hefur kennt okkur að það borgar sig að skola bleyjurnar, vinda og leggja lausar í sundur ofan í fötu með engu loki. Þannig skolast megnið af lyktarefnunum ofan í niðurfallið á vaskinum, og bleyjan þornar hratt í fötunni og lyktarmengunin er næstum engin. Okkur fannst þetta ótrúverðugt í fyrstu, en vorum fljót að sannfærast um kosti þessarar leiðar fram yfir þá að nota fötu með loki eftir að hafa prófað hana.
- Þegar fatan er orðin full (eða farin að lykta) þá töltir maður með hana að þvottavélinni, tæmir úr henni og þvær bleyjurnar með venjulegu magni af venjulegu þvottaefni á einhvers konar bómullar prógrammi, við 60°C. Það er ekki nauðsynlegt að sjóða (95°C) bleyjurnar í hvert einasta skipti, þó rétt sé að gera það af og til, og smella þá smá Biotex blettahreinsi með.
Bleyjubuxurnar:
- Nema bleyjan sé þeim mun blautari þegar maður skiptir og buxurnar orðnar blautar í gegn, þá er hægt að nota þær aftur og aftur án þess að skola þær eða þvo á milli.
- Ef þær eru örlítið rakar, og ekki farnar að lykta, þá dugir að smella þeim beint á ofn, annars dugir oftast að skola þær bara lauslega í vaskinum með volgu vatni og þurrka á ofni.
- Stundum kemur pínu kúkarönd í kantinn á buxunum. Þá er oft fljótlegast að handþvo það í burtu með handsápu og naglabursta, og smella buxunum á ofninn.
- Svo er gott að hafa það fyrir reglu að smella buxunum einstaka sinnum í þvottavélina með bleyjunum (á 60°C) til að ná í burt þeim þvagefnum sem kunna að hafa safnast í þeim.
Innleggin:
- Nælon innleggin eru eldsnögg að þorna á ofni.
- Ef þau eru bara pissublaut, þá skolar maður bara úr þeim með vatni og kreistir mesta vatnið úr þeim.
- Kúk byrjar maður að hrista í klósettið og grófskola með heitri, kraftmikilli vatnsbunu, og svo er bara að handþvo restina í burtu, t.d. með handsápu.
- Líkt og með bleyjubuxurnar er fínt að smella innleggjunum af og til í þvottavélina með bleyjunum (á 60°C).
Að brjóta saman bleyjur eftir þvott
Reynslan hefur kennt okkur að það marg, marg, marg borgar sig að brjóta saman bleyjurnar þegar þær koma blautar úr þvottavélinni og hengja þær tvíbrotnar á snúrurnar. Trixið er bara að hrista þær sléttar, brjóta í tvennt, og leggja svo renninginn yfir snúruna þannig að nýtt brot myndist.
Með þessari aðferð sparast mikill tími miðað við aðrar aðferðir, því þegar bleyjurnar hafa þornað á snúrunni svona brotnar í fernt, tekur maður þær niður og leggur beint í sléttan og snyrtilegan stafla.
Bleyjubrot ("bleyju-origami")
Taubleyjuforeldrar þurfa að læra tvö "origami" brot.
Fyrra brotið - "Smábarnabrotið"
Það notar maður þegar barnið er pínulítið og hefur linar eða hálf-linar hægðir. Þetta brot tekur smá tíma að læra en er samt í raun afskaplega einfalt. Þetta eru skrefin:
- Byrjunarstaðan er bleyjan brotin í fernt (beint af snúrunni, sbr. að ofan).
- Maður opnar bleyjuna (A), og brýtur helminginn sem maður lyfti tvisvar sinnum í átt að miðju-brotinu (B), þannig að það myndist þykk "pylsa" ofan á miðju-bortinu.
- Svo veltir maður bleyjunni á hvolf (C), tekur í lausu hornin á helmingnum sem enn er óbrotinn og togar hann til þannig að hann myndi þríhyrning - svoldið eins og of stutt pappírs-skutla (D).
- Þá er brotið tilbúið, og bara eftir að velta bleyjunni aftur á hvolf (E), setja bleyjuinnleggið ofan á pylsuna.
- Að lokum er barnið laggt ofan á og þríhyrningnum brotinn utan um barnið eins og pappírsbleyju (E), og smellir bleyjubuxum utan um allt saman.
Seinna brotið - einfalda brotið -
Það hentar betur fyrir eldri börn (ca. 6-8 kg og þyngri) og er skammarlega einfalt:
- Byrjunarstaðan er sú sama - tvíbrotin bleyja beint af snúrunni.
- Tvíbrotna bleyjan er brotin í þrennt, en þó þannig að annar endinn á pylsunni sem myndast sé breiðari en hinn.
- Bleyjunni er velt á hvolf ofan á opnar bleyjubuxur og innlegg lagt ofan á pylsuna.
- Öllu draslinu smeygt undir rassinn á barninu og bleyjubuxunum lokað eins og pappírsbleyju.
Þegar barnið er orðið enn stærra, og farið að pissa svo mikið að ein bleyja dugir ekki, er hægur leikur að bæta annari - eins brotinni - bleyju ofan á þá fyrri.
Ef fólk notar gamaldags bleyju-nærbuxur (t.d. úr þæfðri ull) þá virka brotin eins, en maður þarf að vera fingralipur (eða hafa þrjár hendur) og halda bleyjunni kyrri á sínum stað á meðan maður smokrar barninu í buxurnar. Heldur meira vesen en með opnu bleyjubuxurnar með franska rennilásnum, en samt vel hægt.
Hvað fer í skiptitöskuna þegar farið er út úr húsi?
- Samanbrotnar bleyjur (gott er að leggja bleyjuinnleggin inn í bleyjurnar.)
- plastpoki til að smella blautum/skítugum bleyjum og innleggjum í.
- Bleyjubuxur til vara
...og svo náttúrulega alltþetta "venjulega" - þurrkur, snuð, peli, etc... :-)
Niðurstaða - niðurlag
Við hjónin lögðum af stað á sínum tíma með fyrirfram gefnar jákvæðar væntingar til taubleyjanna. Við rákumst á nokkra veggi og fórum í gegn um langt uppgjafartímabil þar sem við notuðum bara pappírsbleyjur, en nú þegar við erum með okkar annað barn, þá sýnir reynslan okkur að taubleyjurnar standa fyllilega fyrir sínu og eru fullkomlega fýsilegur kostur fyrir venjulegt nútímafólk.
Þegar við byrjuðum á þessu, þá þekktum við næstum ekkert annað fólk á okkar aldri sem notaði taubleyjur. Því þurftum við svoldið að finna upp hjólið í þessum efnum.
Málið með taubleyjurnar, eins og svo margt annað, er að maður þarf bara að kunna réttu handtökin og gera sér hlutina ekki erfiðari en þörf krefur.
Ég vona að þessi skrif mín geti sparað einhverjum ungum, hagsýnum foreldrum smá frústrasjón, og e.t.v. gert aðra sem þetta lesa jákvæðari og upplýstari gagnvart þessum valkosti sem er í boði mitt í þessu einnota samfélagi nútímans.
Uppfært þann 11. júlí 2009: Í svarhalanum við þessa færslu bæti ég við nýjum upplýsingum um það sem gerst hefur síðustu tvö og hálft ár.
Svör frá lesendum (10)
Vala G. svarar:
Takk Már, það gaman að þessu. Finnst þér fleiri smábarnaforeldrar nota taubleyjur núna en fyrir fjórum árum?
3. janúar 2007 kl. 12:25 GMT | #
Már svarar:
Ég hreinlega veit það ekki. Stína, konan mín, hefur kannski eitthvað betri tilfinningu fyrir því en ég.
3. janúar 2007 kl. 13:07 GMT | #
Kristína svarar:
Ég verð mun varari við foreldra í kringum mig og umræður á spjallvefjum núna heldur en fyrir fjórum árum, um taubleyjur og notkun þeirra. Það er búið að græjuvæða taubleyjurnar og koma þeim á markaðinn síðan við notuðum þessar hefðbundnu á Garp.
Ég vil allavegana meina að það sé þó nokkur aukning á umræðunni um þær, og a.m.k. pínulítil aukning í notkun á þeim. Ég get ekki séð betur en að þeir foreldrar sem prófa að nota þessar nýju, græjuvæddu taubleyjur verði "hooked" á þeim ... en ég hef ekki komist í tæri við slíkan munað ennþá.
5. janúar 2007 kl. 04:08 GMT | #
Inga Hrund taubleyjumamma svarar:
Ferlegt að þið skuluð nota pappírsbleyjur á nóttunni :) Mæli með "græjuvæddum" flís/PUL bleyjum í það eða hampbleyjum. Það er umræða um næturbleyjur á taubleyjuforeldraspjallinu.
6. janúar 2007 kl. 00:31 GMT | #
Hrafnkell svarar:
Svo má sleppa bleyjum alveg :)
http://diaperfreebaby.org/
8. janúar 2007 kl. 15:31 GMT | #
Ingamma svarar:
Gaman að sjá þessa umræðu: Sjálf hef ég svipaða reynslu og þið, þ.e. þetta er ekkert mál þegar maður er búinn að tileinka sér taktana. Mér fannst ég líka ótrúlega heppin að eiga átómatíska þvottavél til að vinna verkið - eftir að hafa séð mömmu og vinkonur hennar standa við bleyjupottinn...og þvo blettina úr á þvottabretti, með grænsápu. Einu skiptin sem ég/við notuðum pappírsbleyjur var á ferðalagi í útlöndum, í heitu veðri. Og varðandi veðurfar, þá má minnka pissulykt og þvottatíma á veturna með því að láta bleyjufötuna standa úti (t.d. á svölunum). Þegar við bjuggum í Kanada kynntist ég þeim lúxus (í 2 mánuði) að hafa bleyjusörvis, þ.e. leigði bleyjurnar af fyrirtæki, sem sá svo um að þvo þær fyrir mig. Þegar við fluttum til norður Kanada keypti ég slatta af þeim í nesti. Kosturinn við þær var sá að þær voru saumaðar í fellingar (þykkastar í miðjunni), sem fylgdi sá galli að þær voru mjög lengi að þorna. Ég fékk þá sendar alvöru-bleyjur að heiman og þurrkaði þær eins og mamma, amma og fleiri á undan mér höfðu gert...blaktandi á snúrunni. Þetta trix með að brjóta þær saman blautar og láta þær þorna þannig hlýtur að spara handtökin. Ég pældi aldrei í því á sínum tíma, en hef það í huga þegar ég hengi upp fyrir ykkur Stínu næst!! Kveðja, Ingamma
10. janúar 2007 kl. 10:14 GMT | #
Jófó svarar:
Ég þakka kærlega fyrir lesninguna. Þetta skaut mér alveg upp á bleiuhimininn :) Ég var að velta vöngum yfir þessu taubleiudóti síðustu daga. Hvað er þetta? Til hvers er hitt? Hvernig geri ég svona og hinsegin. Þessi lesning er bara búin að útskýra svart á hvítu flest sem mig vantar að vita.
Bestu kveðjur, Jófó upprennandi taubleiumamma :)
21. janúar 2007 kl. 03:18 GMT | #
notandi svarar:
Takk fyrir þetta. Vona að þetta eigi ennþá við 2,5 árum seinna :)
10. júlí 2009 kl. 11:04 GMT | #
Ada svarar:
Ég var eitthvað að googla þetta og datt á þessa heimasíðu.
http://www.naturebaby.dk/startpakker.html
Virðist vera mjög einfalt, reyndar er síðan á dönsku en það eru myndir af öllu líka, ég er viss um að þeir sem eru alvarlega að spá í taubrleyju bisnisinn falli fyrir þessu.
10. júlí 2009 kl. 14:28 GMT | #
Már svarar:
Þetta á allt vel við enn í dag.
Nokkru eftir að ég skrifaði þessa blogggrein, keyptum við okkur 6 stk. FuzziBunz bleyjubuxur með vasahólfi fyrir rakadræg innlegg. Sem innlegg notuðum við gömlu gasbleyjurnar þríbrotnar.
Þetta fyrirkomulag vakti mikla lukku á leikskóla dóttur okkar (go Barónsborg!) og í lok hvers dags tókum við heim með okkur 2-3 notaðar bleyjur í poka.
Flísefnið innan í bleyjunum var auðvelt að skola (engin hlandlykt) og þornaði á mettíma. Af þeim sökum dugðu þessar 6 bleyjur okkur fyrir venjulega dagnotkun - og ef í harðbakkann sló gripum við einfaldlega til gömlu bleyjubuxnanna og origamibrotanna sem ég lýsi í greininni.
Á síðustu misserum virðist áhugi fólks á endurnýtanlegum taubleyjum hafa stóraukist, og í dag eru fjölmargar tegundir græjubleyja (á borð við FuzziBunz) í boði.
Í því sambandi er skemmtilegt að nefna að Elena nágrannakona okkar hér í Stangarholtinu selur einmitt mjög flottar og vandaðar taubleyjur (Kindaknús) sem eru hennar eigin hönnun og framleiðsla. Stína, konan mín, hefur aðstoðað hana við saumaskapinn. :-)
Nú er þriðja barnið okkar á leiðinni (sett í október) og við eigum allt til alls fyrir það og þurfum ekki að leggja út í neinn viðbótar bleyjukostnað. Taubleyjur eru sniðugar.
11. júlí 2009 kl. 00:54 GMT | #