Lífsviðhorf og laun
Erna skrifar um sinn minimalíska lífsstíl og vísar þar til pælinga minna um lífsgæðabrjálæðið og foreldrahlutverkið. Í þeim hugleiðingum minnist ég á áhrif svona lífsgilda á launatékkann manns. Mér var áðan að detta þetta í hug:
Getur verið að það kynjamunur á viðhorfum fólks til lífsgæða- og framakapphlaupsins? Velti fyrir mér hvort launamunur kynjanna sé mögulega líka viðhorfsmunur kynjanna, og munur á félagslegum væntingum til frama/launa kynjanna?
Sem karlmaður finn ég fyrir mikilli félagslegri pressu á mig að fá sem hæst laun í minni vinnu, en ég verð ekki var við að konan mín eða vinkonur upplifi viðlíka væntingar samfélagsins til þeirra.
Mig grunar að svoleiðis þættir hafi áhrif á vísitölulaunaseðil kynjanna. ...?
Meira þessu líkt: Femínismi, Karlmennska.
Svör frá lesendum (5)
Tryggvi R. Jónsson svarar:
Einhver könnun sýndi að það væri 30% munur á þeim væntingum sem konur og karlar gera sér til launa (örugglega eitthvert VR-dót). Þar sem á mörgum stöðum það er samningsatriði um laun og hækkanir þá finnst mér fullkomlega eðlilegt að sá munur sem er á væntingum komi fram í launamun. Kannski er ég bara karlremba ;-)
12. júní 2003 kl. 14:44 GMT | #
Bjarni Rúnar svarar:
Það er mjög athyglisvert þetta með hvernig karlmenn búast við meiru, en samfélagið býst við að konur eyði meiru: föt, snyrtivörur og m.a.s. klippingar kvenna eru mjög oft dýrari heldur en karla og konur eru almennt hvattar til meiri neyslu. Þær fá mun frekar þau skilaboð að útlitið skipti miklu máli og að þær þurfi að eiga hitt og þetta til að standast væntingar. Svo ekki sé minnst á að einstæðar mæður eru fleiri en einstæðir feður og fjölskyldur eru dýrar í rekstri.
Enda er "karlinn borgar" kúlturinn enn nokkuð sterkur hér á landi. Dæmi um það sést vel á bókhaldi okkar Unnar: ég er nokkru dýrari í rekstri á börum, því ég kaupi alla mína drykki sjálfur og býð af og til öðrum (t.d. Unni) í glas. Hún hinsvegar drekkur alveg jafn mikið og ég, en eyðir minnu - því fólk býður henni tiltölulega oft í glas.
Ef maður setti aðeins á sig feministaparanoiugleraugu þá gæti maður haldið fram að þetta væri enn einn liður í að gera konur háðar körlunum... eða ef maður setur upp karlrembugleraugun, enn einn liður í því að slíta út okkur körlunum með vinnu og stressi í staðinn fyrir að dreifa álaginu jafnt.
12. júní 2003 kl. 15:42 GMT | #
Tóró svarar:
Hef reyndar ekki beint innlegg í mismun á lífsgæðavæntingum karla og kvenna, en ég var nýlega að ganga í gegnum sjálfspælingar á eigin lífsgæðamati þegar ég keypti mér "nýjan" bíl.
Það var ekkert að gamla bílnum, hann er bara gamall, pínulítið skrámaður og ekki skemmtilegur til langferðalaga - en ég var farinn að finna hjá mér þörf til að endurnýja, og ég var meðvitaður um að a.m.k. hluti þeirrar löngunar var bara spurning um að vera með í kapphlaupinu. Eiga nógu flottan bíl til að vera tekinn alvarlega.
Skynsemin segir manni að það sé miklu hagstæðara að notast við strætó og leigubíla. Er ekki sagt að rekstur á bíl kosti 200-500þ. á ári ef allt er talið? Það er slatti af leigubílaferðum.
En, samt fer maður af stað. Setur sér raunhæft verðbil til að miða við, byrjar að skoða og alltaf hækkar verðmiðinn á bílunum sem maður er að horfa á... Ætti maður að splæsa í nýrra módel, stærri vél, stærri bíl, sportútgáfu, kaupa álfelgur... Það væri hægt að taka lán og...
Svo allt í einu fattar maður að maður er farinn að spenna bogann allt of hátt, eltast við einhverja draumóra og þarf að rifja upp hverjar eru hinar raunverulegu þarfir sem bíll þarf að uppfylla.
Lífsgæðakapphlaupið lætur ekki að sér hæða og getur ruglað í kollinum á jafnvel skynsemdarmönnum eins og mér :)
Maður hefði eflaust gott af að prófa að lifa um stund við aðeins lægri standard og sannreyna að það er ekkert að því...
Ósvífið plögg: Gamli bíllinn er til sölu á 75þ. Sparneytinn og traustur. thorarinn(hjá)thorarinn.com (Fyrirgefðu Már).
12. júní 2003 kl. 15:46 GMT | #
Jón Heiðar Þorsteinsson svarar:
Fínar pælingar og þarft innlegg. Maður staldrar alltof sjaldan við og spyr sig hvort lífsstíllinn sé í samræmi við raunverulegar þarfir og heilbrigða skynsemi. En lífsgæðakapphlaupið er strembið jafnvel þó maður taki þá línu að taka ekki neyslulán og notist við gömul húsgögn og eigi "vel þroskaðan" bíl. En þetta neyslukapphlaup er auðvitað fyrirfram tapað, það kemur alltaf eitthvað flottara rétt á eftir að maður kaupir sér eitthvað nýtt. Best er að halda áfram að vera passlega hallærislegur. Takið annars eftir því þegar komið er til stórborga eins og London og New York hvað maður er frjáls af því að klæðast eða líta út eins og manni sýnist. Hér á Íslandi ber mikið á kröfunni um að fólk líti út samkvæmt nýjustu tísku þó það hafi sem betur fer lagast undanfarin misseri.
Best things in life are free ... munum það ... Minn bíll er þó ekki alls til sölu, það verður haglél í helvíti áður en ég læt bláu þrumuna af hendi. Jón H
12. júní 2003 kl. 18:53 GMT | #
Erna svarar:
Já, sko ég fæ alltaf kúltúrsjokk á því að koma heim og sjá að allir líta nákvæmlega eins út. Allar stelpurnar í nýjustu sendingunni úr Sautján og Evu!
Ég er líka alveg sammála því að launavæntingar eiga þátt í því að skapa launamun. Ég held þó að dæmið sé flóknara. Ég held að konur setji síður laun ofarlega á listann sem skilyrði þegar þær velja sér starfsvettvant. Ég er líka alveg viss um að það hefði verið meiri pressa á mig að fara í læknisfræði frekar en lífefnafræði ef ég væri karlmaður.
13. júní 2003 kl. 02:33 GMT | #