1 kr/kWst frá Kárahnjúkum = Old News
Af alþjóðlegri heimasíðu Alcoa:
"Alcoa signed with Eletronorte a contract for the supply of energy for 20 years. But the agreed price — 30 dollars per megawatt-hour — was far from ideal. In Iceland, the company pays half that."
(ATH: fréttin er 'horfin' en hér er varanlegt afrit)
Blaðamaðurinn Páll Ásgeir, sem skúbbaði(?) bloggaði um þessa frétt, segir m.a. þetta:
"Ef við breytum megawattstundum í kílówattstundir þá fáum við út að verðið er um það bil ein króna fyrir hverja kílówattstund."
...og menn rjúka upp til handa og fóta, í sjokki yfir þessu lága orkuverði Landsvirkjunar.
Það fyndna er hins vegar að þessi stærðargráða raforkuverðsins ætti ekki að koma neinum á óvart. Í skrýrslunni Mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar, sem Þorsteinn Siglaugsson gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands í júní 2001, segir m.a.:
"Sé tekið mið af ársskýrslu Landsvirkjunar var orkuverð til stóriðju um 1 króna á kwst. árið 2000."
[...]
"Árið 1988 var meðalverð 88 aurar á kwst., 90 aurar árið 1999 og 1 króna á síðasta ári samkvæmt reikningum Landsvirkjunar."
Orkuverðið sem slíkt er því tiltölulega litlar og gamlar fréttir. Aðrar niðurstöður í grein Þorsteins eru hins vegar mun áhugaverðari, t.d. það að jafnvel þótt hann gefi sér orkuverð upp á 2 kr/kwst (30 dollara á MWst), og einstaklega hagstæðar rekstrar- og efnahagsaðstæður og sölusamning til 60 ára, þá kemur virkjunin samt út í bullandi tapi.
Páll heldur svo áfram á sömu nótum og 'Eggin':
"Íslensk heimili og reyndar langflestir notendur á rafmagni borga 8 krónur fyrir hverja kílówattstund."
Sem er eflaust satt og rétt, nema að þá er verið að tala um rafmagn í smásölu, með virðisaukaskatti, flutt yfir flókið og viðkvæmt dreifikerfi undir götum borga og bæja, mælt og rukkað í skömmtum sem hlaupa á nokkur hundruð kílówattstundum.
Í skýrslu Þorsteins kemur fram að "sé tekið mið af ársskýrslu Landsvirkjunar var orkuverð [...] árið 2000 [...] til almenningsveitna 2,90 krónur á kwst."
sem er ekki áttfaldur stóriðjutaxtinn, heldur nær því að vera þrefaldur.
Niðurstaðan:
Kárahnjúkavirkjun er ömurleg framkvæmd - dæmd til að skila bullandi tapi, bæði í náttúru Íslands og í beinum fjárhagslegum kostnaði sem mun falla á alla núlifandi íslendinga, sem og næstu kynslóðir.
Orkuverðið 1 kr á kílówattstund er hins vegar hvorki sérlega nýjar né sérlega merkilegar fréttir.
Nýleg svör frá lesendum