Þriðji skammtur af dæmisögum Esóps
Sögurnar (mp3 skrárnar) eru núna orðnar 48 (aðeins 96 eftir).
Ég er búinn að setja upp Bittorrent niðurhal, áhugasömum til hagræðis.
Hljóðgæðin hafa snarbatnað, þótt upptökugræjurnar og allar aðstæður séu (viljandi) tiltölulega frumstæðar og einfaldar.
Upptöku og útgáfuferlið hjá mér er nokkurn veginn svona:
- Ég finn mér sæmilega kyrrlátan stað í íbúðinni, sest niður með bókina fyrir framan mig, kveiki á litla iRiver iFP-790 diktafóninum mínum og byrja að lesa í innbyggða hljóðnemann á honum. Orginal upptakan er 160kbps MP3 skrá (44kHz, mónó).
- Því næst hleð ég skránum inn á tölvuna, hendi þeim sem heppnuðust síst, en held hinum til haga í sérstakri möppu.
- Þá set ég skrárnar inn í playlistann í WinAmp, kveiki á "equaliser" stillingum sem ég bjó til um daginn til að hreinsa út mesta suðið í upptökunni, segi WinAmp að spila lögin út í WAV skrár á harðadiskinum (í stað þess að spila þau út í hátalarana), og ýti loks á "Play".
- Við þetta verða til suðlausar WAV skrár sem ég dreg svo yfir í CDex og passa mig á að stilla það þannig að það breyti þeim sjálfkrafa aftur í (suðlausar) MP3 skrár (~128kbps VBR, 44kHz mono).
- Þessum nýju MP3 skrám hleð ég svo inn á vefþjóninn minn, og set jafnframt í gang BitTorrent þjóninn sem keyrir á tölvunni heima í stofu, og hleð
.torrent
skránni sem hann býr til inn á vefþjóninn fyrir þá sem vilja sækja sögurnar með BitTorrent hætti.
Ég ætlaði upprunalega að nota eitthvað töffaralegra forrit en WinAmp í eftirvinnsluna á hljóðinu, en eftir að hafa grúskað í leiðum til að "stela" einhverju forritanna sem fagmennirnir nota, ákvað ég að það væri í raun miklu "heimilislegra" og meira í "lo-fi" stílnum að halda sig bara við að nota gamla góða WinAmp.
Svör frá lesendum (5)
Johannes svarar:
Takk kærlega fyrir þetta framtak. Aðeins eitt komment, 128kbps er algert overkill fyrir talað mál. Þú þarft ekkert hærra en 64kbps, og sennilega er 48kbps bara fínt.
Takk takk aftur!
16. febrúar 2006 kl. 02:26 GMT | #
Unnur María svarar:
Takk fyrir leiðbeiningarnar! Hef verið að hugsa um hvernig ég geti hreinsað diktafónsupptökur af suði en það hefur þó ekki verið nógu áríðandi project til að ég nenni að leggja mig eftir því að gerast tæknileg. Þetta hinsvegar er viðráðanlegt og aldrei að vita nema ég létti mér lífið ogguögn með því að prófa þetta :)
16. febrúar 2006 kl. 11:17 GMT | #
Wales svarar:
Takk, Már! Þetta er notalegt að hlusta á.
16. febrúar 2006 kl. 11:17 GMT | #
Hallur svarar:
Frábært! Ég ætla að setja þetta á disk fyrir dætur mínar. Svo er aldrei að vita nema manni detti eitthvað svipað í hug... þ.e.a.s. steli hugmyndinni og lesi eitthvað annað.
16. febrúar 2006 kl. 18:54 GMT | #
Már svarar:
Takk gæs. Hallur, endilega steldu hugmyndinni. Til þess er hún :-)
16. febrúar 2006 kl. 21:17 GMT | #