"Hver er Guð?"
Ég sat í kvöld og las fyrir hann Sögur af Alla Nalla eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur. Stuttar sögur, 1-2 blaðsíður hver, með ljúfum svipmyndum af 3ja ára snáða að uppgötva heiminn í kringum sig.
Sjötta sagan byrjar svona þegar Alli Nalli spyr pabba sinn:
"Sefur Guð uppi í himninum?"
"Já, hann sefur uppi í himninum."
"Er Guði ekki kalt að liggja svona á berum himninum?"
...
Og þá var komið að því.
"Hver er það?"
Við hjónin trúum ekki á guði og því hafa slík fyrirbæri ekki komið mikið til tals í áheyrn drengsins. Svo hefur maður einhvern veginn litla sem enga hvöt til að flækja heimsmynd lítils barns með "próaktívri" uppfræðslu um trúarbrögð sem við aðhyllumst ekki sjálf. Ég meina, þetta með jólasveinana í fjöllunum er alveg nægilega siðferðislega vafasamt - að maður sé ekki að bæta þeim fjórtánda við uppi í himninum.
"Pabbi, hver er Guð?"
Hvernig svarar maður svona spurningu? Svona ofureinfaldri spurningu, sem samt hefur óendanlega flókið svar, sem spannar þúsundir ára, og milljónir sára. Hvernig svarar maður henni þannig að fjögurra ára trítill skilji hana rétt? Að hann skilji fegurðina í hugmyndinni án þess að trúa henni bókstaflega?
Svarið byrjaði eins og svo mörg önnur á okkar heimili:
"Sko, það er svoldið flókið að útskýra það..."
Hann er farinn að herma þessa setningu eftir okkur. Sem er dáldið sætt, og vonandi bara til vitnis um tilraunir okkar til að svara öllum spurningum eins satt og heiðarlega og vitsmunir lítils stúfs leyfa.
Eftir gálgafrestinn sem þessi fyrsta setning gaf mér, var ekki lengur um annað að ræða en að láta vaða. Ég kynnti "Guð" til sögunnar sem persónu sem fullt af fólki tryði að væri til. Hann ku búa uppi í himninum. Hann væri hugsanlega hún (femínískt meðvitaði faðirinn sko). Umrætt fullt-af-fólki tryði að hann hefði búið til heiminn og stjörnurnar og tunglið og sólina - og allt fólkið og dýrin. Hann ætti að vera alvitur og alsjándi og með stjórnina á öllum lífsins gangi í sínum höndum. Hann (eða hún) væri góð(ur) og fólkið sem trúði á hann tryði að hann væri allsstaðar - svoldið eins og loftið - og inn í öllum blómunum, dýrunum, grasinu og í hjartanu á hverri manneskju - mér og þér. Og að fólkið tryði því að hann hefði gefið okkur jólin, og að dáið fólk færi upp á himininn til hans þar sem hann passaði það að eilífu.
Ég fann að ég var að komast á flug og Jesú og syndaaflausnin, Lúsífer og logar helvítis voru alveg að brjótast fram á tungubroddinn á mér, þegar vinurinn hnippti í mig og spurði:
Pabbi, ætlarðu ekki að halda áfram að lesa söguna?
Nýleg svör frá lesendum