Færslur mánudaginn 28. júlí 2003

Kl. 20:46: Hvernig leysum við úr þessari stöðnun? 

Staðan á vefnum í dag:

  • Microsoft Internet Explorer er með um eða yfir 90% markaðshlutdeild.
  • Microsoft er hætt að þróa IE á Macintosh. (Nýjasta útgáfa vafrans kom út í mars árið 2000.)
  • Microsoft er hætt að þróa Internet Explorer fyrir Windows. (Nýjasta útgáfan, 6.0, kom út í október 2001, en hann hafði enga merkjanlega tæknilega kosti fram yfir IE 5.5 sem kom út í júní 2000.)
  • Næsta útgáfa af vefhugbúnaði frá Microsoft verður hluti af Windows "Longhorn" sem kemur út í fyrsta lagi árið 2005
  • Notendur Windows 2000 og XP eru almennt ánægðir og því mun það líklega taka 2-3 ár í viðbót fyrir merkjanlegan hluta Windows-notenda að skipta yfir í "Longhorn".

Því má segja að möguleikar vefbransans til að stækka og þróast hafi nokkurn veginn staðið í stað frá því um mitt ár 2000, og ef fer sem fram horfir, þá munum við þurfa að lifa við sömu stöðnunina allt fram til ársins 2007 eða 2008.

Þetta er augljóslega fullkomlega óviðunandi ástand sem eitthvað verður að gera í.

Við - fólkið á netinu, fólkið í bransanum - verðum að taka höndum saman um að auka markaðshlutdeild nýrra vafra. Við verðum að hjálpa vinum okkar, fjölskyldum og félögum að uppfæra vafrann sinn í eitthvað nothæft og með einhverja framtíð, og byrja sem fyrst að miða vinnubrögðin okkar við þá staðla og möguleika sem nútímahugbúnaður býður upp á, en ekki það sem viðgekkst fyrir 3 árum síðan - síðast þegar Microsoft þóknaðist að uppfæra ókeypis vafrann sinn.

[ Segjum nei við Microsoft stöðnun í vefhönnun. ] Markmiðið á ekki endilega að vera að bola Microsoft út af vaframarkaðnum, heldur einfaldlega að koma á almennilegri samkeppni við Microsoft vafrana til að koma í veg fyrir að við lendum aftur í svona stöðnunarástandi, og til að við getum loksins hætt að eltast við kröfuna um "það verður að líta 100% eins út á IE", og beitt kröftum okkar og kunnáttu að því komast lengra en við gátum árið 2000.

Áfram!

Svör frá lesendum (3) | Varanleg slóð

Kl. 19:57: Í kastljósinu áðan: 

"Rokka-billí, rokka-billí, rokka-billí búgí. Rokka-billí, rokka-billí, rokka-billí búgí... Rokka-billí, rokka-billí, rokka-billi búgí túnæææt..."

(Ég missti af því hver þessi gaur var með kúrekahattinn, sá þetta bara með öðru auganum og heyrði með öðru eyranu, en datt í hug Radíusfluga frá því í gamla daga.)

Svör frá lesendum (8) | Varanleg slóð

Kl. 15:05: IE er ekki náttúrulögmál 

[A crossed-over MS IE logo] Tim Bray: The Door Is Ajar. Ágætir punktar um stöðuna á vaframarkaðnum og stöðnunina hjá Microsoft.

Ég hvet alla til að sækja og setja upp Mozilla Firebird vafrann. Þetta eru örfá megabæti og uppsetningin er mjög fljótleg og einföld. Í dag nota ég engan annan vafra.

Áfram!

Svör frá lesendum (12) | Varanleg slóð

Kl. 10:05: Er íslenska í 10. sæti í vefdagbókaheiminum? 

Mbl.is vitnar í mig í morgun. Alltaf gaman að því.

"Már Örlygsson, einn af frumherjum vefdagbóka á Íslandi, segir að honum komi ekki á óvart hversu ofarlega Íslendingar skipi sér á þessum lista. 'Það væri ekki ólíklegt að Íslendingar væru að slá heimsmet í þessu eins og hverju öðru. Við eigum það til að byrja ívið seinna og vorum svona tveimur til þremur árum á eftir t.d. Bandaríkjamönnum að byrja [á blogginu]. Ég hugsa hins vegar að þetta sé orðið miklu stærri hluti af netsamfélaginu á Íslandi heldur en það er í Bandaríkjunum,' segir Már."

Ég held að það sé rétt að leggja áherslu á orðin "einn af" í fyrstu línu efnisgreinarinnar.

En, hey Mbl! hvernig væri að fara að nota HTML vísanir (hér eru leiðbeiningar)? Þá gætuð þið vísað á upprunalegar heimildir fréttarinnar svo áhugasamir lesendur gætu kynnt sér málið nánar. Svo væri ég líka alveg til í að fá smá traffík frá Mbl.is. ;-)

Ein af röksemdunum sem ég gaf blaðamanni fyrir því að vefdagbækur væru orðnar stærri þáttur í íslensku samfélagi en því bandaríska, er að í Bandaríkjunum þykir enn sæta miklum tíðindum ef pólitíkusar halda opnar vefdagbækur, en hér á landi er það orðið bara nokkuð alvanalegt.

Forsaga og heimildir

Blaðamanninum hringdi í mig í gærkvöldi út af erlendri síðu sem ég vísaði á um daginn, þar sem því var haldið fram að Íslenska væri 10 vinsælasta tungumálið í vefdagbókaheiminum.

Hér er listi Blogcensus.net yfir algengustu tungumálin og upplýsingar um aðferðafræðina sem þeir beita til að finna og skilgreina vefdagbækur og giska á hvaða tungumáli þær eru skrifaðar. Úrtakið er vissulega stórt, tæplega 700.000 "dagbækur", en mjög líklega ekki mjög lýsandi fyrir þýðið.

Mig grunar t.d. að það séu stór "net" af vefdagbókum á öðrum tungumálum í öðrum heimshlutum sem lifa fullkomlega sjálfsstæðu lífi og hafa svo fáar tengingar í vefdagbækur fyrir utan að litlar leitarvélar eins og Blogcensus hafi hreinlega ekki fundið enn, og þegar þau hins vegar finnast á endanum, þá muni staða íslands á listanum breytast mjög hratt. Það má samt gleðjast yfir því að á tungumálayfirlitssíðu Blogtree.com (síðan er niðri sem stendur) er íslenskan mjög nálægt því að vera í 10. sæti yfir algengustu tungumálin.

...en Ísland er svo lítið og allir hér þekkja alla, og því ætti ekki að vera mjög erfitt að telja allar íslenskar vefdagbækur og halda nokkuð vel utan um fjölgun þeirra. Svoleiðis framtak gæti auðveldlega haldist í hendur við það verkefni að viðhalda lista yfir RSS skrár allra íslenskra vefdagbóka (og vefsíðna).

Að lokum má benda á að Guðlaugur Kristján Jörundsson heldur úti lista yfir íslensku dagbækurnar í Blogcensus grunninum. Ágætt framtak það.

Svör frá lesendum (4) | Varanleg slóð

Kl. 09:23: Far: Öryggi vs. þægindi? 

Far er komið með sitt eigið símanúmer, þannig að bráðum verður ekki lengur þörf á að senda öll SMS skeyti í gegnum SMS-í-tölvupóst gáttir símfélaganna með þeim vandræðum sem því fylgja.

Nú er spurningin, eigum við að halda áfram að láta notendur senda dagbókarlykilorðið sitt fremst í hverju SMS skeyti, eða eigum við að láta notendur gefa upp lykilorðið sitt þegar þeir skrá sig í þjónustu Farsins?

Ég segi: "CID (caller ID) segir okkur hvaða símanúmeri SMS skeytið kemur úr, og því eigum við að einfalda hlutina fyrir notendum og sleppa helv. lykilorðinu fremst úr skeytunum".

Keli segir: "Ef við sleppum lykilorðinu úr skeytinu, þá geta þeir sem hafa aðgang að fyrirtækja-SMS-gáttum símfélaganna 'spoofað' sendingar því þeir geta stillt CID á hvaða símanúmer sem er".

Hvað er til ráða?

Svör frá lesendum (10) | Varanleg slóð

Kl. 08:57: Far - nýtt nafn á "SMS-bloggið" 

Við Keli höfum undanfarna viku verið að melta möguleg nöfn á SMS-blogg þjónustuna. Niðurstaðan er einfaldlega "Far", og í einhverjum tilfellum með ákveðnum greini - "Farið".

Okkur fannst þetta viðeignandi nafn af mörgum ástæðum.

Svör frá lesendum (4) | Varanleg slóð


 

Flakk um vefsvæðið



 

Færslur í júlí 2003

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)