Er íslenska í 10. sæti í vefdagbókaheiminum?
Mbl.is vitnar í mig í morgun. Alltaf gaman að því.
"Már Örlygsson, einn af frumherjum vefdagbóka á Íslandi, segir að honum komi ekki á óvart hversu ofarlega Íslendingar skipi sér á þessum lista. 'Það væri ekki ólíklegt að Íslendingar væru að slá heimsmet í þessu eins og hverju öðru. Við eigum það til að byrja ívið seinna og vorum svona tveimur til þremur árum á eftir t.d. Bandaríkjamönnum að byrja [á blogginu]. Ég hugsa hins vegar að þetta sé orðið miklu stærri hluti af netsamfélaginu á Íslandi heldur en það er í Bandaríkjunum,' segir Már."
Ég held að það sé rétt að leggja áherslu á orðin "einn af"
í fyrstu línu efnisgreinarinnar.
En, hey Mbl! hvernig væri að fara að nota HTML vísanir (hér eru leiðbeiningar)? Þá gætuð þið vísað á upprunalegar heimildir fréttarinnar svo áhugasamir lesendur gætu kynnt sér málið nánar. Svo væri ég líka alveg til í að fá smá traffík frá Mbl.is. ;-)
Ein af röksemdunum sem ég gaf blaðamanni fyrir því að vefdagbækur væru orðnar stærri þáttur í íslensku samfélagi en því bandaríska, er að í Bandaríkjunum þykir enn sæta miklum tíðindum ef pólitíkusar halda opnar vefdagbækur, en hér á landi er það orðið bara nokkuð alvanalegt.
Forsaga og heimildir
Blaðamanninum hringdi í mig í gærkvöldi út af erlendri síðu sem ég vísaði á um daginn, þar sem því var haldið fram að Íslenska væri 10 vinsælasta tungumálið í vefdagbókaheiminum.
Hér er listi Blogcensus.net yfir algengustu tungumálin og upplýsingar um aðferðafræðina sem þeir beita til að finna og skilgreina vefdagbækur og giska á hvaða tungumáli þær eru skrifaðar. Úrtakið er vissulega stórt, tæplega 700.000 "dagbækur", en mjög líklega ekki mjög lýsandi fyrir þýðið.
Mig grunar t.d. að það séu stór "net" af vefdagbókum á öðrum tungumálum í öðrum heimshlutum sem lifa fullkomlega sjálfsstæðu lífi og hafa svo fáar tengingar í vefdagbækur fyrir utan að litlar leitarvélar eins og Blogcensus hafi hreinlega ekki fundið enn, og þegar þau hins vegar finnast á endanum, þá muni staða íslands á listanum breytast mjög hratt. Það má samt gleðjast yfir því að á tungumálayfirlitssíðu Blogtree.com (síðan er niðri sem stendur) er íslenskan mjög nálægt því að vera í 10. sæti yfir algengustu tungumálin.
...en Ísland er svo lítið og allir hér þekkja alla, og því ætti ekki að vera mjög erfitt að telja allar íslenskar vefdagbækur og halda nokkuð vel utan um fjölgun þeirra. Svoleiðis framtak gæti auðveldlega haldist í hendur við það verkefni að viðhalda lista yfir RSS skrár allra íslenskra vefdagbóka (og vefsíðna).
Að lokum má benda á að Guðlaugur Kristján Jörundsson heldur úti lista yfir íslensku dagbækurnar í Blogcensus grunninum. Ágætt framtak það.
Meira þessu líkt: Lifandi tunga, Útgáfa.
Svör frá lesendum (4)
Tryggvi R. Jónsson svarar:
Er þetta ekki spurning um að við eigum flest ,,blogg" m.v. höfðatölu?
28. júlí 2003 kl. 10:22 GMT | #
margeir svarar:
Talandi um vísanir og mbl.
Er ekki flottara að vísa í mbl fréttina svona? http://www.mbl.is/mm/frettir/showframednews?nid=1042761
28. júlí 2003 kl. 14:23 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1042761 er vefslóðin sem Mbl gefur upp. Ég notaði bara sömu vefslóð og þeir. Hlýtur það ekki að vera nægilega flott? ;-)
28. júlí 2003 kl. 14:34 GMT | #
Gulli svarar:
Það sem pirrar mig mest við þessa frétt mbl er að tala um að þetta sé skv. einhverri könnun. Einnig er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en það sé verið að tala um niðurstöður. Crawlerinn hjá þeim er ennþá að safna bloggum.
Þessi crawler er ekki fullkominn. Það vantar heilan helling af bloggum. Einnig læðast inn síður sem eru ekki blogg. Í mörgum tilvikum er tungumálið ekki rétt greint. T.d. gat crawlerinn ekki skilgreint tungumálið hjá okkar helsta bloggara, katrin.is. Hún mætti kannski vanda málið betur :)
Þannig að við gætum átt mun fleiri blogg í gagnagrunni blogcencus (sem eru skráð t.d. með tungumálið ensku) Nennir ekki einhver að fara yfir þessi 600.000 blogg sem blogcencus hefur skráð og veiða út öll íslensku bloggin :) Nei, kannski ekki.
28. júlí 2003 kl. 15:02 GMT | #