Jafnréttisorðræðan

Skrifað 11. október 2005, kl. 22:54

Orðræðan um jafnrétti kynjanna hefur hingað til verið skilgreind af konum, á forsendum kvenna, sem er í sjálfu sér eðlilegt þar sem konur áttu frumkvæðið að jafnréttisbaráttunni og hafa staðið í henni að mestu einar hingað til.

Ég held hins vegar að nú sé orðin brennandi þörf á að rífa umræðuna lausa úr þessum viðjum vanans, stokka hana upp og snúa á hvolf, til að leysa úr læðingi krafta okkar hinna sem höfum hingað til staðið hjá.

Allt að því hlægilega karlmiðað gildismat einkennir alla jafnréttisumræðuna. Þegar maður skoðar hana nánar þá sér maður glöggt að grunnforsenda hennar er að karlar hafi það almennt betra en konur og að konur þurfi að sækja í allt það sama og karlar hafa í dag. Auðvitað eru fjölmargar raddir sem benda á að svona sé þetta ekki nauðsynlega, en þetta er samt klárlega undirtónninn í umræðunni.

Við karlar stöndum í þeirri erfiðu stöðu að þess er óskað af okkur að við tökum virkan þátt í jafnréttisbaráttunni, en jafnframt er ætlast til þess að við tökum þátt ekki á okkar eigin forsendum, heldur á forsendum kvenna og í blindri trú á að staða okkar sé frábær, við höfum ekki undan neinu að kvarta.

Það er ósköp erfitt að virkja fólk í baráttu fyrir engu. Okkur körlum er ekki gefin nein von um að okkar líf, okkar líðan, verði betri eftir 'jafnréttið'. Við erum nefnilega viðmiðið. Við erum marklínan sem þarf að ná.

Samt vitum við innst inni að það er bull. Það nagar okkur að við finnum að það er enginn að berjast fyrir okkur. Okkur eru ekki gefnar neinar ástæður til að berjast. Orðræðan er öll stíluð á hitt kynið.

Dæmi:

Í allri almennri umræðu um kjaramál launafólks er horft til þess að stytta vinnuvikuna. Á tuttugustu öldinni náðum við (þ.e.vinstri öflin) að knýja fram fimm daga vinnuviku og 8-9 tíma vinnudag sem viðtekið "norm".

En þegar verið er að ræða launamun kynjanna og í ljós kemur að vinnuvika karla er að meðaltali 11 klukkustundum lengri en kvenna, þá heyrir maður "jafnréttisraddirnar" benda á þetta sem enn eitt dæmið um yfirburðastöðu karla á vinnumarkaðnum og það hversu mikið betri þeirra kjör eru en kvenna. Tíndar eru til dæmisögur um ónafngreindar konur sem 'fá ekki að vinna yfirvinnu'.

Ég segi:

Bull! Vandamálið er ekki skortur á yfirvinnu kvenna, heldur ósanngjörn samfélagsleg krafa á of mikla yfirvinnu karla - þar sem þeim er kerfisbundið haldið frá eðlilegri þátttöku í eigin heimilis- og fjölskyldulífi.

Á ensku kallast svona orðræðuleikir "framing".

Konur hafa hingað til leikið þann leik einar í jafnréttisbaráttunni, en til að við getum brúað seinustu metrana yfir ójafnréttið, þá þurfum við karlar að leika líka.


Meira þessu líkt: Femínismi, Karlmennska, Pólitík.


Svör frá lesendum (24)

  1. Bjarni Rúnar svarar:

    Mikið er ég sammála þér. Ég hef oft hugsað á svipuðum nótum en þér tókst mjög vel að koma þessum hugmyndum í orð.

    Þetta gildir víðar.

    Þetta er til dæmis ofboðslega skýrt í andstöðu margra feminista við klám. Þar hafa feministar tekið upp algjörlega karllæga fordóma gagnvart kynferðislegu hlutverki kvenna ("eina hlutverk kvenna í kynlífi er að þóknast karlmönnum") og horfa á allar myndir og lýsingar á kynlífi út frá því sjónarhorni. Það er auðvitað skelfilegt sjónarhorn og það sem blasir við frá því skelfilegt að sama skapi. En það er ekki þar með sagt að það sé rétt.

    Það sem verra er, er að ég tel að þessi viðurkenning styrki fordómana og ranghugmyndirnar í sessi.

    Það á n.b. við um kjarabaráttuna líka, ekki bara klám.

    Meðan feministar eru allir að berjast fyrir því að konur fái laun eins og karlar fyrir að vera eins og karlar gerist ekkert í því að hefðbundnu kvennastörfin öðlist meiri virðingu, hærri tekjur og verði þ.a.l. raunhæfur kostur fyrir fleiri (karla eða konur) sem hefðu áhuga á að sinna þeim.

    12. október 2005 kl. 00:54 GMT | #

  2. Bjarni Rúnar svarar:

    Tengingin milli pistilsins þíns og þess sem ég skrifaði voru held ég pínu óljós, en punkturinn minn átti að vera sá að jafnréttissinar/feministar gefa sér oft karllæg eða beinlínis karlrembuleg sjónarmið í upphafi og athafna sig innan ramma skilgreindan af slíkum sjónarmiðum.

    Það þarf að komast út fyrir rammann til að breyta mörgum hlutum sem æskilegt væri að breyta. Mér finnst þú vera að segja svipaða hluti. :-)

    12. október 2005 kl. 01:02 GMT | #

  3. Már svarar:

    Gat skeð að þér tækist að blanda klámi inn í þetta. :-)

    12. október 2005 kl. 01:26 GMT | #

  4. Hallur svarar:

    Mikið afskaplega er þetta rétt hjá þér. Ég einmitt kom inn á þetta í smá pistli sem ég skrifaði og þar vísa ég til þess að hér sé ekki lengur um jafnræði að ræða heldur harðræði. Það á að berja þetta í gegn með harðræði og það gefur það eitt af sér að það verður gengið of langt. Fyrst heimta þær sömu stöðu og við karlar, sem er sanngjörn krafa, en síðan má búast við því að þær heimti að drottna eins og karlar hafa því miður gert alla tíð. Þá verður þetta ekki lengur jafnræði og þá þurfa karlar að fara að berjast. Góðir hlutir gerast hægt og vel ígrundaðir.

    12. október 2005 kl. 01:54 GMT | #

  5. Bjarni Rúnar svarar:

    Már: The haircut made me do it! :-)

    Hallur: Már var nú meðal annars að benda á að sumt sem "þær" vilja "taka af okkur" sé í raun og veru ekkert sérstaklega eftirsóknarvert.

    Jafnréttisbarátta er ekkert samsæri gegn karlþjóðinni og núverandi staða kynjanna er ekki samsæri karla gegn konum. Það hallar á bæði kynin á ýmsum sviðum, sem þýðir á sama tíma að bæði kynin njóta í dag ákveðinna forréttinda.

    Hinsvegar er orðræðan soldið föst í því fari að karlar hafi það gott og konur slæmt. Það þýðir annarsvegar að karlmenn hafa lítinn áhuga á "jafnréttisbaráttu" og hinsvegar að það fer algjörlega fram hjá þeim flestum að þeir gætu nú sjálfir grætt eitthvað á því ef jöfnuðurinn myndi aukast.

    12. október 2005 kl. 02:50 GMT | #

  6. Már svarar:

    Hallur: þú virðist misskilja hvað ég á við.

    Bjarni: Takk fyrir þessa ágætu málsvörn. Þú skrifaðir næstum orðrétt það sem ég hefði sagt! (Ég fyrirgef þér núna þetta með klámið. ;-)

    12. október 2005 kl. 07:15 GMT | #

  7. Hrafnkell svarar:

    Ég tek undir orð þín um karlmiðað gildismat. Konur þurf alltaf að ná körlum. Það birtist t.d. í umræðu um fæðingaorlof. Það þarf að setja karla í orlof svo þeim sé "refsað" jafn mikið og konum fyrir að eignast börn svo konur geti líka orðið forstjórar. Hið eftirsótta er s.s. frami á vinnumarkaði. Ég vil heldur snúa þessu við og segja að með fæðingaorlofi feðra sé loksins tækifæri fyrir karlmenn að ná sömu réttindum og konur, þ.e. að fá að taka þátt í fjölskyldulífinu og "frumuppeldi". Fyrir mér er það hið eftirsóknarverða.

    Það er annars nóg fyrir okkur að berjast fyrir. Við hljótum t.d. að vilja að börn okkar, sama hvort þau eru strákar eða stelpur, eigi sömu tækifæri.

    12. október 2005 kl. 08:54 GMT | #

  8. Már svarar:

    "Það birtist t.d. í umræðu um fæðingaorlof. Það þarf að setja karla í orlof svo þeim sé "refsað" jafn mikið og konum fyrir að eignast börn svo konur geti líka orðið forstjórar."

    Ég verð að viðurkenna að ég kannast ekki við umræðu á þessum nótum Hrafnkell. Það er enginn settur í fæðingarorlof, heldur er það valkostur sem körlum býðst nú loksins.

    En mögulega má finna einhverjar raddir sem tala um fæðingarorlofið sem "refsingu" - ég hef bara ekki rekist á þær.

    12. október 2005 kl. 09:24 GMT | #

  9. Hrafnkell svarar:

    Má vera að ég hafi tekið harkalega til orða með "refsa" en ég hef heyrt marga þingmenn tala um að markmið feðraorlofsins sé að jafna stöðu kynja á vinnumarkaðnum svo konur eigi sömu tækifæri og karlar í störfum. Mér finst nágunin að karlar eigi sömu tækifæri og konur í fjölskyldunni ekki síðri og jákvæðari á margan hátt. Þannig er fjölskyldan sett í öndvegi frekar en að vinnavinna. Auðvitað er líka mikilvægt að konur og karlar eigi sömu tækifæri á atvinnumarkaðnum og mikilvægt að allir eigi val.

    12. október 2005 kl. 09:57 GMT | #

  10. Jón Heiðar svarar:

    Flottur pistill Már

    12. október 2005 kl. 23:33 GMT | #

  11. Magga Leóp. svarar:

    Þori varla að trufla þessa fallegu umræðu. Sæluhrollur liðaðist um mig. Vei, loksins loksins. Ég er bara ótrúlega ánægð með ykkur alla saman. Ég er búin að bíða svoooooo lengi eftir að heyra þennan tón, frá karlmönnum. Ég er hjartanlega sammála þér Már með þá skekkju í umræðunni sem gerir karlmannin að viðmiði sem stefnt er á að ná. Það eru hinsvegar ekki feministarnir sem fundu uppá því... it goes way back. Ef við lítum bara á sögu læknisfræðinnar þá hefur karlmaðurinn alltaf verið normið og konan frávikið. Þar hefur og er enn mikið púður lagt í það að lækna konuna af því að vera kona. Ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta en svona er þetta í sálfræðinni, mannfræðinni ofl ofl. Bara benda á það.

    13. október 2005 kl. 00:03 GMT | #

  12. Bjarni Rúnar svarar:

    Það er rétt Magga að feministar fundu ekki upp á því að miða við karla. Þær eru hinsvegar duglegar að ræða "feðraveldið" og "karlhlaðin gildi" og ýmislegt þessháttar í sínum fræðum. Þessvegna finnst mér skjóta svo skökku við þegar helstu barátturnar virðast (frá mínu sjónarhorni) samt vera pikkfastar í þessu hugarástandi. Fræði feminista segja skýrum stöfum "passið ykkur á bílunum", en í verki virðist þeim finnast fátt meira freistandi en að stökkva fyrir strætó.

    ;-)

    Annars var ég að velta fyrir mér svolitlu varðandi launamun kynjanna. Á frjálsum vinnumarkaði ráðast laun aðallega af framboði hæfs fólks, eftirspurn og þeirri ábyrgð sem störfunum fylgir. Þar er lítið svigrúm fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, því fyrirtæki sem gera það ítrekað hafa verri samkeppnisstöðu en fyrirtæki sem laða að sér besta fólkið og helda því (óháð kyni).

    Mér finnst líklegt (og takmörkuð reynsla mín er sú) að konur sem heimta góð laun á frjálsum vinnumarkaði fái þau.

    Þorri umönnunar-, hjúkrunar- og kennarastarfa eru hinsvegar ekki á frjálsum vinnumarkaði, heldur eru þetta ríkisstörf þar sem launatöxtum er handstýrt og neytendur þjónustunnar greiða aldrei nema óbeint fyrir hana. Þetta eru í dag að miklu leyti "kvennastörf" sem maður heyrir mjög oft talað um að séu undirlaunuð miðað við menntun og ábyrgð.

    Getur ekki alveg verið að ríkisrekstur viðhaldi óbeint launamun kynjanna?

    Það er allavegna alveg ljóst að stéttarfélög og aðrir talsmenn "stöðugleikans" standi klárlega í vegi fyrir að hlutfallsleg staða kvennastétta batni. Að hreyfa ekki við hlutföllunum er einmitt skilgreiningin á "stöðugleika".

    13. október 2005 kl. 01:41 GMT | #

  13. Salvör svarar:

    Ég bið ykkur að líta á baráttu femínista sem mannréttindabaráttu og reyna að sjá þetta ekki þannig að karlmenn séu að verja einhverja hagsmuni karlmanna. Már þú notar orðræðuna "Við karlar.." og þú segir "enginn er að berjast fyrir okkur" og "það er ósköp erfitt að virkja fólk í baráttu fyrir engu".

    Ertu með því að halda fram að ef þú tekur þátt í mannréttindabaráttu hóps sem þú tilheyrir ekki sjálfur þá sé það barátta fyrir engu? Ef þú tekur þátt í baráttu gegn götuvændi eða kosningarétti kvenna í Arabalöndum eða baráttu fatlaðra fyrir bættu aðgengi værir þú þá í baráttu út af engu? Þú ert ekki vændiskona og þú ert ekki kona í múslimaríki og þú ert ekki fatlaður.

    Það er líklegast að þeir taki virkastan þátt í mannréttindabaráttu sem skynja mest óréttlætið og þörf á breytingum og það er þess vegna sennilegt er að þar séu margar konur einfaldlega vegna þess að þær hafa upplifað og skynjað óréttlætið á sjálfum sér eða þeim hópi sem þær standa næst. En það hafa alltaf verið margir karlmenn sem taka þátt í þessari mannréttindabaráttu, það hafa alltaf verið margir karlmenn sem skynja það gífurlega kynbundna óréttlæti sem viðgengst í þjóðfélagi okkar alveg á sama hátt og það hafa alltaf verið margir hvítir menn sem skynja þann rasisma og kúgun sem viðgengst víða um lönd vegna hörundslitar, það hafa líka verið margir ófatlaðir sem hafa barist fyrir réttindum og aðbúnaði fatlaðra og margir gagnkynhneigðir hafa barist fyrir réttindum samkynhneigðra.

    Það er líka þannig að þeir hópar sem standa höllum fæti hafa stundum ekkert baráttuþrek og það þarf að vera fólk utan frá sem getur skilið aðstæður þess sem berst fyrir það. Götuvændiskonur, djúpt sokknir fíklar eða geðsjúkir menn eru oft í svo miklum vandræðum með líf sitt að það verða aðrir að koma til og berjast fyrir þá.

    Ég skil alls ekki hvernig þú getur sagt : "þá heyrir maður "jafnréttisraddirnar"benda á þetta sem enn eitt dæmið um yfirburðastöðu karla á vinnumarkaðnum og það hversu mikið betri þeirra kjör eru en kvenna" á sama tíma og þú vitnar í sem þína einu heimild grein eftir konu sem alls ekki heldur þessu fram. Ég hef heldur aldrei heyrt neinn halda því fram að það að vinna yfirvinnu sé einhver forréttindi karla og ég myndi strax halda hinu gagnstæða fram - þessi yfirgengilegi vinnukúltúr gegnsýrir allt íslenskt samfélag og stytting vinnuvikunnar fyrir karla og konur væri sennilega besta jafnréttisátakið og að ég tali nú ekki um besta aðgerðin til að hlú að fjölskyldum. Konan sem þú vitnar í heldur því einmitt fram, það er skynsöm kona sem segir í greininni: "Stytting vinnutíma, og þá einkum vinnutíma karlmanna ætti því að vera forgangsverkefni, bæði í verkalýðshreyfingunni og hjá hverjum og einum, ekki síst þeim sem vilja taka ábyrgð á því stórverkefni, sem langflestir taka sér á hendur, að eignast börn og koma þeim svo til manns."

    Hvernig í ósköpunum getur þú talað um einhverjar skrýtnar og loftkenndar "jafnréttisraddir" og á sama tíma vitnað í grein um jafnrétti á vinnumarkaði (þ.e. jafnréttisrödd) sem heldur því alls ekkert fram.

    p.s. það er svolítið stuðandi hjá þér Bjarni að tala um femínista sem "þær". Ég veit ekki betur en það séu margir karlmenn femínistar og þú hafir á tímum einmitt gagnrýnt (eða var það Már?) einmitt svona.

    13. október 2005 kl. 04:16 GMT | #

  14. Már svarar:

    Salvör:

    Ertu með því að halda fram að ef þú tekur þátt í mannréttindabaráttu hóps sem þú tilheyrir ekki sjálfur þá sé það barátta fyrir engu?

    Nei. Sem betur fer er til fullt af fólki sem er til í að berjast hatrammlega fyrir réttindum annara. Fyrir mér vakir að losa kynjajafnréttisumræðuna úr viðjum þess orðfæris og slagorðavopnabúrs sem skilgreinir hana (ósjálfrátt) sem baráttu fyrir réttindum kvenna frekar en karla.

    Ég tel að ef okkur tekst að endurskilgreina jafnrétti kynjanna líka sem baráttu fyrir réttindum sem karlmenn hafa hingað til ekki áttað sig á að þá skortir, þá sé mögulegt að virkja miklu stærri hóp karla með okkur í baráttunni - ekki bara þetta litla hlutfall sem berst fyrir aðra.

    Ég hef heldur aldrei heyrt neinn halda því fram að það að vinna yfirvinnu sé einhver forréttindi karla

    Ég hef margoft heyrt þessu haldið fram. Mjög oft. Síðast sá ég þessu haldið fram (óbeint) hér á þessari síðu fyrir nokkrum dögum

    Ég er ekki að segja að þetta sé algilt viðhorf, heldur tek ég þetta bara sem dæmi.

    Hvernig í ósköpunum getur þú talað um einhverjar skrýtnar og loftkenndar "jafnréttisraddir" og á sama tíma vitnað í grein um jafnrétti á vinnumarkaði (þ.e. jafnréttisrödd) sem heldur því alls ekkert fram.

    Ég vísaði einungis í þessa ágætu grein Steinunnar sem heimild fyrir "11 klst." fullyrðingunni. Mér finnst Steinunn segja mjög góða hluti í greininni.

    13. október 2005 kl. 08:13 GMT | #

  15. Bjarni Rúnar svarar:

    Til að útskýra hversvegna ég ruglast af og til og segi "þær" þegar ég tala um feminista, þá stafar það einfaldlega af því að yfirgnæfandi meirihluti talsmanna, fræðimanna og virkra stuðningsmanna feminismans eru kvenkyns. Sem bæði mótar og mótast af orðræðu, eins og Már bendir á í pistlinum að ofan.

    13. október 2005 kl. 10:42 GMT | #

  16. Hrafnkell svarar:

    Ég hef heldur aldrei heyrt neinn halda því fram að það að vinna yfirvinnu sé einhver forréttindi karla og ég myndi strax halda hinu gagnstæða fram - þessi yfirgengilegi vinnukúltúr gegnsýrir allt íslenskt samfélag

    Forréttindi eða ekki forréttindi, ég skynja sem karlmaður að það er meiri þrýstingur á karla að vinna yfirvinnu en konur. En já vinna er almennt talinn í forgangi fram yfir fjölskyldu í umræðum á Íslandi.

    Kannski það væri mikilvægt að hætta að greiða hærri taxta fyrir yfirvinnu en dagvinnu, bara greiða jafnaðarlaun. Það gerir það sérlega óspennandi að vinna yfirvinnu. Það kæmi ábyggilega skrítinn svipur á vinnuveitendur ef launþegar heimtuðu lægra yfirvinnukaup :)

    13. október 2005 kl. 12:30 GMT | #

  17. Magga Leóp. svarar:

    Það er rétt feministar tala mikið um feðraveldið, ekki nema von þar sem við búum í slíku. Það er ekki sjálfgefið að allir feministar telji að allt sem karlar "hafi" sé eftirsóknarvert. Til dæmis í Kvennakirkunni. Prétikun séra Auðar Eir sl. sunnudag (hún er gall harður feministi) var sláandi lík því sem Már skrifar hér sem upphaf umræðu. Hún var einmitt að benda á það að það færi ekki saman að gagnrýna feðraveldið og hvetja svo konur til að ganga inní kerfið með framapoti. Ég var mög vör við feðraveldið þegar ég var í læknisfræðinni. Ég var í fyrsta stelpubekknum og gömlu læknarnir ætluðu alveg að fríka út þegar þeir sáu það og sögðust ekki vera ánægðir með veru okkar þarna þar sem við myndum lækka launin þeirra. Til þess að komast í gegnum læknisfræði og vinna sem læknir þarf kona að breytast í karl, hún kemst ekki upp með annað og það er ólíft að vera í þessari stétt nema gangast við því. Meðal annars þess vegna er ég hætt að vinna sem læknir.

    Þorri umönnunar-, hjúkrunar- og kennarastarfa eru hinsvegar ekki á frjálsum vinnumarkaði, heldur eru þetta ríkisstörf þar sem launatöxtum er handstýrt og neytendur þjónustunnar greiða aldrei nema óbeint fyrir hana. Þetta eru í dag að miklu leyti "kvennastörf" sem maður heyrir mjög oft talað um að séu undirlaunuð miðað við menntun og ábyrgð. Getur ekki alveg verið að ríkisrekstur viðhaldi óbeint launamun kynjanna?

    Góður punktur Bjarni. Ég hef verið að skoða þetta og komist að þvi að ríkisrekstrinum/sveitarfélögunum er ekki um að kenna. Garðyrkjumenn hjá borginni vinna ómælda yfir vinnu (veit ekki hvort þeir vera að gera það). Leikskólakennarinn vinnur ekki yfirvinnu jafnvel þó hann/hún vilji það (sem er ekki sjálfgefið en valið er ekki fyrir hendi). Læknar verða hinsvegar að vinna gríðarlega yfirvinnu (félag unglækna er samt að mótmæla þessu núna loksins). Læknir hefur engan möguleika á að vinna hlutastarf og því borið við að það sé of dýrt og flókið að púsla því saman. Hjúkrunarfræðingar sem vinna á sömu stofnun eiga í engum vandræðum með að fá hlutastarf í hvaða prósentutölu sem þær/þeir vilja. Það stendur hinsvegar ekki öllum hjúkrunarfræðinum til boða ómæld yfirvinna ef þær/þeir vilja það. Rökin eru þau sömu og þegar læknir vill vinna minna. Þá erum við aftur komin að því að í hefðbundnum karlastörfum er ætlast til yfirvinnu og mikil tregða til að breyta því af vinnuveitendum (og stéttarmenningin spornar líka við því a.m.k. hingað til, þú ert aumingi ef þú vinnur ekki mikið). Í hefðbundnum kvennastörfum snýst þetta við. Eftir situr þetta: Karlar eiga að vinna mikið konur ekki og umönnun er ekki metin að verðleikum. Samt vill enginn hafa þetta svona. Bara svona í lokin feðraveldisarfleiðin er ekki körlum nútímans að kenna. Kefið er engu að síður feðraveldisins og hefur áhrif á alla umfjöllun um jafnrétti. Ég er sjálf orðin viðbjóðslega leið á þvi að búa í svona karllægu kerfi. Ég hef tapað mörgum miljónum á því, bara ef ég tek sem dæmi málarekstur minn gangvart tryggingarfélagi vegna úttekt á veikindatryggingu sem ég hafði keypt. Mér liði ekkert betur í þessu kerfi sem karl. Hef oft vorkennt ungum mönnum sem hafa ekki hugsað um þetta og vera ómeðvitað þröngvað að gera hlutina eftir gömlu gildunum. Meiga ekki vera stilltir og prúðir í skóla heldur stunda strákapör. Siðan vinna vinna vinna, frami frami frami, stjóri stjóri stjóri, hömlulaus kynhvöt (stúlkum er kennt að karlar séu allir pótensíal nauðgarar og körlum er kennt að þeim sé ekki alveg sjálfrátt varðandi kynhvöt sína (ef ég væri karl væri ég orðin alveg æfur yfir þessari kreddu um karlmenn)). Þess vegna er ég svo fegin að þið eruð að pæla í þessu strákar.

    Ég held að það sé fínn útgangspunktur að hugsa jafnréttisbaráttuna út frá börnum okkar, viljum við ekki að dætur okkar og synir sitji við sama borð (eigi val og möguleika á að stjórna lífi sínu án þröngvunar til að fara einhvern fyrirfram ákveðin farveg kynferðis síns vegna).

    13. október 2005 kl. 13:44 GMT | #

  18. Magga Leóp. svarar:

    En þegar verið er að ræða launamun kynjanna og í ljós kemur að vinnuvika karla er að meðaltali 11 klukkustundum lengri en kvenna, þá heyrir maður "jafnréttisraddirnar" benda á þetta sem enn eitt dæmið um yfirburðastöðu karla á vinnumarkaðnum og það hversu mikið betri þeirra kjör eru en kvenna. Tíndar eru til dæmisögur um ónafngreindar konur sem 'fá ekki að vinna yfirvinnu'.

    Ég segi: Bull! Vandamálið er ekki skortur á yfirvinnu kvenna, heldur ósanngjörn samfélagsleg krafa á of mikla yfirvinnu karla - þar sem þeim er kerfisbundið haldið frá eðlilegri þátttöku í eigin heimilis- og fjölskyldulífi.

    Már það er alveg rétt að krafan um endalausa vinnu karla er ósanngjörn því það kemur eðlilega niður á fjölskyldulífi sem þeir vilja taka þátt í. Best væri ef við gætum öll lifað af dagvinnulaununum okkar. Það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að þeir sem vinna mikið og lengi afla sé betri lífeyrisréttinda og eru í margfalt betri stöðu ef þeir veikjast/slasast og verða öryrkjar. Lífeyrissjóðskerfið er líka gegnsýrt af þessari broguðu mynd sem við erum greinilega sammála um að sé arfa vitlaus (karlinn fyrirvinnan konan heima). Lífeyrissjóðir lækna, sjómanna og trésmiða eru mjög góðir og með sanngjörn og réttlát kerfi. Þetta eru gamlar karla stéttir með kerfi sem er smíðað til að tryggja að "fyrirvinnan" nái að framfleyta fjölskyldunni (réttur á makalífeyrir er til dæmis mikill, raunar úrelt og verið að breyta). Forsendan röng - útkoman góð. Lífeyrissjóðir hefðbundina kvennastétta eru hinsvegar mjög gallaðir og miða oft við tekjur síðustu þriggja ára - þess vegna skiptir margar konur máli að vinna mikið, að öðrum kosti eru þær í djúpum skít komi eitthvað fyrir heilsu þeirra. Algengustu ástæður örorku eru sjúkdómar sem hafa langan aðdarganda og yfirleitt hefur einstaklingur sem í því lendir dregið úr vinnu því hann/hún hélt að heilsan myndi skána. Lífeyrissjóður lækna, -sjómanna og -trésmiða er ekki með þetta kerfi. Ég fæ t.d. dagvinnulaun læknis í örorkulífeyri þó að ég hafi ekki unnið fulla vinnu sem læknir í tvö ár áður en ég hætti að vinna (vann minna því ég var í LHÍ). Systir mín var ekki svona heppin. Hennar lífeyrissjóðs tekjur eru engar. Hún lifir bara á stípuðum örorkubótum. Mamma er enn að vinna þó hún sé 73. Hún er á undanþágu vegna aldurs sem starfsmaður í eldhúsi á leikskóla. Hún hefur ekki efni á því að hætta að vinna því ellilífeyrisréttindi hennar eru smánarleg. Hún hefur alltaf unnið láglaunastörf, ef hún hefði ekki unnið eins mikið og hún gerði þá væru réttindi hennar engin. Hún reyndar hefur alltaf viljað vinna mikið. Pabbi hefur það fínt á elliheimilinu (hann vann líka mikið en var vegavinnuverkstjóri og því skör hærra en hún) og á nóga peninga.

    Vildi bara benda á þetta. Ungt fólk gerir oft ekki ráð fyrir að missa heilsuna. Margar konur eru samt meðvitaðar um þetta. Þekkja konur sem hafa setið uppi með engin lífeyrisréttindi þegar á reyndi. Þá komum við aftur að því að umönnunarstörf eru ekki metin að verðleikum, þar með talið að vera heima og sinna fjölskyldu sinni og börnum óháð kynferðis þess sem það gerir.

    13. október 2005 kl. 18:24 GMT | #

  19. Jenný svarar:

    Já þetta er þörf umræða. Ég held líka að það sé komin tími til að hin gömlu gildi (að konan sé heima, karlinn að vinna og vinna) mætist á miðri leið. Því hvað verður annars um börnin okkar og einingu fjölskyldunnar. Það eru hins vegar ekki allir karlmenn sem kæra sig um að draga úr vinnu og eyða meiri tíma heima við, af því þeir voru ekki aldir þannig upp. Þessu atriði má ekki gleyma. En já þetta á að vera jafnréttisumræða, betra fyrir alla aðila. Það verður að koma í veg fyrir þennan flótta út af heimilinu. Konur verða ennþá að "verða" karlar til þess að ná frama, vera tilbúnar að leggja inn alla tímana sem þarf. Þetta er því miður ekki fjölskyldumiðað samfélag sem við búum í. Mæli með "móðir í hjáverkum" þó hún sé ekki að öllu leyti góð, en hún sýnir kannski þessa vonlausu stöðu sem mörgum menntakonum finnst þær vera í. Gefa allt og ná starfsframa eða láta starfsframan bíða og sinna börnum. Jæja...bara nokkur komment;)

    13. október 2005 kl. 20:04 GMT | #

  20. Bjarni Rúnar svarar:

    Siðan vinna vinna vinna, frami frami frami, stjóri stjóri stjóri, hömlulaus kynhvöt (stúlkum er kennt að karlar séu allir pótensíal nauðgarar og körlum er kennt að þeim sé ekki alveg sjálfrátt varðandi kynhvöt sína (ef ég væri karl væri ég orðin alveg æfur yfir þessari kreddu um karlmenn)).

    Tjah... fyrst bara trúði ég þessu og þetta gerði mjög skrítna hluti við mína sjálfsmynd.

    Ég man eftir að hafa labbað sirka 10-11 ára í skólann og ekki alveg skilið hvernig það væri hægt að nauðga, en þótt það "áhugaverð" spurning því samkvæmt því sem ég hefði lesið og heyrt væri ég "potential rapist". Ég man að ég hugsaði að það hlyti eiginlega að vera sárt að nauðga einhverjum. Enn í dag veit ég ekki hvort það er rétt.

    Ég var mikill feministi þegar ég var lítill. :-)

    Svo smám saman áttaði maður sig á því hvað heilaþvotturinn í samfélaginu væri í raun og veru fáránlegur, og jú, ég varð og er enn frekar pirraður yfir þessu. En hvernig fara þessi skilaboð með þá karlmenn sem ekki fatta að þetta sé vitleysa? Trúa þeir því bara að þeir séu nauðgarar og geti ekkert að því gert?

    Þetta er mjög stór þáttur í pirringi mínum út í alla baráttu gegn klámi og kynlífsiðnaði. Hann byggir á þessum ömurlegu staðalmyndum og öll háværa baráttan gegn myndum af nöktu fólki gerir ekkert nema styrkja þær.

    13. október 2005 kl. 21:00 GMT | #

  21. Sonja svarar:

    Mitt sjónarhorn er ekki að jafnrétti sé náð þegar konur eru jafnalgengar og karlar á æðstu stöðum heldur frekar þegar það er jafnsjálfsagt að þeir vinni ummönnunarstörfin.

    Svo finnst mér líka fáránlegt (eins og greinilega fleirum) að konur eigi endalaust að berjast og berjast að aðlagast karlaheiminum í stað þess að 'þeir' (t.d. viðskiptalífið, stjórnun o.fl.) aðlagist konum og karllægu og kvenlægu gildin mætist.

    Ég hef nákvæmlega engan áhuga á að vinna mikla yfirvinnu og finnst það vera sóun á lífinu. Lífið hefur uppá svo margt annað að bjóða og það er svo margt annað sem mig langar til að gera. Ég er verkfræðingur og mikil yfirvinna er einmitt landlæg í þeirri stétt. Ég sá viðtal við verkfræðing í fréttabréfi verkfræðinga um daginn og hann fór að vinna í Kanada og var steinhissa að fólk vann ekki um helgar eins og hann hafði alla tíð gert. Það fór bara um mig. Ég myndi frekar vilja vinna 4 daga vikur :o

    13. október 2005 kl. 22:43 GMT | #

  22. Mamma svarar:

    Már! Takk elskan mín. Ég er stolt af þér.

    14. október 2005 kl. 17:41 GMT | #

  23. Ásgeir H svarar:

    Peningar, prósentutölur og tölfræði eiga það til að gleypa þessa orðræðu eins og fleiri orðræður, menntamál anyone? Það eiga allir rétt á sömu tækifærunum, tækifærunum á mannssæmandi launum, einkalífi og því að geta alið upp börnin sín svo eitthvað sé nefnt. Vissulega er valid að benda á launamuninn sem eitthvað sem þarf að breyta, en þegar orðræðan - rétt eins og flestar aðrar orðræður nú á þessum síðustu og verstu - snýst um það að þessi feiti launatékki sé orðið það sem við stefndum á með þessu öllu saman þá vantar eitthvað. Þannig að það sem baráttufólk fyrir jafnrétti má vara sig á er að kaupa ekki ómennsk gildi sem einhverjir feitir kallpungar komu sér saman um fyrir löngu í ófrumleika sínum. Það kemur okkur öllum í koll. Nema ófrumlegum karl- og kvenpungum sem fitna og njóta þess að heimurinn er ennþá allur á þeirra forsendum. Já, og frábær pistill by the way.

    17. október 2005 kl. 03:04 GMT | #

  24. Már Örlygsson: Orðræðuleikur um launamunur kynjanna

    "'Framing' er orð sem mér er mjög hugleikið um þessar mundir, því með því að stýra orðræðunni inn á ákveðnar brautir má nota hana sem öflugt vopn í baráttunni fyrir breyttu hugarfari. Með allri orðræðuskák er í raun verið að..." Lesa meira

    17. október 2005 kl. 08:34 GMT | #

Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.


 

Flakk um vefsvæðið



 

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)