Doðinn
Fyrir tæplega 14 mánuðum síðan var ég að læra að fóta mig í þeirri tilfinningasúpu sem fylgir því að verða faðir í fyrsta skipti. Þá skrifaði ég um hvað það væri skrýtið.
Í dag eru þessar tilfinningar orðnar nær eðlilegur hluti af lífi mínu. Ég hef séð son minn standa upp og taka sín fyrstu skref. Læra að hlaupa og hlæja. Klappa kisunum og faðma allt og alla - frá okkur mömmu sinni, ókunnugum villiköttum (sem vita ekki hvaðan á þá stendur veðrið) yfir í handbrúður og stundum sjálfan sig.
Svo kemur smátt og smátt yfir mann doðinn sem fylgir því hversdagslega, og einstaka sinnum upplifi ég það að sonur minn sé orðinn hluti af grámósku hversdagsins. Þessar tilfinningar hræða mig því ég veit að þetta er doðinn sem svæfir mann svefninum sem maður vaknar kannski upp af eftir 10, 20 eða 30 ár og fattar að maður hefur misst af öllum mikilvægu hlutunum í lífinu. Litlu hlutunum. Þessum sem gera lífið.
Ég verð að passa mig að halda mér vakandi
...því mér þykir alveg óskaplega vænt
um þennan litla dreng.
Meira þessu líkt: Logi Garpur, Lífssýn.
Svör frá lesendum (2)
Tryggvi R. Jónsson svarar:
Í tilefni af þessu: Lífið er það sem kemur fyrir þig á meðan þú ert upptekinn við að gera eitthvað annað.
20. október 2003 kl. 12:37 GMT | #
Qi svarar:
Mikið óskaplega held ég að stúfurinn eigi eftir að hafa gaman af að lesa þessa dagbók eftir svona 30 ár.
20. október 2003 kl. 22:29 GMT | #