Halló, ég heiti Már og ég er mennskur og álít mig hvorki meiri né síðri eftir
kynfærum. ...En nú að öðru:
Mér misbauð algjörlega um daginn að heyra að í stóru leikverki sem var sýnt í allt sumar voru kvenleikararnir/-dansararnir allar á mun, mun lægri launum en karlleikararnir/-dansararnir sem svituðu og púluðu með þeim á sviðinu í nákvæmlega eins hlutverkum - bara með tippi.
Mér fannst það töff þegar konan mín og vinkona hennar höfuðu ítrekuðum beiðnum um að taka að sér stöður búninga-/sviðsmyndahönnuða verksins í vor af því framleiðendurnir harðneituðu að borga þeim eðlileg lágmarkslaun.
Mér sárnaði að heyra að nokkrum dögum síðar var ungur (og vissulega mjög klár) karlhönnuður ráðinn í hluta starfsins á hærra kaupi en þær höfðu beðið um, og tvær óreyndar stúlkur á smánarlaunum til að sjá um restina.
Mér sárnaði að heyra af þessum dæmum um launamisrétti kynjanna á meðal ungs fólks sem ég þekkti - og að mismununin virtist vera markviss bissnissákvörðun ungra athafnamanna af minni kynslóð.
Algjör tímaskekkja.
Svör frá lesendum (8) |
Varanleg slóð
Kl. 01:24: Kastljósspæl - um athyglivert orðaval
Athyglivert að heyra eina aðalsprautuna á bak við nýja vændisfrumvarpið sem fjallað verður um á Alþingi á morgun, viðurkenna blákalt að baráttan fyrir sænsku leiðinni snýst fyrst og fremst um "hugmyndafræðilegan sigur" og og að nota refsilöggjöfina til að "koma skilaboðum á framfæri", en ekki að ná neinum raunverulegum árangri í baráttunni gegn þrælkunarvændi, misnotkun og félagslegri útskúfun þeirra sem stunda vændi.
Sömuleiðis fannst mér athyglivert hvernig orðræðunni um vændi er alltaf spunnið upp í "karlar" gegn "konum". Þetta virðist vera fullkomlega meðvituð notkun á tungumálinu. Það er eins og í gangi sé einhver furðuleg hræðsla við að ræða um vændi sem vændi en ekki eitthvað allt annað.
Vændi er vændi. Ofbeldi er ofbeldi. Þrælahald er þrælahald. Útskúfun er útskúfun. Að reyna að vöndla þessum ólíku hlutum saman í eitt hugtak með frösum á borð við "vændi er ofbeldi" er bara til þess fallið að kæfa alla vitsmunalega umræðu um málið. Kannski er það markmiðið?
P.S. Mér finnst allt þetta tal um "mansal með einu n-i vera uppfullt af kvenrembu. ("Man" þýðir "kona".) Af hverju þarf að velja orð í opinberu umræðuna sem gefur til kynna að fórnarlömb nútíma þrælahalds séu einungis konur og engir menn? Nema það sé eins með karlþrælana og hamingjusömu hórurnar (helvítin af þeim) að þeir séu svo fáir að þeir skipti engu máli.
Uppfært: Salvör bendir réttilega á í svari #2 að "man" þýðir líka "þræll". Mea culpa. Mea culpa.
Svör frá lesendum (7) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum