Er sænska leiðin góð?
Í framhaldi af hugleiðingum mínum um sænsku leiðina svokölluðu, þá þætti mér fróðlegt að vita hvað fylgismenn nýja frumvarpsins, sem leggur til að sænska leiðin verði farin hér á landi, hafa að segja um það sem kom fram í kvöldfréttum RÚV, að sænskur mannfræðingur sem kannað hefur málin heldur því fram að aðstæður vændiskvenna í Svíþjóð hafi versnað eftir tilkomu laganna.
Í vor átti ég þó nokkur samtöl um vændi og sænsku leiðina við fólk í femínistafélaginu og hjá Stígamótum. Ég var forvitinn og spurði aftur og aftur hver reynslan hefði verið í Svíþjóð - hvort aðstæður vændiskvenna hefðu eitthvað batnað við að "viðskiptavinirnir" voru skilgreindir sem glæpamenn, etc. Enginn virtist hafa nein svör við þessum spurningum mínum. Ýmist var fullyrt að fylgismenn frumvarpsins í Svíþjóð (pólitíkusar) væru ánægðir með breytinguna sem augljóslega segir manni ekki neitt, eða því borið við að enn væri ekki liðinn nægur tími til að áhrifin væru almennilega ljós. Þegar ég spurði hvort ekki væri eðlilegt að bíða átekta þar til einhver reynsla væri komin á sænsku leiðina í svíþjóð, þá var svarið einatt: "Nei, það er enginn ástæða til þess að bíða, við þurfum að breyta lögunum strax, aðalatriðið er að fá opinbera/lagalega viðurkenningu á því að vændi sé ofbeldi". Mér fundust þetta ekki góð svör.
Einhvern veginn grunar mig að einhverjir fylgismenn sænsku leiðarinnar hér á landi séu nú þegar búnir að stimpla sænska mannfræðinginn sem ómarktækan kvenhatara sem ekkert veit. ;-)
P.S. Bjarni birti um daginn langan pistil með sínum hugleiðingum um vændisvandann.
Meira þessu líkt: Farsímablogg, Pólitík.
Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.