Vandinn við að hanna aðgengilegar vefsíður

Skrifað 12. febrúar 2004, kl. 15:32

Frumrit fyrirlesturs sem ég flutti á ráðstefnu Öryrkjabandalagsins, Aðgengi að upplýsingasamfélaginu, á Grand Hotel. Einfaldar glærur fylgdu en þær bætast við seinna.

Halló. Ég heiti Már Örlygsson og vinn sem vefforritari, ráðgjafi og hönnuður hjá veffyrirtækinu Hugsmiðjunni (einnig þekkt sem Eplica ehf).

Fyrir þau ykkar sem eru með tæknina sæmilega á hreinu, þá felst vinnan mín að miklu leyti í því að forrita og hanna HTML, CSS og Javascript kóða. Fyrir ykkur hin sem hafið ekki hugmynd um hvað þessar skammstafanir þýða, þá sé ég um að tryggja að vefsíðan sem kemur inn í vafrann í tölvunni ykkar sé skiljanleg, virki og líti rétt út á skjánum - þ.e. hjá þeim sem nota skjá. :-)

Þetta er búin að vera aðal vinnan mín í tæp átta ár - sem er náttúrulega allt of langur tími. (Sumir vilja meina að vefbransinn sé sé svolítið eins og þetta með hundana; eitt ár í greininni er ígildi fimm í flestum öðrum greinum.)

Ég hef lengi haft brennandi áhuga á þeim hliðum vefhönnunar sem snúa að hönnun þjáls (skiljanlegs, skilvirks) notendaviðmóts, en síðasta eitt og hálft til tvö ár hef ég einbeitt mér að mestu leyti að aðgengismálum og aðgengishönnun vefsvæða, og það er líklega þess vegna sem ég er hér í dag.


En ég er víst hér til að ræða um "vandann" við að hanna aðgengilegar vefsíður. ...Verst er að það er í alvörunni ekkert svo erfitt... en látum það liggja á milli hluta í bili. :-) Ef ég ætti að skilgreina "vandann" í stuttu máli þá mundi ég segja að hann skiptist í fimm hluta:

Í fyrsta lagi þarf maður að hafa mikinn metnað fyrir starfinu sínu, og langa til að verkin manns þjóni tilgangi sínum. Skipulögð vinnubrögð skipta miklu máli. Ákveðni og metnaður eru mikilvæg því aðgengishönnun snýst að miklu leyti um að huga að tæknilegum og efnislegum þáttum sem flest venjulegt fólk ýmist sér ekki, eða leiðir aldrei hugann að.

Í öðru lagi þarf maður að hafa yfirgripsmikla þekkingu á öllum helstu vefstöðlunum: (X)HTML, CSS og Javascript, og eins formlegum leiðbeiningunum um notkun þeirra við hönnun og smíði aðgengilegra vefsvæða. Vefstaðlar eru mjög mikilvægir vegna þess að með því að fylgja stöðlum gerir maður vefsíðurnar sem maður smíðar "fyrirsjáanlegar" og auðskiljanlegar tækjabúnað og hugbúnað notenda vefsvæðisins. Með því að fylgja stöðlum eykur maður ennfremur líkurnar á því að síðurnar muni líka virka í hugbúnaði framtíðarinnar.

Í þriðja lagi þá þarf maður að temja sér að hugsa um vefsíður út frá raunverulegu innihaldi þeirra, en ekki bara hvernig þær líta út á manns eigin tölvuskjá. Maður þarf að hafa í huga t.d. hvernig lesvélar blindra tölvunotenda telja upp innihald síðunnar, og muna að innihaldið þarf að vera jafn skiljanlegt í einvíðum (línulegum) upplestri og á tvívíðum skjáfleti.

Í fjórða lagi þá þarf maður að vita hvernig fólk með tæknilegar og líkamlegar sérþarfir upplifir netið, og þekkja takmarkanir og möguleika tækjabúnaðarins og hjálparforritanna sem það notar.

Að lokum, í fimmta lagi, þarf maður að tryggja að viðskiptavininn sé meðvitaður um mikilvægi aðgengilegrar hönnunar og réttra vinnubragða, og deili með manni þeirri sýn að aðgengi allra sé eðlileg grundvallarkrafa. Af og til kemur upp sú staða að gera þarf smávægilegar breytingar á virkni eða útliti vefsíðna til að tryggja gott aðgengi, og þá þarf viðskiptavinurinn að skilja vandamálið svo hægt sé að finna góða millilendingu.


Á tuttugu mínútum nær ég aldrei að segja allt sem mig langar. Mig mundi langa til að ræða ólíkar forsendur einvíðrar og tvívíðrar skjalahönnunar (upplestur í lesvafra vs. mynd á skjá) og leiðirnar sem hægt er að fara til að ein og sama vefsíðan sé skilvirk og skiljanleg á hvorn háttinn sem er. Mig mundi líka langa til að ræða um þörfina á því að blindir og fatlaðir geri sjálfa sig sýnilegri í umræðunni um upplysingatæknisamfélagið (þessi ráðstefna er flott skref í þá átt) og hjálpi okkur í vefhönnunarbransanum að skilja hvað við þurfum að gera til að ávextir vinnunnar okkar séu aðgengilegir öllum. Mig mundi líka langa til að ræða um mögulegar sögulegar ástæður þess að aðgengismál á vefnum hafa setið jafn illilega á hakanum og þau hafa gert hingað til - t.d. snemmbúna innrás sjónlistafólks og útlitshönnuða á vefinn og neikvæð áhrif gullgerðaráranna (dot-com tímabilsins).

Ég ætla hins vegar að láta þessi atriði vera að þessu sinni (sú umræða getur m.a. átt sér stað á netinu í framhaldinu) og þess í stað fjalla aðeins nánar um praktísku þættina sem snúa að því að selja fólki - viðskiptavinum - hugmyndina um "aðgengi allra" og því hvernig vefbransinn virðist vera að þróast í þessum málum.


Vefbransinn er bara bransi - harður bransi - og alveg sama hversu miklar og heitar hugsjónir menn eins og ég hafa, þá er það alltaf veski viðskiptavinarins sem ræður ferðinni. Það vill því brenna við að maður heyri kollega sína koma með afsakanir eins og "aðgengileg vefhönnun er allt of dýr og flókin og kúnninn er ekki tilbúinn að borga fyrir hana".

Málið er að reynslan hefur kennt okkur hjá Hugsmiðjunni, að hönnun og smíði aðgengilegra vefsvæða þarf ekki að vera dýr. Síður en svo. Aðgengileg vefhönnun byggir nefnilega fyrst og fremst á vönduðum og vel ígrunduðum vinnubrögðum, og markvissri notkun vefstaðla (HTML, CSS, Javascript) á hátt sem aðskilur innihald og grunnvirkni vefsins frá útliti hans og sérvirkni sem bara sumir geta nýtt sér. Einnig er gott að hafa í huga að Google leitarvélin er blindur gestur á heimasíðunni þinni.

Þessi vinnubrögð *spara* peninga ef eitthvað er. Endurnýtingarhlutfall kóðans milli verkefna snarhækkar; ekki þarf að forrita sérstakar "prentvænar" útgáfur af öllum siðum; það er minni þörf á að vefa aðra útgáfu af vefnum fyrir lófatölvur og þráðlaus smátæki; og það að setja nýtt útlit á vefinn eftir X mánuði eða ár verður margfalt ódýrara en ella.

Ef einhver segir ykkur annað, þá bendir það bara til þess að viðkomandi skorti kunnáttuna og þekkinguna sem til þarf og vilji hylma yfir það með lélegum afsökunum. Það að lítið 4-5 manna sprotafyrirtæki í alveg fáránlega harðri samkeppni, eins og Hugsmiðjan var í hitteðfyrra, skuli hafa getað sett aðgengi allra á oddinn, ætti að vera næg sönnun þess að gott aðgengi er ekkert dýrara en lélegt aðgengi - kunnátta og metnaður er bara allt sem þarf.

En eins og ég sagði þá var sú staðreynd að gott aðgengi að vefsvæðum er ekkert dýrara en lélegt aðgengi, einmitt lykillinn að þeirri ákvörðun okkar hjá Hugsmiðjunni að taka af skarið og setja aðgengismál ofarlega í forgangsröðina hjá okkur.

Ég skal alveg ljóstra upp um það við ykkur, að þótt við strákarnir séum allir ósköp fallega innrættir, þá áttuðum við okkur jafnframt alveg á því að gott aðgengi blindra og fatlaðra er ekki "fítus" á vefsvæði sem venjuleg fyrirtæki og félagasamtök eru tilbúin að borga stórar viðbótarupphæðir fyrir. Kannski má finna dæmi um það í dag, en þannig var það a.m.k. ekki þegar við byrjuðum á þessu. Við vissum hins vegar að gott aðgengi er "fítus" sem viðskiptavinurinn vill gjarnan fá í kaupbæti, og finnst gaman að geta stært sig af út á við.


En beinum nú augunum af því sem er að gerast í vefbransanum hér á Íslandi og annarsstaðar:

Fyrir um einu og hálfu ári byrjuðum við hjá Hugsmiðjunni og Eplica að leggja sérstaka áherslu á aðgengi blindra og fólks með tæknilegar sérþarfir, og *allir* vefir sem við höfum unnið síðan hafa verið unnir með þarfir þessara hópa að leiðarljósi. Vefirnir sem við höfum unnið síðan þá eru orðnir hátt í 70 talsins og fjölgar sífellt, en meðal viðskiptavina okkar eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á borð við Stjórnarráðið og ráðuneytin, og samtök s.s. Blindrafélagið.

Á öðrum vígstöðvum hefur líka ýmislegt verið að gerast:

  • Veffyrirtækið Vefur hf. hefur um nokkuð langt skeið selt vefumsjónarkerfi sem býr til einfaldaða útgáfu af vefsvæðinu fyrir blinda og sjónskerta; sem er framtak sem á vissulega mikið hrós skilið, þó fólk greini á um hvort "sérstök útgáfa af vefnum" sé góð leið, eða hvort markmiðið eigi að vera að allir notendur geti notað einu og sömu útgáfuna.
  • Á nýjum vef Íslandsbanka hefur mikill metnaður verið lagður í að tryggja gott aðgengi blindra og fatlaðra. Fleiri stór fyrirtæki og stofnanir, s.s. KB-banki og Landssíminn, hafa stigið stór skref í sömu átt.
  • Sífellt oftar heyrist rætt um þessi mál á spjallvefjum og umræðuvettvangi vefhönnuða og forritara, sem dæmi má nefna að einn helsti fagvefur grafískra hönnuða á Íslandi, Icelandic National Team, var nýverið endurgerður með gott aðgengi blindra og fatlaðra að leiðarljósi.

Þessi aukna umræða og meðvitund kollega minna um aðgengismál finnst mér mjög spennandi, því ef við ætlum einhvern tímann sjá eitthvað gerast í aðgengismálum á vefnum, þá tel ég að þær breytingar þurfi að eiga upptök sín í grasrótinni - meðal ungu hönnuðanna og ungu forritaranna.

Hugafarið innan greinarinnar þarf að breytast þannig að það þyki hallærislegt að gera óaðgengilegan vef. Aðgengi þarf að verða hversdagsleg lágmarks gæðakrafa á sem flest vefsvæði, og vel má vera að heppilegt milliskref sé að aðgengi verði komist í tísku og verði "kúl" í smá tíma. Ég held að það gæti vel gerst.

...sem kemur að því atriði að ég er svo óhóflega bjartsýnn að ég held að held að við séum komin vel á veg í átt að þessum markmiðum. Hugarfarið í bransanum er að mjakast í rétta átt - og ef við höldum áfram rétt á spilunum og gefum ekkert eftir þá gæti vel verið að við náum á leiðarenda - og okkur takist að tryggja að flestir vefir verði sæmilega aðgengilegir öllum.


Þrátt fyrir þessa bjartsýni mína, þá er ég samt fullkomlega meðvitaður um að enn er langt í land á mörgum sviðum. Enn sem komið er hefur t.d. athygli mín, og kollega minna, fyrst og fremst beinst að aðgengi blindra og sjóndapurra. Lesblinda, hreyfihömlun, andleg fötlun, o.fl. eru enn sem komið er tiltölulega ókannaðar lendur - og mögulega getum við gert einhverja hluti öðruvísi til að bæta aðgengi slíkra notenda.

Með viljann að vopni eru okkur hins vegar allir vegir færir, og ég vonast til að þessi ráðstefna sé aðeins eitt skref af mörgun í þá átt að mennta okkur öll um hinar duldari hliðar aðgengismálanna.


Ég þakka áheyrnina... [ Spurningar? ]


Svör frá lesendum (3)

  1. Tóró svarar:

    Klapp, klapp. Flott.

    12. febrúar 2004 kl. 15:50 GMT | #

  2. Helgi Borg svarar:

    Bara helv. fínt! Kannski helst að það þurfi að hamra betur á því að góð aðgengis- og nytsemishönnun er forsenda þess að notendur noti í raun vefinn, og að hann skili þar með eigendum sínum þeim ávinningi sem ætlast var til. Skilningur á þessu er að aukast, en það eru samt alltof margir sem ennþá átta sig ekki á því.

    16. febrúar 2004 kl. 15:02 GMT | #

  3. Már Örlygsson svarar:

    Takk Helgi, takk Tóró.

    Ég hef áður skrifað um samspil þjállar hönnunar annars vegar og aðgengilegrar forritunar hins vegar, og e.t.v. hefði ég mátt undirstrika þessi tengsl og mikilvægi þeirra meira í fyrirlestrinum... Hver veit? Kannski næst.

    Hér er greinin, Aðgengileg, þjál viðmótshönnun : http://mar.anomy.net/entry/2003/10/28/09.34.47/

    16. febrúar 2004 kl. 15:17 GMT | #

Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.


 

Flakk um vefsvæðið



 

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)