Það ku ætla að verða stúlka.
Áætlaður komudagur 10. mars 2006, en til viðmiðunar má geta þess að Garpur mætti rúmri viku fyrir sinn. Fylgjan er framstæð og nálægt legopinu þannig að okkar er vænst í annan sónar í 34. viku, til öryggis.
Svör frá lesendum (1) |
Varanleg slóð
Kl. 08:31: 'Karlmennska' og launamunur kynjanna
'Framing' er orð sem mér er mjög hugleikið um þessar mundir, því með því að stýra orðræðunni inn á ákveðnar brautir má nota hana sem öflugt vopn í baráttunni fyrir breyttu hugarfari. Með allri orðræðuskák er í raun verið að endurforrita huga fólks.
Í umræðunni umlaunajafnrétti kynjanna hafa heyrst ýmsar skýringar á þeim kynbundna mun sem er sýnilegur á launum fólks út á vinnumarkaðnum.
- Samsæri/fordómar gegn konum
- Konur ekki nægilega frekar í launakröfum
- Sókn kvenna í láglaunastörf og störf með háu atvinnuleysishlutfalli
- Samsæri/fordómar gegn 'dæmigerðum kvennastörfum'
- Konur ekki eins duglegar að mynda/nota 'tengslanet'
- Skortur á löngun/sókn kvenna upp metorðastigann
- o.fl.
Þarna er að finna misgóðar tilgátur sem einhverjar kunna að eiga einhvern þátt í launamuninum.
Sú tilgáta sem mér hefur fundist vanta tilfinnanlega í umræðuna er umræðan um innri og ytri staðalímyndir karlmennsku og kvenleika, og möguleg áhrif þeirra á laun.
Launaseðillinn
Það er staðreynd sem fæstir virðast vilja viðurkenna að við metum karlmennsku manna af launaseðlinum þeirra. Allir litlir strákar vita þetta innst inni. Há laun og flottur bíll er tryggasta leiðin til að hljóta aðdáun hinna strákanna í hópnum - og það sem mikilvægara er, stelpurnar dýrka það.
Það er því heilmikið feimnismál hjá karlmönnum hvaða laun þeir eru með, ef þeir eru ekki vel yfir meðaltekjum í sínu fagi. Þetta tengist að einhverju leyti karlmennskutáknmynd 'góða skaffarans' sem lifir enn góðu lífi í undirdjúpum þjóðarsálarinnar. Konurnar okkar eiga nefnilega að vera frjálsar til að fara út á vinnumarkaðinn og vinna fyrir heimilinu, en þær eiga jafnframt að hafa frelsi til að gera það ekki - og þar liggur munurinn, okkur körlunum er ekki gefið það frelsi. Það gleymdist alveg að berjast fyrir því.
Þetta hefur þau áhrif að karlar eru almennt meira tilbúnir en konur að fórna í stórum stíl starfsánægju og persónulegu athafnafrelsi fyrir háan launatékka, því jafnvel þótt konan þeirra þéni ágætlega í sinni vinnu, þá hefur það bara ekkert með málið að gera. Þetta snýst um karlmannlega sjálfsvirðingu.
Maður heyrir hins vegar konur tala ófeimnar um hvaða laun þær hafa, því það gerir þær ekkert minna kvenlegar að hafa lág laun. Kvenleiki snýst miklu meira um að hafa tíma fyrir fjölskylduna, og nú á tímum stéttabaráttu kynjanna, þá mætti næstum halda því fram að kona með lág laun sé bara heilmikið kvenleg.
Konur hafa því meira frelsi en karlar til að velja sér störf sem hámarka ekki bara launatékkann þeirra.
Eins má leiða líkum að því að yfirmenn á vinnustöðum hafi tilhneygingu til að skammta karlkyns starfsmönnum hærri laun en lægri, því annars væri hægt að túlka það sem persónulega aðför að karlmennsku viðkomandi starfskrafts.
Vinnuviðhorfið
Annað sem er karlmannlegt er að vinna langa vinnuviku (rúmlega 11 tímum lengri en konur).
Þegar starfskraftur vinnur langa vinnuviku og virðist alltaf tilbúinn að fórna persónulega tímanum sínum fyrir starfið, þá er auðvelt fyrir stjórnendur að túlka það sem mark um verðmæti starfskraftsins, og að þeir séu ósjálfrátt skuldbundnir honum um umbun á móti.
Þetta er ekki endilega rökrétt tilfinning, því útjaskaður starfsmaður afkastar sjaldnast jafn miklu hlutfallslega og starfsmaður sem vinnur "eðlilegan" fjölda vinnustunda, en hún er samt skiljanleg. Stjórnendur eru víst tilfinningaverur eins og aðrir.
Niðurstaðan
Kvenjafnréttisraddirnar segja: "Aðal vandamálið er að karlar fá hærri laun en konur"
Ég segi: Bull! Sá launamunur sem stendur eftir í dag er aðallega einkenni. Rót vandans liggur undir yfirborðinu í úreltum hugmyndum okkar (karla og kvenna) um manngildi karlamanna og hver kjarni karlmennskunnar er.
Það mætti segja að karlfrelsisbaráttan sé enn óhafin.
Svör frá lesendum (7) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum