Fordómar tölvuorðanefndar?
Er ekki löngu kominn tími til að parkera þessari Tölvuorðanefnd sem hefur helst unnið sér það til frægðar að hafa búið til hverja amböguna og íðorðsómyndina á fætur annari? ...nei ég bara spyr svona. :-)
ACO-Tæknival birti fyrr í vikunni pistil um "heimsmet" Íslendinga í bloggi (fregnir sem birtust fyrst hjá mér og fóru þaðan í Moggann - mitt fyrsta skúbb :-) Í pistlinum kemur að Tölvuorðanefnd hafi ákveðið upp á sitt einsdæmi að vefdagbækur/vefleiðara/annála/blogg hétu á íslensku "raus" - eða eins og kemur fram á heimasíðu Tölvuorðanefndar:
Frá ómunatíð hafa menn rausað um gerðir sínar og hugsanir og nú er kominn nýr miðill, lýðnet og veraldarvefur, þar sem aðrir geta fylgst með rausinu. Einhverjum hefur hugkvæmst að gefa þessu athæfi nýtt heiti og tala um blogg, að blogga og jafnvel bloggun. En er nokkur þörf á þessum nýju heitum þó að miðillinn sé nýr?
Er ekki ágætt að halda áfram að rausa og leyfa öðrum að lesa rausið? Og sá sem rausar er rausari. Ef menn vilja minna á nýja miðilinn mætti kalla athæfið vefraus.
Salvör grípur þetta strax á lofti og bendir á hversu greinilega þýðingin endurspeglar fordóma og þekkingarleysi þeirra sem skipa Tölvuorðanefnd. Mér þætti líka mjög forvitnilegt að vita hversu margir meðlima Tölvuorðanefndar halda eigin dagbækur eða stunda persónulega útgáfu á vefnum. Tveir? Einn? Enginn? Hefur þetta fólk eitthvað kynnt sér umræðuna sem hefur átt sér stað meðal okkar í íslenska vefdagbóka-/bloggheiminum undanfarin ár?
Þetta er ekki heldur í fyrsta skipti sem Tölvuorðanefnd gerist sek um að láta persónulega fordóma í garð ákveðinnar tækni birtast í þýðingum sínum. Sígilt dæmi er þýðing þeirra á "cookie" eða smákökum sem vefsvæði senda vöfrum með sumum síðum. Nefndin valdi orðið "smygildi" sem er náttúrulega aðaðlega kjánalegt orðskrípi, og að auki uppfullt af fordómum nefndarmanna:
Fyrir nokkru var orðanefndin beðin um þýðingu á þessu fyrirbæri og lagði þá til þýðinguna smygildi en því orði hefur ekki verið haldið á lofti. Með því að leita í fyrrnefndri orðabók á vefnum fæst skilgreining sem þýða mætti sem 'upplýsingapakki sem sendur er í tölvu notanda þegar hann fær aðgang að vefmiðlara og er síðan sendur til baka í hvert skipti sem notandinn fær aðgang að þeim miðlara'. Þegar smygildið kom til umræðu í nefndinni var sú tilfinning sterkust að verið væri að smygla sér inn í tölvu notandans. Smygildi er skylt sögninni að smjúga. Þessu orði er hér með komið á framfæri.
Eflaust eru til fleiri dæmi um svona gildishlaðnar þýðingar frá nefndinni.
Það er stundum eins og nefndin sé föst upp í einhverjum fílabeinsturni, úr öllum tengslum við okkur alvöru fólkið í tölvu-/netheiminum. Sem betur fer skipta störf svona nefndar næstum engu máli því nefndin þýðir einhver hugtök og kemur þýðingunum á framfæri, við hin hlægjum að kjánaskapnum og höldum áfram og komumst sameiginlega að lýðræðislegri/darwinískri niðurstöðu um einhverja allt aðra og mun betri þýðingu og notum hana þar eftir. :-)
Mér finnst tölvuorðanefnd alveg ótrúlega krúttlegt fyrirbæri. Hún er í mínum huga stór og loðin - eins og Dódófugl.
Nýleg svör frá lesendum