Mennskur og sár
Halló, ég heiti Már og ég er mennskur og álít mig hvorki meiri né síðri eftir kynfærum. ...En nú að öðru:
Mér misbauð algjörlega um daginn að heyra að í stóru leikverki sem var sýnt í allt sumar voru kvenleikararnir/-dansararnir allar á mun, mun lægri launum en karlleikararnir/-dansararnir sem svituðu og púluðu með þeim á sviðinu í nákvæmlega eins hlutverkum - bara með tippi.
Mér fannst það töff þegar konan mín og vinkona hennar höfuðu ítrekuðum beiðnum um að taka að sér stöður búninga-/sviðsmyndahönnuða verksins í vor af því framleiðendurnir harðneituðu að borga þeim eðlileg lágmarkslaun.
Mér sárnaði að heyra að nokkrum dögum síðar var ungur (og vissulega mjög klár) karlhönnuður ráðinn í hluta starfsins á hærra kaupi en þær höfðu beðið um, og tvær óreyndar stúlkur á smánarlaunum til að sjá um restina.
Mér sárnaði að heyra af þessum dæmum um launamisrétti kynjanna á meðal ungs fólks sem ég þekkti - og að mismununin virtist vera markviss bissnissákvörðun ungra athafnamanna af minni kynslóð.
Algjör tímaskekkja.
Svör frá lesendum (8)
Slimjimy svarar:
jamm... vinnumarkaðurinn er bölvaður helvítans Doddson þegar allt kemur til alls... lítið við því að gera
30. október 2003 kl. 15:29 GMT | #
egill svarar:
Í hvaða landi var þetta? Nei ég meina, halló. Maður trúir því auðvitað að þetta sé ekki svona, þótt maður viti það. Fýkur í mann að lesa svona.
30. október 2003 kl. 15:48 GMT | #
Hallur svarar:
Þvílík skömm!!! Hvaða leikhús var þetta og hvaða leikrit?
30. október 2003 kl. 15:53 GMT | #
Eyrún svarar:
Út af svona hlutum sem ég get orðið alveg snar brjáluð og næstum tapað mér!!
Hef einmitt lent í atviki þar sem ég og strákur sem ég þekki fórum í viðtal um sams konar sumarstarf hjá sama fyrirtækinu með ca 2klst millibili. Honum voru boðin hærri laun en mér!!!!
30. október 2003 kl. 15:59 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Hallur, það skiptir engu máli hvaða leikhús/leikrit þetta var. Kannski var þetta ekki einu sinni leikhús heldur skrifstofa... kannski var þetta smíðaverkstæði... eða tölvufyrirtæki.
Það eina sem skiptir máli er að sagan sem ég heyrði er sönn, og örugglega ekki einangrað dæmi. Það þrífast enn svona tímaskekkjur inn á milli og þær eitra út frá sér.
30. október 2003 kl. 16:00 GMT | #
Nonni svarar:
Jú, það skiptir máli hvaða aðili þetta var. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta haft áhrif á fólk sem gengur fyrir peningum, öðruvísi en að láta það vita að það fái ekki peningana okkar og af hverju það fær ekki peningana okkar.
Ég er ekkert að segja að þér beri einhver skylda til að segja okkur hver þetta var, en það er rangt að segja að það skipti engu máli.
31. október 2003 kl. 12:17 GMT | #
Heiða: Ojjj!
31. október 2003 kl. 12:27 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Nonni, ég held að hávær fordæming samfélagsins á svona starfsmannahaldi skipti meira máli en nákvæmlega hvaða aðila var um að ræða í þessu afmarkaða tilviki (sem er orðið of seint að sniðganga :-)
Það sem mér þykir mikilvægast er að við karlmenn látum það ekki viðgangast að starfssystur okkar séu settar skör lægra en við bara af því þær eru konur. Að við karlmenn dettum ekki í þá tímaskekkjugryfju að líta á konur sem ódýrara vinnuafl en karlmenn.
31. október 2003 kl. 12:53 GMT | #