Kastljósspæl - um athyglivert orðaval
Athyglivert að heyra eina aðalsprautuna á bak við nýja vændisfrumvarpið sem fjallað verður um á Alþingi á morgun, viðurkenna blákalt að baráttan fyrir sænsku leiðinni snýst fyrst og fremst um "hugmyndafræðilegan sigur" og og að nota refsilöggjöfina til að "koma skilaboðum á framfæri", en ekki að ná neinum raunverulegum árangri í baráttunni gegn þrælkunarvændi, misnotkun og félagslegri útskúfun þeirra sem stunda vændi.
Sömuleiðis fannst mér athyglivert hvernig orðræðunni um vændi er alltaf spunnið upp í "karlar" gegn "konum". Þetta virðist vera fullkomlega meðvituð notkun á tungumálinu. Það er eins og í gangi sé einhver furðuleg hræðsla við að ræða um vændi sem vændi en ekki eitthvað allt annað.
Vændi er vændi. Ofbeldi er ofbeldi. Þrælahald er þrælahald. Útskúfun er útskúfun. Að reyna að vöndla þessum ólíku hlutum saman í eitt hugtak með frösum á borð við "vændi er ofbeldi" er bara til þess fallið að kæfa alla vitsmunalega umræðu um málið. Kannski er það markmiðið?
P.S. Mér finnst allt þetta tal um "mansal með einu n-i vera uppfullt af kvenrembu. ("Man" þýðir "kona".) Af hverju þarf að velja orð í opinberu umræðuna sem gefur til kynna að fórnarlömb nútíma þrælahalds séu einungis konur og engir menn? Nema það sé eins með karlþrælana og hamingjusömu hórurnar (helvítin af þeim) að þeir séu svo fáir að þeir skipti engu máli.
Uppfært: Salvör bendir réttilega á í svari #2 að "man" þýðir líka "þræll". Mea culpa. Mea culpa.
Svör frá lesendum (7)
Ágúst svarar:
Alveg sammála! Athyglisvert að þær tala alltaf um "þessar ólánsömu konur", "sölu á konum", "verslun með konur" o.s.frv.
Pirrandi.
Sama á við um umræðu um nauðganir.
Annars er það ánægjulegt að vita, að karlmenn hvorki stunda vændi né er nauðgað.
30. október 2003 kl. 02:22 GMT | #
Salvör svarar:
Orð og frásagnir hafa oft margræða merkingu... skilningurinn verður til í einhverjum tengingum milli orðanna... milli hugtaka og við lýsum gjarnan einhverju nýju með því sem við þykjumst þekkja fyrir. Merking orða er á fleygiferð... í gegnum tímann... í gegnum hugsanir þeirra sem nota orðin...
En mansal með einu enni er flott. Man þýðir kona. Man þýðir líka þræll. Þetta er gömul merking. Skáldið Halldór Laxness leikur sér að þessari tvöföldu merkingu þegar hann skrifar bók um ok verkalýðsins og kúgun konunnar og skýrir bók sína "Hið ljósa man".
30. október 2003 kl. 07:31 GMT | #
Salvör svarar:
Ágúst, Þetta orðalag: "....Athyglisvert að þær tala alltaf um "þessar ólánsömu konur", "sölu á konum...". Ertu að gera gys með þessu? Alla vega finnst mér þetta fyndið. Hverjar eru þessar "þær" sem tala svona?
Við erum mörg bæði karlmenn og konur sem erum femínistar og ákafir talsmenn þess að vændi sé ólöglegt en verði samt einungis saknæmt fyrir þann sem kaupir vændisþjónustu. Femínistar eru bæði karlmenn og konur og við erum vel meðvituð um að það eru bæði karlmenn og konur í vændi. Fólk sem er á móti vændi er ekki bara "þær" og fólk í vændi er ekki bara "þær".
30. október 2003 kl. 07:42 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Salvör, ég vissi svo innilega ekki að man þýddi líka þræll. Mea culpa. Ég er búinn að yfirstrika seinustu efnisgreinina í færslunni til marks um það.
Ágúst, ég verð að viðurkenna að ég er sammála því sem Salvör segir í #3. Þessi notkun þín á "þær" hljómaði dáldið írónískt í framhaldi af því sem þú sagðist vera sammála. :-)
30. október 2003 kl. 08:33 GMT | #
Unnur svarar:
Jájá, ,,man" er flott orð en mér finnst notkun þess í sambandi við hvíta þrælasölu og ólöglega flutninga fólks á milli landa asnaleg. Það eru mjög fáir sem vita að það þýðir líka þræll og mér fannst vægast sagt ankannalegt að sjá það notað í samhengi við kærur á hendur manninum sem var að hjálpa kínverjunum að komast ólöglega hingað fyrir nokkrum mánuðum. Ég myndi halda að við ættum að leitast við að hafa orðalag gagnsætt til þess að fólk eyði ekki tímanum í að rífast um tittlingaskít (sbr. hér að ofan) og tali um það sem máli skiptir. En ég er nú líka svo leiðinleg og svo hrædd við að rugga bátnum etc....
30. október 2003 kl. 11:10 GMT | #
Slimjimy svarar:
hvað er málið? það er eitthvað feministabull allstaðar í dag, hjá jósa, hjá mása, hjá mér, erum við allir orðnir soddan kellingar? pardon my french! ég meina, hversvegna er fólk að velta sér uppúr þessu, ég er sjálfur persónlega hlyntur vændi, því ég væri alveg til í að geta fundið einhvern góðan stað til að selja mig eldri konum svo ég hafi efni á húsaleigunni!!!! ég sverða. er etta ekki meira spurning um að fólk geri sér grein fyrir því að karlar eru líka nýddir í þessu þjóðfélagi, og það er í rauninni ekki málið hvors kyns maður er heldur að maður (sem er jú bæði kynin) er mennskur? ég er persónulega orðinn mjög þreyttur á öllu þessu bulli um að karlmenn séu eitthvað verri en konur og göfug barátta fyrir jafnrétti sé einhver "femin"ismi það gefur þá auga leið að við sem erum masculinistar erum allir illir og vonir inn við beinið og verðskuldum ekki hætishót. mér er eiginlega orðið illa við öll þessi hugtök.
ég held að frekar en að fólk hoppi alltaf þangað að kynfæri þeirra séu einasta skilgreining persónuleika þeirra sé réttar en að ég færi að ljúga að ykkur að og segja "ég heiti pleh og ég er "feministi" eða "karlremba" eða what the fuck að fólk geti staðið upp og sagt "ég heiti fleh ég er mennsk/ur og álít þig hvorki meiri né síðri eftir kynfærum.
punktur og basta!
30. október 2003 kl. 14:44 GMT | #
Ágúst svarar:
Ég hélt að það væri augljóst hverjar "þær" sem ég var að tala um eru.
En ég skal þá útskýra: "þær" eru þær konur sem ég hef heyrt í umræðunni (ég hef ekki enn heyrt karlmann tjá sig um þetta með þessum hætti á opinberum vettvangi) tala ítrekað í konur í þessu samhengi, líkt og að þetta sé einungis tengt öðru kyninu.
Óþolandi að ef maður notar orðið "þær" tengt við femínisma þá rísa þær/þeir upp á afturlappirnar þar sem maður sé - ég veit ekki hvað - andfemískur karlpungur. "Þær" þurf nefnilega alls ekkert að vera vísun í femínista in general heldur getur maður meint ákveðinn hóp kvenna, burt séð frá öllum skilgreiningum um femínista o.s.frv.
Og nei, Salvör, ég er ekki að gera "gys" að þessu. Mér finnst einfaldlega vera stórmerkilegt að þessar ágætu konur skuli nota "konur" í þessari umræðu, þegar að konur eru einfaldlega ekki 100% af þeim sem um ræðir. Það kæmi mér t.d. stórlega á óvart ef að fólk sem stundar vændi væri að meira en 2/3 hluta konur (og nú hef ég engar tölur yfir þetta, þetta er bara mín tilfinning m.v. það sem maður heyrir út undan sér).
Og já, Salvör, mér finnst það nokkuð skondið þegar yfirlýstir femínistar tala um "verslun með konur" o.þ.h. í umræðunni um vændi, líkt og vændi sé einskorðað við konur, á sama tíma og þær, já þær, eru uppteknar af því að femínismi sé ALLS EKKI einskorðaður við konur og að karlar séu sko aldeilis líka femínistar. Femínistar er sumsé karlar og konur en hórur bara konur.
Ég biðst forláts ef ég hljóma pirraður... en ég ER pirraður.
Takk fyrir og góðar stundir!
30. október 2003 kl. 15:52 GMT | #