Garpur klipptur
Það verður ekki af honum tekið, syni mínum, að hann er fallegur.
Garpur fékk sína fyrstu klippingu í dag. Rafmagnsskærin voru stillt á lengstu stillingu (ca. 2 cm) og þeim rennt yfir glókollinn, sem var orðinn dáldið rytjulegur eftir ellefu og hálfs mánaðar náttúrulegan vöxt. Ég hélt lengsta hárlokknum til haga og batt hann saman og ætla að geyma hann til minningar.
Í öðrum fréttum að drengnum er að hann er farinn að ganga. Hann byrjaði fyrst almennilega á því eftir ferðina til Siglufjarðar, og hefur tekið jöfnum og hröðum framförum æ síðan. Núna er svo komið að hann labbar næstum allt sem hann fer, en fer mun hægar yfir gangandi en á fjórum fótum. Honum finnst greinilega gaman að kljást við þessa nýju kúnst og skríður helst ekki nema a) hann sé þreyttur eða b) hann sé að flýta sér þeim mun meira.
Í dag fórum við feðgarnir í fyrsta skipti á róluvöll og lékum okkur þar saman og horfðum upp í loftið á eftir fuglum sem flugu yfir. Rólan vakti lukku (skríki og bros) og í augum lítils manns virtist rennibrautin auðklifin hjalli, en eftir síendurteknar tilraunir sem flestar enduðu á nefinu neðst í brautinni var komið smá kjökur í minn mann.
Garpi finnst smágrjót enn mjög freistandi til að stinga upp í sig og japla á. Ég held í aðra röndina að hann sé bara að stríða mér því hann glottir alltaf ísmegilega þegar hann stingur nýrri steinvölu upp í sig um leið og ég er búinn að veiða út úr honum þá á undan. Ég get alla vega sagt ykkur það að strákurinn er mjög lúnkinn í að búa til allskyns litla "leiki" sem við endurtökum aftur og aftur og glottum hvor til annars - eins og til að staðfesta að við höfum báðir fattað "reglurnar". Ég held að Garpur verði einhverntíman mjög góður í Calvinball (?).
Nýleg svör frá lesendum