Jafnréttisorðræðan
Orðræðan um jafnrétti kynjanna hefur hingað til verið skilgreind af konum, á forsendum kvenna, sem er í sjálfu sér eðlilegt þar sem konur áttu frumkvæðið að jafnréttisbaráttunni og hafa staðið í henni að mestu einar hingað til.
Ég held hins vegar að nú sé orðin brennandi þörf á að rífa umræðuna lausa úr þessum viðjum vanans, stokka hana upp og snúa á hvolf, til að leysa úr læðingi krafta okkar hinna sem höfum hingað til staðið hjá.
Allt að því hlægilega karlmiðað gildismat einkennir alla jafnréttisumræðuna. Þegar maður skoðar hana nánar þá sér maður glöggt að grunnforsenda hennar er að karlar hafi það almennt betra en konur og að konur þurfi að sækja í allt það sama og karlar hafa í dag. Auðvitað eru fjölmargar raddir sem benda á að svona sé þetta ekki nauðsynlega, en þetta er samt klárlega undirtónninn í umræðunni.
Við karlar stöndum í þeirri erfiðu stöðu að þess er óskað af okkur að við tökum virkan þátt í jafnréttisbaráttunni, en jafnframt er ætlast til þess að við tökum þátt ekki á okkar eigin forsendum, heldur á forsendum kvenna og í blindri trú á að staða okkar sé frábær, við höfum ekki undan neinu að kvarta.
Það er ósköp erfitt að virkja fólk í baráttu fyrir engu. Okkur körlum er ekki gefin nein von um að okkar líf, okkar líðan, verði betri eftir 'jafnréttið'. Við erum nefnilega viðmiðið. Við erum marklínan sem þarf að ná.
Samt vitum við innst inni að það er bull. Það nagar okkur að við finnum að það er enginn að berjast fyrir okkur. Okkur eru ekki gefnar neinar ástæður til að berjast. Orðræðan er öll stíluð á hitt kynið.
Dæmi:
Í allri almennri umræðu um kjaramál launafólks er horft til þess að stytta vinnuvikuna. Á tuttugustu öldinni náðum við (þ.e.vinstri öflin) að knýja fram fimm daga vinnuviku og 8-9 tíma vinnudag sem viðtekið "norm".
En þegar verið er að ræða launamun kynjanna og í ljós kemur að vinnuvika karla er að meðaltali 11 klukkustundum lengri en kvenna, þá heyrir maður "jafnréttisraddirnar" benda á þetta sem enn eitt dæmið um yfirburðastöðu karla á vinnumarkaðnum og það hversu mikið betri þeirra kjör eru en kvenna. Tíndar eru til dæmisögur um ónafngreindar konur sem 'fá ekki að vinna yfirvinnu'.
Ég segi:
Bull! Vandamálið er ekki skortur á yfirvinnu kvenna, heldur ósanngjörn samfélagsleg krafa á of mikla yfirvinnu karla - þar sem þeim er kerfisbundið haldið frá eðlilegri þátttöku í eigin heimilis- og fjölskyldulífi.
Á ensku kallast svona orðræðuleikir "framing".
Konur hafa hingað til leikið þann leik einar í jafnréttisbaráttunni, en til að við getum brúað seinustu metrana yfir ójafnréttið, þá þurfum við karlar að leika líka.
Nýleg svör frá lesendum