At 13:31: This is Your Blog on Money
Nick Denton on Google Adsense:
"Here's a prediction: [Google's] text ads will force weblogs to become more like traditional media sites. Shorter front pages, more internal links, longer content." ... "Text ads will give blogs a business model; but they'll also warp the format."
Here's my prediction: Only a small number of weblogs will bother with putting up text ads, so the format itself will not be warped. It's only that the old lines betweeen commercial-and-volunteer, pro-and-amateur, blog-and-newssite will become more and more blurred.
The old weblog format will continue to exist, it may just become a little harder to find in it's "purest" form.
Note to self: Purity sucks. I'm seriously considering to sign up for Google's Adsense program.
Post your Comment |
Permalink
Kl. 12:53: Halló, ég heiti Már og ég er rauðhærður
Hárið á mér er ekki eldrautt, en rautt engu að síður. Ég er fæddur árið 1975 og ólst upp í litlu samfélagi úti á landi. Allt frá barnæsku áttaði ég mig á því að það var stríðnisefni að vera rauðhærður. Fyrir barn var það ekki ósvipað því að vera með gleraugu. (Í dag geng ég með gleraugu.)
Auðvitað lærði mín kynslóð að það væri ljótt að stríða, og sér í lagi væri ljótt að stríða fólki sem væri rauðhært. Það væri ekkert að því að vera rauðhærður. Rautt hár væri eðlilegasti hlutur í heimi. Það væri bara barnalegt og hreinlega hlægilegt að gera stríða einhverjum á einhverju jafn hversdagslegu og því að vera með rauðum háralit... ...Af einhverjum ástæðum þótti foreldrum okkar engin ástæða til að taka jafn skýrt fram að það væri engin ástæða til að stríða þeim sem eru ljóshærðir eða dökkhærðir. Af einhverjum ástæðum virtist það liggja í barnsaugum uppi að það væri hægt að beita rauðum háralit gegn fólki sem vopni í stríðni - það var jú bannað.
Á uppvaxtarárum mínum í litla bænum á landsbyggðinni slapp ég að mestu leiti við að vera strítt með því að vera rauðhærður. (Líklega var af nógu öðru að taka.) Hins vegar vissi ég alla tíð að hárið á mér var einn af stóru líkamlegu göllunum við mig.
Ég flutti suður í borgina og í menntaskóla. Þar stríddi mér enginn, en ég vissi samt inn í mér að rauða hárið var ein af þessum litlu fötlunum sem ég bar (ásamt vægri nærsýni, of djúpu biti/litlum kjálka o.fl.). Menntaskólakærastan mín reyndi að telja mér trú um að rautt hár væri bara flott (á þessum árum benti einhver mér á að ég væri svolítið líkur Eric Stoltz), en auðvitað var ekki mark takandi á henni - hún reyndi á sama tíma að telja mér trú um að hún væri feit! Halló!!?
Ég held að ég hafi verið orðinn rúmlega tvítugur þegar ég loksins sættist við hárið á mér. Tvítugur ákvað ég loksins að hætta að flokka rauða hárið mitt sem líkamslýti. Tvítugur ákvað ég að mér væri nákvæmlega sama hvernig hárið á mér væri á litinn. Tvítugur ákvað ég að það væri bara dáldið fínt að vera rauðhærður. Í dag finnst mér tuttugu vera allt of langur tími til að komast að svona niðurstöðu.
Sonur minn Garpur er rauðhærður. Hann er ekki bara rauðhærður heldur eldrauðhærður. Ég vona að hann vaxi úr grasi án þess að vera komplexaður yfir kollinum á sér. Ég vona að íslenskt samfélag sé ekki alveg eins bjánalegt og það var fyrir 27 árum síðan.
Svör frá lesendum (15) |
Varanleg slóð
Kl. 10:29: Lengi lifi einokunin!
Verisign eru fyrirtæki sem hefur einkarétt á að úthluta lénum með .com, .net og fleiri endingum. Einkaleyfi (einokun) Verisign nær bara til þess að skrásetja og úthluta lénunum, en frjáls samkeppni ríkir í því að selja lénin og veita kaupendum tæknilega þjónustu. Nýverið tóku Verisign þá ákvörðun að eigna sér öll óskráð netlén, en það veldur m.a. því að Netið hættir að geta svarað með stöðluðum hætti "lénið er ekki skráð" því verisign grípur allar beiðnir eins og lénin séu skráð og svarar í flestum tilfellum með auglýsingasíðu og leiðbeiningum um hvernig má kaupa viðkomandilén af Verisign. Þar með er einokunarhluti Verisign (hlutinn sem sér um tæknilega umsjón léna) að skara eld að sinni samkeppnisköku (hlutanum sem selur lénin og þjónustar viðskiptavini).
Bjarni útskýrir ágætlega af hverju þessi aðgerð Verisign hefur alvarlegar aukaverkanir fyrir alls kyns hugbúnað og samskiptakerfi, s.s. tölvupóst o.fl.
Í öðrum fréttum er að Microsoft tapaði nýverið dómsmáli sem lítið fyrirtæki höfðaði gegn þeim fyrir meinta óleyfilega notkun Microsoft á einkaleyfi sem litla fyrirtækið á. Einkaleyfið nær yfir notkun "viðbóta" (e. plug-in) og keyrslu hver kyns íforrita og smáforrita sem hluta af vefsíðum. Microsoft var dæmt til að borga hálfan milljarð dollara í skaðabætur og til að uppfæra Internet Explorer þannig að ekki verði lengur hægt að keyra Flash myndir, Java Applet, RealVideo o.þ.h. sem hluta af vefsíðum. Niðurstaðan er auljóslega mjög slæmar fréttir fyrir vefhönnuði, almenna netnotendur og þann stóra fjölda fyrirtækja sem byggja afkomu sína á kerfisviðbótum fyrir Internet Explorer.
Í fljótu bragði virðist þetta líka vera alveg skelfilegar fréttir fyrir Microsoft, en þegar betur er að gáð má færa rök fyrir því að skaðinn fyrir Microsoft sé mun minni en ætla mætti. Málið er að Microsoft hefur hlotið dóm fyrir einokunartilburði og á fyrirtækinu liggja nú strangar kröfur um að þeir geri ekkert að eigin frumkvæði sem túlka má á þann veg að þeir séu að drepa samkeppnisaðila sína. Sér í lagi mega þeir ekki breyta Internet Explorer að eigin frumkvæði til að útiloka kerfisviðbætur frá fyrirtækjum sem keppa við kerfisviðbæturnar sem Microsoft skrifar (Windows Media Player, etc.).
Microsoft er núna á fullu að skrifa nýja útgáfu af Windows með nýrri útgáfu af Internet Explorer hugbúnaði sem á að verða fullkomlega samofinn stýrikerfinu. Í þessari nýju samsuðu vafra og stýrikerfis á öll birting margmiðlunarefnis og forritshluta á vefsíðum að vera innbyggð í vafra-stýrikerfið í stað þess að byggjast á utanaðkomandi "kerfisviðbótum" eins og hún hefur verið hingað til. Í ljósi þess má ímynda sér að Microsoft sjái ýmsar jákvæðar hliðar á því að hafa á dögunum tapað einkaleyfismálaferlunum gegn þessu litla fyrirtæki, því núna eru þeir með í höndunum tilskipun uppákskrifaða af dómstólum um að skaða flesta samkeppnisaðila sína í margmiðlunarbransanum.
Jeffery Zeldman, NYTimes og fleiri velta fyrir sér þessari nýju og skemmtilegu samsæriskenningu. :-)
Svör frá lesendum (1) |
Varanleg slóð
Kl. 09:48: Jósi Diss og skrýtna göngulagið mitt
Alltaf hægt að treysta Jósa til að vera fimur í dissinu. Leiðinlegi ég og skræki Rökkvi fengum smá sýnishorn frá honum í umræðu gærdagsins. Jósi stóð sig bara miklu, miklu betur í þessu en Rökkvi. Gaman að því! :-)
Annars finnst mér alltaf minna fyndið að gera grín að einhverju sem fólk getur ekkert gert að -- t.d. rödd þess eða vaxtarlagi. Hins vegar eru gráu svæðin mjög stór í þeim málum. T.d. þyki ég víst hafa ansi sérstætt göngulag, en samt hef ég aldrei getað fengið botn í það hvað er svona sérstætt við það. Athugasemdirnar sem ég hef fengið eru svo misvísandi að ég hef gefist upp á að skilja "vandamálið" og geng því bara eins og mér finnst best.
Ég hef alla tíð gengið mikið og hlaupið. Ég lít á fæturna á mér sem mitt farartæki, og sem slíkir þá virka þeir bara ansi vel. Það eina sem ég veit fyrir víst er að fólk virðist þekkja mig langar leiðir á göngulaginu, og eftir svolitlar vangaveltur og sálarkrísur út af því þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé bara allt í lagi að hafa einkennandi göngulag.
Mér finnst gott að vera svolítið skrýtinn. Skrýtnu atriðin eru það sem gera mig að mér.
Svör frá lesendum (5) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum