Aðgengileg, þjál viðmótshönnun
Ef maður gengur um með augun opin þá sér maður reglulega gamla hluti í nýju ljósi. Undanfarið hef ég verið að skilja betur tengsl aðgengishönnunar (e. accessibility) og þjállar viðmótshönnunar (e. usability).
Þeir sem þekkja mig vita að ég hef lengi, lengi haft mikinn áhuga á málefnum sem snerta hönnun þjálla og einfaldra notendaviðmóta. Á ensku kallast þetta "user interface design" eða "usability engineering, og á íslensku er stundum talað um "nytsemi", "nothæfni" eða jafnvel "þjálni".
Það getur verið mikil og snúin kúnst að hanna þjál notendaviðmót fyrir vefsíður og gera þær auðveldar og gegnsæjar í notkun fyrir markhópa þeirra. Sem hönnuður þarf maður bæði reynslu og þekkingu á kenningagrunni viðmótsfræðanna í bland við ríkt innsæi og hluttekningu með viðkomandi notendahópi. Oft vill þetta samt verða hálfgert gisk sem skilar aðeins árangri fyrir tilstilli síendurtekinna og kostnaðarsamra prófana á hönnuninni á lifandi notendum. Að auki er þetta oft eins og að berjast við vindmyllur, að rökræða óljós hugtök á borð við "þjálni" við útlitshönnuði, forritara og stressaða viðskiptavini.
Nýjar lendur
Það fór að lokum svo fyrir sléttu ári síðan að mér leið eins og ég væri kominn í þrot gagnvart viðmótshönnunarfaginu og hinum háleitu markmiðum um gegndarlausa þjálni allra hluta. Ég þurfti frí. Eitthvað allt annað. Ég ákvað því að venda kvæði mínu í kross, leggja allar hugmyndir um þjálni á hilluna tímabundið og sökkva mér í staðinn í önnur og óskyld málefni, þ.e. aðgengi blindra og fatlaðra á vefnum.
Ég las mér vítt og breitt til og fann strax að í samanburði við viðmótshönnun með þjálni að meginmarkmiði, þá er afar auðvelt að setja fingurinn á hvað gerir vefsvæði og notendaviðmót þerra aðgengileg (nothæf!) fyrir allar tegundir notenda - blinda, fatlaða, notendur frumstæðs/einfalds tækjabúnaðar, etc. Ekki nóg með það heldur er einnig tiltölulega auðvelt að útskýra kosti greiðs aðgengis allra fyrir viðskiptavinum, forriturum og öðrum hönnuðum s.s. þeim sem hanna útlit vefsvæðisins.
Að skömmum tíma liðnum hafði ég aflað mér nægrar praktískrar þekkingar til að geta gengið hreint til verks og gert þau vefsvæði sem ég vann að margfalt aðgengilegri en almennt gengur og gerist. Út úr samstarfi mínu við Hugsmiðjuna hefur komið fjöldi góðra vefsvæða þar sem hugað hefur verið sérstaklega að aðgengi fyrir alla.
Notkun töflulausra HTML lausna
Með notkun á "<table>
-lausri" HTML mörkun og öflugri útlitsforritun í CSS náðum við að forgangsraða innihaldi hverrar síðu/skjals. Myndir voru allar markaðar með lýsiorðum, vísanir milli síðna voru markaðar á lýsandi hátt, Javascript var notað á hátt sem útilokaði engann, og innsláttarreitir markaðir þannig að allt í einu var það orðin hrein unun fyrir blinda að fylla út óárennilegustu skráningareyðublöð.
Viðbrögð notenda
Það stóð ekki á jákvæðum viðbrögðum. Blindrafélagið bankaði upp á og bað um eitt stykki aðgengilegan vef takk, og fjöldi fyrirtækja og stofnana gerðu slíkt hið sama. Þannig var síðastliðið ár alveg óskaplega gefandi fyrir mig sem vefhönnuð. Mér leið á hverjum degi eins og vinnan mín væri að skila árangri sem skipti máli. ...Lamir gengu, daufir heyrðu og blindir sáu. Bla, bla, bla. Þessi tilfinning var ólík nokkurri tilfinningu sem ég upplifði á meðan ég var enn að pæla í þjálni notendaviðmóta. Aðgengileiki var greinilega málið fyrir mig.
Í þann mund sem ég var næstum búinn að afneita öllum áhuga á hönnun þjálla notendaviðmóta, þá rann allt í einu upp fyrir mér ljós - þjálni og aðgengileiki eru tvær hliðar á sama hönnunarpeningnum.
Það er svo merkilegt að þegar maður, sem hönnuður, einbeitir sér að því að gera virkni vefsíðna aðgengilega blindum og fötluðum (og notendum einfaldra og/eða frumstæðra vafra) þá verður niðurstaðan undantekningarlítið alveg ótrúlega þjál og skilvirk í notkun. Það hjálpar eflaust til að ég hef sterkan bakgrunn í nytsemis- og þjálnihönnun, en það breytir því ekki að aðgengishönnunin er alveg ný leið til að nálgast þjálnina.
Þá er ekki þar með sagt að aðgengilegar vefsíður séu sjálfkrafa ýkt þjálar og gegnsæjar í notkun. Síður en svo. Hins vegar getur krafan á aðgengi fyrir allar hjálpað manni við að útiloka fjölmargar óaðgengilegar viðmótsútfærslur sem e.t.v. hefðu litið vel út "á pappírunum" en reynast í raun afar óþjálar í notkun. Krafan á aðgengileika neyðir mann til að skoða innihald og virkni vefsíðna óháð útlitshönnun og öðrum truflandi þáttum. Þannig neyðist maður t.d. til að hafa hlutina skýra og einfalda og skilgreina aðalatriðin á síðunni og setja þau í efst í forgangsröðina - nokkuð sem er alltaf lykilatriði í góðri þjálnihönnun.
Á sama hátt má sjá fjölmörg dæmi þess að vel heppnuð þjál hönnun er oft aðgengilegri fyrir vikið.
Þannig haldast þessi fyrirbæri þjálni og aðgengileiki hönd í hönd og styðja við hvort annað þrátt fyrir að vera í raun bæði tæknilega og hugmyndafræðilega gerólík.
Núna eftir 12 mánaða stífa einbeitingu að aðgengishönnun og höfnun á öllu sem snertir þjálni, þá liggur fyrir mér að feta slóðina til baka og takast aftur á við hönnun þjálla og gegnsærra vefviðmóta, en nú með hugmyndina um aðgengileika sem staðfastann útgangspunkt. Frekari samþætting þessara tveggja hugmynda - þjálni og aðgengileika - kemur örugglega til með að verða lykilatriði í allri minni vinnu héðan í frá.
Megi aðrir njóta sem best.
Meira þessu líkt: Accessibility, HTML/CSS, Hönnun, Nothæfni.
Svör frá lesendum (1)
Andri svarar:
Virkilega góð grein og fræðandi, ég held ég hafi lesið þetta svona 5 sinnim síðustu mánuðina ... :)
2. nóvember 2004 kl. 16:13 GMT | #