"Opin" ritstjórn í vefumsjónarkerfum

Skrifað 27. ágúst 2003, kl. 13:23

Í gegnum árin í vefbransanum hef ég tekið eftir því að eitt af því fyrsta sem flestir stjórnendur fyrirtækja spurja um þegar þeir eru að kynna sér ný vefumsjónarkerfi er: "Getur kerfið leyft mér að stjórna því hvaða notendur mega gera hvað?" og "Er hægt að búa til fast ritstjórnarferli sem efni verður að fara í gegn um áður en það birtast á vefnum?"

Staðreyndin er sú að þessar spurningar eru oftast hvorki nauðsynlegar né yfir höfuð skynsamlegar.

Í greininni Wikis, Grafitti, and Process útskýrir Clay Shirky af hvers vegna "stjórnlaus" vefkerfi (t.d. Wiki kerfi) virka jafn vel og raun ber vitni.

Það má líta á Wiki kerfi sem gott dæmi um "opna öryggishönnun" eða "opna ritstjórn". Kerfið er galopið og litlar sem engar læsingar eða bönn í gangi (allir sem fá hugmynd geta framkvæmt hana). Aftur á móti er mikil áhersla lögð á að skrá vandlega hver gerir hvað hvenær, og auðvelda notendum að eyða óheppilegum breytingum/viðbótum.

Þannig er öll áherslan á að virkja jákvæða sköpunarorku notendanna, og gera "hafræði" samfélagsins þannig úr garði að það svari almennt ekki "kostnaði" að standa í niðurrifsstarfssemi, eða eins og Clay Shirky orðar það: "[On the Wiki] it takes longer to set fire to the building than put it out, it takes longer to grafitti the wall than clean it, it takes longer to damage the page than restore it."

Niðurstaðan er stóraukin framleiðni í (samfélags)kerfinu. Hins vegar, af því að litlar sem engar læsingar eða verkferlareglur eru innbyggðar í hugbúnaðinn, þá verður sköpunin og sköpunarferlið stundum dáldið ófyrirsjáanlegt - og að sama skapi spennandi.

Ókostir of mikillar stýringar:

Stíf ritstjórn og verkferlastýring er yfirleitt óþarfi og þeim fylgja oftar en ekki fleiri ókostir en kostir.

  • Kerfið verður flóknara í notkun. Hærri þjálfunarkostnaður, lengri aðlögunartími, og þekkingin lifir hjá færri einstaklingum innan fyrirtækisins. Þátttökuþröskuldurinn hækkar.
  • Kerfið verður flóknara í framleiðslu, og þar með dýrara í innkaupum. Þjónustukostnaður hækkar yfirleitt í samræmi við það.
  • Lengri viðbragðstími. Flóknara ritstýringarferli býður upp á fleiri brotalamir sem getur verið erfitt að vinna sig fram hjá. Hvað gerist ef starfsmaður í miðju ritstjórnarferlinu verður veikur í 2-3 daga? Stöðvast útgáfa á vefinn á meðan? Hver getur greitt ú flækjunni? Er sá aðili viðlátinn öllum stundum? Snöggur viðbragðstími í vefútgáfu verður sífellt mikilvægari.
  • Meiri flækja/tregða letur starfsmenn í að nota kerfið, og eykur líkurnar á því að starfsmenn leiti leiða framhjá ritstýringunni til að spara tíma og erfiði (t.d. sendi textann sem word skjal í tölvupósti beint á yfirritstjórann frekar en að nota dýra fína vefumsjónarkerfið).

Ef ekki stíf stýring, hvað þá?

  • Kerfið þarf að halda nákvæmt bókhald yfir allar breytingar á öllum síðum/greinum/skjölum. Hver gerir hvað og hvenær. Í kerfisstjórnborðinu þarf að vera stór yfirlitssíða sem birtir fréttir/tilkynningar um allar breytingar um leið og þær gerast. Allir notendur eiga að geta fylgst með breytingum, skoðað þær og tilkynnt mistök/skemmdarverk til ritstjóra (eða lagað þau sjálf þar sem það á við).
  • Ef nauðsyn krefur að sérstök ritstýring sé viðhöfð, þá þarf sú stýring að vera á sem einföldustu formi. Helst ekki flóknari en svo að í kerfinu séu bara tvær tegundir af notendum: 1) þeir sem geta skrifað/breytt/bætt og hins vegar 2) þeir sem geta samþykkt nýtt efni/breytingar/viðbætur og birt almenningi.
  • Mikilvægt er að hafa marga "ritstjóra" svo ferlið stöðvist aldrei þó einn ritstjóri forfallast fyrirvaralaust í einn eða fleiri daga.
  • Einfaldleiki virkjar starfsmenn til að gera það sem þarf að gera, og allir vita hvernig fólk gengst upp í því að því sé treyst, og forðast að vinna skemmdarverk ef það veit að samstarfsfólk þess fylgist með því.

Til umhugsunar

Flest fyrirtæki hafa ákveðnar vinnureglur og verkferla í sinni stafssemi. Þessum "reglum" hefur hingað til verið framfylgt með mannlegum samskiptum. Það tryggir m.a. að ákveðinn sveigjanleiki er innbyggður í kerfin til að bregðast við ófyrirséðum vandamálum sem óhjákvæmilega koma upp af og til. (Hugbúnaðarkerfi hafa almennt ekki þennan mannlega sveigjanleika.)

Sér í lagi hafa flest fyrirtæki ákveðnar reglur um það hvernig fréttatilkynningar eru samdar og sendar, og hvernig kynningargögn um fyrirtækið verða til. Þessar reglur byggjast á mannlegum samskiptum og eðlilegu trausti fólks í millum, og hafa virkað nokkuð vel hingað til.

Þó að fréttatilkynningar og annað kynningarefni sé búið til og birt með rafrænum hætti á vefnum, þýðir ekki að við getum ekki lengur treyst á mannleg samskipti og skynsemi. Það er ekkert í sambandi við vefútgáfu sem kallar á að við rígbindum alla þætti sköpunarferlisins niður í rafrænar læsingar og stíf samþykktarferli. Við erum ennþá sæmilega skynsamt fólk með það að sameiginlegu markmiði að vilja koma hlutunum í verk.

Við þurfum því að passa okkur að falla ekki í þá gryfju að gera hlutina of flókna, bara af því við getum það - t.d. að rígbinda samskiptaferla innan fyrirtækisins í hugbúnað bara "af því það er hægt", án þess að huga að því hvaða kostnaður fylgir því beint og óbeint.


Meira þessu líkt: Hönnun, Nothæfni, Útgáfa.


Svör frá lesendum (5)

  1. Bjarni Rúnar svarar:

    Heyr heyr! :)

    27. ágúst 2003 kl. 13:54 GMT | #

  2. Finnur svarar:

    Hjartanlega sammála.. Brosi alltaf svolítið þegar lítil og meðalstór fyrirtæki biðja um overkill admin kerfi með ferlum og tilheyrandi í ritstýringu á vefnum sínum. Reglan er nefnilega sú að það er oftast það fyrsta sem er tekið úr sambandi eftir að vefur kemst á koppinn. Þeir sem skrifa efnið fá admin aðgang til að klippa á þann hnút sem ritstjórnarferlið er.

    Það er ekki fyrr en efnið fer að koma frá 15 eða fleiri aðilum (sem vinna það beint inn í kerfið) og að ímynd vefsins sé formleg og virðuleg að gera þarf ráð fyrir einhverju ritstýringarferli. Mér þætti gaman að vita nákvæmlega hversu margir vefir það eru hér á landi sem eiga við þá kríteríu. Mig grunar að það séu undir 10%

    27. ágúst 2003 kl. 14:38 GMT | #

  3. Freyr svarar:

    Örugglega langt undir 10%, en mér dettur samt alltaf í hug (no pun intended) Huga (http://www.hugi.is) þegar þessi umræða kemur upp. Ritstjórnarferðlið þar (ef einhver skyldi ekki vita það) er þannig að hver sem er getur skrifað inn grein og hópur af fólki (flokkað eftir áhugamálum) annað hvort samþykir greinina eða hafnar henni (eða hafnar henni sem grein en samþykir sem nýjan póst á kork-spjallinu).

    Þetta svosum virkar og þeir eru duglegir að hleypa nánast öllu í gegn nema "greinar" sem eru bara bull. Það er gott mál. Hins vegar geta notendur skrifað álit við greinar - sem eru algjörlega óritstýrð! Ég get varla lýst þeirri pínu sem fylgir því að lesa góða grein og rúlla svo í gegnum álitin sem eru flest svo illa skrifuð að ómögulegt er að ráða úr hvað viðkomandi hafi verið að reyna koma frá sér. Enn fleiri álit eru líka eins-orða eða eins-setninga upphrópanir sem bæta ekkert við umræðuna.

    Þegar síður eru orðnar jafn vinsælar og hugi.is þá finnst mér einhverskonar fjölda-ritstýring mætti eiga sér stað - kannski stjórnendur Huga sjá sér fært að kíkja á álitskerfi Slashdots (http://slashdot.org/)?

    27. ágúst 2003 kl. 16:10 GMT | #

  4. Tóró svarar:

    Tek algerlega undir pistil þinn Már (enda höfum við rætt þetta oftar en einu sinni okkar í milli - ef mig misminnir ekki).

    Ég held að svona kröfur séu yfirleitt illa ígrundaðar, menn hafi sett sig í einhverjar kerfisstellingar og ætli að tryggja að allt sé pottþétt með því að niðurnjörva það í KERFIÐ.

    Í mínum augum felst hins vegar í svona beiðnum ákveðið vantraust á samstarfsmennina og þeirra hæfni.

    Um öll verkefni innan fyrirtækja eru ákveðnar verklagsreglur, formlegar eða óformlegar. Það er ekki settur lás á símhringingar starfsmanns í t.d. Pennann þótt viðkomandi sé ekki sá sem pantar inn skrifstofuvörur! Það er einfaldlega ljóst hver hefur það hlutverk, en ekki settar upp tæknilegar takmarkanir sem koma í veg fyrir 'reddingar' ef þeirra skyldi vera þörf.

    Í öllum fyrirtækjum af 'normal' íslenskri stærð á að duga að umsjónarkerfið geti eins og þú segir fylgst með hvaða breytingar eru framkvæmdar og auðveldað að afturkalla þær ef mistök verða.

    Auðvitað er eðlilegt að setja upp takmarkanir á því t.d. hvaða notandi getur stofnað nýja notendur í kerfinu - en ritstjórnarkerfi er yfirleitt óþörf krafa.

    27. ágúst 2003 kl. 17:15 GMT | #

  5. Salvör svarar:

    Gaman að fá þessa grein.

    Ég er einmitt núna að pæla í Wiki og ætla að kynna svona kerfi í áföngum hjá mér í KHÍ núna í haust og láta vera valfrjáls verkefni að setja inn gögn á wiki.

    Ég held þetta sé góð leið til að kynna nemendum svon a hugsunarhátt að allir séu að miðla og allt sé opin. Þetta er næsta skrefið - allt er opin og allir geta breytt öllu.

    Þetta er alveg ný aðferð við að byggja upp þekkingarkerfi það sem margir taka þátt.

    Ég er með nokkrar hugmyndir sem mig langar til að prófa í sambandi við wiki.

    28. ágúst 2003 kl. 08:48 GMT | #

Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.


 

Flakk um vefsvæðið



 

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)