Er blogg almennings ókeypis uppfylliefni fyrir fjölmiðla?

Skrifað 24. febrúar 2004, kl. 14:18

Páll Ásgeir kvartar yfir því að DV afritar pistil frá honum lítið styttan og birtir sem uppfyllingu á síðum sínum. Páli finnst þarna heldur langt gengið og ætlar að senda DV reikning. Mér finnst pirringur Páls vera mjög réttmætur. Það hlýtur hverjum manni að vera ljós munurinn á að birta 'tilvitnun' í texta (eða 'útdrátt') og því að afrita og birta textann í heild sinni.

Ég hef sömuleiðis fylgst með aðförum Fréttablaðsins undanfarna daga (vikur?) og undrað mig á því hversu stóra kafla þeir birta stundum úr greinum pólitísku vefritanna. Síðast í morgun birtu þeir dagsgamla færslu frá Andríki næstum í heild sinni. Biður fréttablaðið um leyfi fyrir svona birtingum? Hafa þeir einhver viðmið með það hversu langt þeim finnist eðlilegt að ganga í svona afritunum?

Ég, og fleiri bloggarar lentum í svipuðu fyrir nokkru síðan, þegar Finna.is hóf að stunda stórtæka afritun heilla bloggfærslna héðan og þaðan. Ég kveinkaði mér þá og benti á leiðir til úrbóta, en uppskar aðallega ásakanir um hræsni og vælandahátt.

Mér fannst ég í fullum rétti þá, að finnast of langt gengið, og ég skil fullkomlega pirring Páls Ásgeirs í garð DV. Því miður grunar mig að DV muni halda uppteknum hætti, en í staðinn 'refsa' Páli fyrir hortugheitin með því að sniðganga bloggið hans héðan í frá.


Svör frá lesendum (4)

  1. Svansson.net svarar:

    Bæði Stúdentablaðið og Fólkið taka búta úr bloggum og setja í blöðin án þess að biðja um leyfi eða láta vita. Dagsetning og slóð á bloggið (en ekki færsluna) fylgja. Stúdentablaðið er markvisst að reyna að finna búta sem gefa e-a innsýn í Háskólalífið. Enginn hefur kvartað enn sem komið er og almennt virðist fólk taka þessu vel.

    Róbert Ragnar Grönkvist bloggar:

    "Þa' bara sonna! Ég var að lesa Stúdentablaðið á netinu áðan og haldiði ekki að þar sé birtur stúfur úr þessu alveg hreint ágæta bloggi mínu! Mikill heiður það :)"

    Stúdentablaðið hefur í einu tilviku birt langt blogg í heild sinni og þá sem pistil. Að sjálfsögðu var fengið leyfi fyrir því hjá höfundinum - sem nú er fastur pistlahöfundur:)

    Öll dagblöðin hafa stundað það í nokkuð langan tíma að taka pistla af pólitísku vefritunum og birta án leyfis. Mogginn hefur stundað það árum saman í Staksteinunum sem eru aftarlega í blaðinu. Trúlega hafa 4-5 fimm sinnum birst pistlar af Deiglunni eftir mig í þeim blöðum, oftast í mogganum. Ég var einfaldlega ánægður þá og hugsa að flestir séu sama sinnis, bæði á Deiglunni og á öðrum vefritum. Veit satt best að segja ekki um neitt dæmi þess að kvartað hafi verið undan slíku, enda eru pólitísku vefritin almennt skrifuð til að koma skoðunum á framfæri og því meiri lesning því betra.

    Í eitt skipti var quotað í D-pistil eftir mig í DV og ummælin sett í samhengi sem ég var ekki sáttur við - og rétt að taka fram að það var ekki nýlega, heldur þegar Sjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason var ritstjóri blaðsins.

    Mér sýnist þetta frekar vera spurning um það hvaða vinnubrögð prentmiðlarnir eiga að nota til að taka efni af netinu frekar en hvort það má eða ekki. Vinnubrögðin sem Páll Ásgeir lýsir eru ekki dæmi um góð vinnubrögð.

    24. febrúar 2004 kl. 15:01 GMT | #

  2. Már svarar:

    Sammála þessu sem þú segir Svansson.

    Það er líka kannski rétt að ítreka að Páll tekur skýrt fram að hann er hlynntur góðum tilvitnunum. Sama hefur alltaf gilt um mig (og flesta sem ég þekki): ég vil gjarnan að vitnað sé í það sem ég skrifa(!), en þegar á að afrita og endurbirta skrifin mín í heild sinni, þá vil ég að fólk spurji mig leyfis fyrst.

    Lögum samkvæmt, þarf ekki að biðja um leyfi þegar birta á 'normal' tilvitnun í skrif annara.

    24. febrúar 2004 kl. 15:08 GMT | #

  3. Óli Gneisti svarar:

    Tilvitnanir eru alveg í lagi, það er alveg ljóst. Það þarf þó að passa sig á að þær detti ekki úr öllu samhengi. Ef það á hins vegar að birta heilu eða hálfu færslurnar þá ætti alltaf að biðja um leyfi.

    Með tilvísanir í vefritin þá finnst mér leið Fréttablaðsins að þessu vera afar slæm, það er að sundurklippa grein með athugasemdum einhvers starfsmanns þeirra, það getur eyðilagt heildarmyndina og mér finndist eiginlega skárra að birta greinarnar bara í heild sinni.

    24. febrúar 2004 kl. 17:14 GMT | #

  4. Már svarar:

    Óli, og ef þá langar að birta greinina í heild sinni, þá geta þeir auðveldlega bjallað í viðkomandi bloggara (eða ritstjóra) og beðið um leyfi. Ég hugsa að flestir mundu taka slíkum beiðnum vel.

    Svo gætu fjölmiðlar líka sett upp standard taxta sem þeir borguðu bloggurum fyrir greinar sem þeir endurbirta eftir þá. Það mætti t.d. nota Creative Commons leyfi til að gera svona samkomulög að hluta af sjálfvirku ferli.

    24. febrúar 2004 kl. 17:25 GMT | #

Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.


 

Flakk um vefsvæðið



 

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)