Kl. 22:55: Séð og heyrt taktar í vefbransanum?
Dísil-Oddur skrifar um elsku bransann okkar og gagnrýnir fyrirtækið ECWeb fyrir fréttatilkynningu sem þeir sendu nýverið frá sér þar sem megnið af púðrinu fór í að nafngreina í neikvæðu samhengi fyrirtæki og hugbúnað sem ECWeb er í samkeppni við, og til þess voru notaðar mis-beinar tilvitnanir og sögusagnir.
Ég tek hjartanlega undir með Oddi að svona framganga gerir ekkert nema að koma óorði á alla hlutaðeigandi (ekki síst ECWeb sjálfa) og elsku vefbransann okkar í heild sinni.
Upphafilegi titillinn á þessari færslu var "Mikil ánægja með Odd hjá Má"
.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Tryggvi var rétt í þessu að breyta vefslóðunum í dagbókinni sinni í takt við það sem ég lýsi í hinni geysivinsælu færslu "Future-proof URLs in Movable Type". Með þessu er Tryggvi búinn að negla vefslóðir dagbókarinnar sinnar niður í form sem þarf líklega aldrei að breytast héðan í frá.
Þá var bara eftir að ákveða hvernig ætti að áframsenda fólk sem smellti sér inn á vefinn hans eftir gömlu slóðunum. Eftir smá ábendingu frá mér ákvað hann að fara tæknilega frumstæðustu og viðhaldsfríustu leiðina - hann lét dagbókarkerfið (Movable Type) skrifa yfir gömlu síðurnar/slóðirnar með stuttum skilaboðum um að viðkomandi vefslóð væri úrelt og framvísun á nýju slóðina (dæmi). Þetta þurfti hann bara að gera einu sinni, og héðan í frá þarf hann bara að passa að eiga öryggisarfit af þessum 739 nnnnnn.html skrám sem liggja þarna og framvísa þegjandi villuráfandi vefgestum á réttar slóðir á vefnum hans.
Til hamingju Tryggvi. Framtíðin er björt. ;-)
Svör frá lesendum (1) |
Varanleg slóð
Kl. 21:48: Vændi og sænska leiðin
"Sænska leiðin" í vændismálum gengur út á að skilgreina vændiskonuna sem saklaust fórnarlamb og kaupandann sem glæpamann. Geta einhverjir fylgismenn þessarar leiðar útskýrt fyrir mér hvert raunverulegt markmið hennar er?
Er aðalmarkmiðið að minnka umfang vændis eða er aðalmarkmiðið að minnka eymd og óhamingju vændiskvenna? "Bæði" er ekki gilt svar, því ég er að velta fyrir mér hvort markmiðanna er aðal.
Annars þarf ég að hætta að tjá mig um svona mál opinberlega. Það kann seint góðri lukku að stýra að hafa skjalfestar skoðanir á umdeildum málefnum. :-)
Svo ég skjóti mig örugglega í báða fæturna í þessum efnum, þá er hér leiðrétt afrit af því sem ég skrifaði á vefsíðuna hans Matta:
Þetta er margflókið málefni með engar augljósar/fullkomnar lausnir. Allar eru þær ýmist gagnslitlar eða með hvimleiðum aukaverkunum - nema bæði sé...
Það truflar mig óneitanlega við "sænsku aðferðina" að með henni er skrefið stigið til fulls í því að fórnarlambavæða með formlegum hætti heilan hóp fólks (vændisfólks) sem hlýtur að stunda þessa iðju á ólíkum forsendum.
Ég hef það sterklega á tilfinningunni að sama hvað fólk óskar þess heitt þá muni aldrei takast að uppræta vændi að neinu marki. Hins vegar tel ég að það sé vel hægt að fækka (og jafnvel útrýma alveg) þeim tilfellum þar sem vændi er stundað í skugga þrælahalds og ofbeldis, en því miður er mér ómögulegt að sjá hvernig sænska leiðin á að koma að gagni við það - því hún felst einmitt í því að fella alla kaupendur vændis og allt vændisfólk undir einn hatt (glæpamenn annars vegar og fórnarlömb hins vegar).
Að mínu mati er mun nærtækara að líta á vændisþrælkun sem dæmi um þverbrotna vinnulöggjöf og þrælahald sem þarf að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Vændisþrælarnir eru í raun í fullkomlega sambærilegri stöðu og verkamannaþrælarnir sem Impreglio er að misnota á Kárahnjúkasvæðinu, og við ættum að geta barist gegn vændisþrælkuninni með sambærilegum ráðum. Eða hvað?? Ef ekki, hverju þarf þá að breyta í aðstæðum vændisfólks til að hægt sé að berjast gegn þrælkun þeirra með sambærilegum aðferðum og þeim sem virðast skila árangri í öðrum geirum?
Eitt finnst mér þó ljóst, að við verðum að breyta lögunum þannig að vændisfólk sé ekki lengur skilgreint sem glæpamenn. Núverandi löggjöf er skammarleg forneskja.
Svör frá lesendum (2) |
Varanleg slóð
Kl. 02:28: Stundum les ég vitlaust
Það kemur fyrir nokkrum sinnum á dag að ég renni hratt yfir fyrirsagnir á RSS fréttalistum og misles þær á einhvern hátt sem mér finnst fyndinn. Svona "freudísk" mistök í lesstöðinni í heilanum á mér. Mig hefur lengi langað til að prófa að skrá skipulega niður þessar mislesnu fyrirsagnir mér til gamans.
Því þessi tilraun: Úrval - fyrir beslinda.
Uppfært tveimur vikum síðar: Þetta var stundarbrjálæði sem reyndist ekkert sniðugt. Vísunin er brotin.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum