Leitin að látúnsbloggaranum
Áfram heldur leitin að hinum sanna tóni hljóðbloggsins - að þessu sinni kemur útkoman í þremur þáttum.
- Frumsamið ástarhljóð: act-of-love.mp3
- Hjáróma sönglandi 1: song-one.mp3
- Hjáróma sönglandi 2: song-two.mp3
Hljóðupptökur sem útgáfuform eru í eðli sínu gerólíkar rituðu máli. Að blaðra í vefvæddan diktafón gegnum farsíma er kannski ágæt aðferð til að taka niður minnispunkta, en að ryðja út úr sér einhverra mínútna löngum farsímamónólógi og ætla honum að koma á einhvern hátt í staðinn fyrir skriflega dagbókarfærslu er bara tóm firra.
Einhverjir kunna að halda því fram að "talblogg" geti verið gagnlegt ef maður þarf að senda skilaboð í neyð og er ekki nálægt tölvu, en reyndin er sú að farsímar eru tölvur og með þeim er hægt að senda SMS skilaboð hvert á land sem er. SMS skeytum má auðveldlega breyta í dagbókarfærslur.
Nú þegar hafa tvö íslensk fyrirtæki (Landmat og Hex) sett í gang textaskeytablogg fyrir þá farsímanotendur sem eiga nýjust og fullkomnustu MMS/GPRS símana. Það eina sem þessi fyrirtæki þurfa að gera er að útfæra líka blogg-gátt fyrir venjuleg SMS skeyti og þá er þetta orðið virkilega töff.
Meira þessu líkt: Hljóðmyndir, Útgáfa.
Svör frá lesendum (3)
Tryggvi R. Jónsson svarar:
Nokkrir punktar sem ég er ekki alveg að skilja hjá þér Már. Í fyrsta lagi auðvitað hvað þú hefur á móti þessari nýjung, einkennilegt að finna einu saklausu by-producti frá litlu fyrirtæki upp á Íslandi svona margt til foráttu ;). Bloggsíminn hjá Hex krefst ekki nýjustu og fullkomnustu gerðar af símum. Hann þarf eingöngu að styðja það að hægt sé að tala í hann og það er hægt í flesta farsíma sem ég hef séð. Eins og þú bendir á þá er þetta gerólíkt rituðu máli og ég held að allir geri sér grein fyrir því. Enda ef þetta væri það sama og ritað mál þá til hvers að standa í þessu? Það hefur enginn nokkurn tíma stungið upp á því að þetta komi í staðinn fyrir rituðu færslurnar. Það er hugmynd sem ég held að þú verðir að ganga í föðurstað því það vill hana enginn annar ;) Það má t.d. lesa athugasemdir Tóta og MDR frá Hex á síðunni hjá mér þar sem tilurð og markmið þessa verkefnis hjá þeim eru rædd. ,,Í neyð"... ég sé það ekki alveg fyrir mér sem neyð að hafa eitthvað sniðugt í kollinum og vera einmitt þá ekki fyrir framan tölvu. Ég hef aðeins verið að experimenta með þetta ,,form" og sumt af því sem ég hef prófað passar engan veginn meðan annað er að ganga betur upp í hljóði en texta. Ég sé til dæmis engan tilgang í því að sitja fyrir framan tölvuna og hringja inn færslu, ég er fljótari að slá hana inn, hún verður skipulagðari og auðveldari fyrir lesendur. Hljóð hins vegar getur borið öðruvísi upplýsingar en ritað mál (raddblær, styrkur, tóntegund, ...). Öðruvísi er hér aðalmálið, ekki betra og ekki útskiptanlegt fyrir það sem textinn hefur. Mér fannst líka ferlega skrítið þegar ég sá fyrsta grafíska vafrann en ég er hættur að verða hissa þegar ég sé grafískar vefsíður í dag ;-) Er ekki alveg jafn galið að setja inn mynd og hljóð? Kannski er ég bara að verða geðveikur á norðlenska loftinu... hver veit :-)
7. júlí 2003 kl. 23:38 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Hei, ég er ekkert að dissa Hex. Tóti og hans fólk er að gera ýkt kúl hluti, og þau eru óhrædd við að gera tilraunir eins og t.d. þennan vefvædda diktafón sem er augljóslega gagnlegur sem slíkur. Svo grunar mig að þú hafir aðeins mislesið mig því það sem ég sagði um nýjustu og fullkomnustu farsímana. Það átti aðeins við um texta- og ljósmyndabloggið þeirra. Talbloggið var allt önnur málsgrein. :-)
Varðandi það hvort einhver hafi haldið því fram að svona hljóðblogg kæmi að einhverju leiti í staðinn fyrir skrifaðar færslur, þá vil ég nefna tvennt til:
a) Mér finnst ég enn ekki hafa heyrt neinar talblogg færslur frá þeim sem hafa verið að prófa þetta, sem ekki hefðu sómt sér jafn vel eða betur á textaformi. SMS blogg hefði komið sama innihaldi til skila, á margfalt aðgengilegri og þjálli hátt fyrir okkur móttakendurna. Auðvitað er þetta einföldun hjá mér og geta svona hljóðsenur verið eins og nokkurs konar "myndskreyting" með lengri textafærslu - til að gefa sýnishorn af stemmningu. Almennt hef ég samt ekki séð talbloggið notað í slíkum skreytitilgangi.
b) Ég hef talað við fólk sem hefur haldið því fram að það verði nú æðislegt þegar maður getur hætt að vélrita og bara tekið upp hljóð- og vídeóblogg og sett á vefinn. Í því liggi sko framtíðin - að vefurinn verði meira eins og útvarp og sjónvarp. Ég er sko ekkert að finna upp á þessum sjónarmiðum sjálfur - því miður.
Rétt eins og þú þá er ég að reyna að kryfja þetta nýja og spennandi form (sem mætti kalla hljóð"myndir") til mergjar. Ég nálgast þetta úr aðeins annari átt heldur en þú og er markvisst mjög gagnrýninn. :-)
8. júlí 2003 kl. 00:00 GMT | #
Már Örlygsson: Hverfult augnablik - hugleiðingar um hljóðmyndir og "talblogg"
8. júlí 2003 kl. 01:38 GMT | #