Trackback eða referer listar
Einar burritossnilligur bendir á greinina Take Your Trackbacks and Dangle þar sem John Gruber nöldrar yfir trackback og segir að referer bakvísanir séu miklu, miklu betri. Satt best að segja finnst mér þessi grein fremur léleg.
Hér eru helstu ástæðurnar fyrir því að ég er ósáttur við það sem John Gruber segir:
Hann skrifar eins og trackback og "referer" bakvísanir geti ekki unnið saman á sömu síðunni. Trackback útilokar ekki aðrar bakvísunar- og svaraðferðir heldur vinnur samhliða þeim. Hver og ein aðferð hefur sína kosti og sína galla.
Hann segir að trackback sé flókið en referer bakvísanir séu einfaldar sem er að vissu leyti rétt, en að mestu leyti kolrangt. Referer upplýsingar verða sjálfkrafa til í bókhaldi (e. log) vefþjónsins, en það er ekki þar með sagt sjálfgefið að birta þær á vefsíðunum. Langt því frá.
Gruber tekur sér í lagi fram að hann hafi þurft aðstoð a.m.k. þriggja sérfróðra manna til að birta referer bakvísanir á síðunni sinni. Ennfremur sleppir hann alveg að minnast á að referer bakvísanir kalla á miklu fleiri og flóknari aðgerðir á vefþjóninum sem eru miklu þyngri í keyrslu en trackback kerfin.
Öll umkvörtunarefnin sem hann tínir til í tengslum við tæknilegar útfærslur Trackback til foráttu gilda líka um referer bakvísanirnar sem hann mærir svo mikið.
Hann bendir réttilega á að móttakandi trackback beiði þarf að hafa trackback-væddan hugbúnað sín megin, en það er rangt hjá honum að sendandi beiðninnar þurfi að keyra samskonar búnað. Handvirka trackback sendigræjan PingBuddy er skínandi dæmi um það.
Að lokum finnst mér leiðinlegur nöldurtónn í greininni. Það er eins og Trackback fari af einhverjum ástæðum alveg óskaplega í taugarnar á grey manninum, sem er eiginlega bara fyndið því það er ekki eins og trackback sé eitthvað geðveikt merkilegt fyrirbæri. Trackback er bara ósköp einfaldur bakvísunar-samskiptastaðall. Ef John Gruber vill ekki nota trackback, þá getur hann bara sleppt því og þarf ekki að afsaka það fyrir einum eða neinum.
Að lokum tvær uppáhalds málsgreinar úr greininni:
"While Six Apart calls TrackBack a notification protocol, the way people really use it is as a connection protocol."
Í beinu framhaldi af þessari fullyrðingu, kemur hann með ítarlegri skýringu (áherslan mín):
"Person A sends a TrackBack ping to B to say that a post on A’s web site is related to a post on B’s web site."
Með öðrum orðum, þá telur hann að trackback sé ekki "tilkynninga"staðall heldur staðall til að "láta vita"... Huh? Hvað er að? :-)
P.S. Ég mundi að sjálfssögðu senda trackback bakvísun til Einars ef hann hefði svoleiðis hjá sér, en sem betur fer er hann með referer bakvísanakerfi, þannig að hann sér vonandi að ég var að skrifa um hann :-)
Svör frá lesendum (3)
Einar Örn svarar:
Jamm, ég er sammála þér Már, hann er fullmikið að nöldra yfir þessu annars frábæra framtaki hjá Trott hjónunum. Reyndar þá er Gruber snillingur í að skrifa langar nöldurgreinar um lítið sem ekkert :-)
Ég er náttúrulega bara svekktur yfir því að Trackback virki ekki hjá mér. Ég lagði mikið í að reyna að koma öðrum á að nota það án árangurs og svo virkaði þetta aldrei hjá mér.
Þú segir hins vegar: "Öll umkvörtunarefnin sem hann tínir til Trackback til foráttu gilda líka um referer bakvísanirnar sem hann mærir svo mikið."
Þetta er ekki rétt. Trackback hefur ýmsa kosti umfram Referrer, en helsti kostur referrer script er að til dæmis á síðunni minni þá sjást vísanir frá öllum, sem tala um færsluna en ekki bara þeim, sem hafa lært á Trackback.
"on preview" þú mættir leyfa HTML á commentum. Þú veist að í nýjustu útgáfum af MT, þá hreinsar forritið út allan óæskilegan kóða, sem gæti verið settur sem komment :-)
13. júní 2003 kl. 11:25 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Ég ætlaði að segja "Öll umkvörtunarefnin sem hann týnir til í tengslum við tæknilega útfærslu..."
Að sjálfssögðu er Trackback og Referer listar gerólíkar aðferðir til að safna og birta bakvísanir. Ég met það svo að þessi þátttökuþröskuldur í trackback kerfinu sé ekki "tæknilegur vankantur" heldur hluti af eiginleikum kerfisins - enda var trackback hannað með mun víðari notkun í huga og var ekki ætlað að koma í staðinn fyrir referer lista heldur virka sem viðbót við verkfærasafn þeirra sem búa til vefsvæði.
..en já, ég er sammála því að Referer listar eru góðir.
13. júní 2003 kl. 11:58 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Um HTML í svörum frá lesendum, þá aðhyllist ég less-is-more vínkilinn í þeim efnum. Ef fólk þarf að segja eitthvað sem krefst flókinnar HTML framsetningar þá getur það skrifað svarið sem færslu á eigin vefsíðu og sent bakvísunarbeiðni hingað.
Ég nenni ekki að standa í því að hreinsa upp brotnar vísanir og klúðraðan HTML kóða eftir lesendur sem nenna ekki að smella á "lesa yfir" áður en þeir senda svarið.
13. júní 2003 kl. 12:13 GMT | #