Kl. 16:36: Léttar og aðgengilegar DHTML valmyndir
DHTML fellivalmyndir eru oftar en ekki sóðalega útfærðar, risastórar og þungar í hleðslu og virka ekki í nærri því öllum vöfrum.
Ég er búinn að finna nokkrar undantekningar frá þessari reglu:
Fellivalmyndirnar í þessum dæmum byggja á léttum HTML kóða (<ul>
listar og <a href...>
vísanir) einföldum CSS reglum til að fela og birta undirvalmyndirnar, og örfáum línum af DOM samhæfðu Javascripti til að knýja allt draslið áfram. Síðurnar eru fisléttar í hleðslu, eldri vafrar sem kunna ekki javascript eða CSS (og blindir notendur!) fá einfalda og skiljanlega <ul>
lista með venjulegum vísunum á undirsíðurnar, og allir eru glaðir!
Það er hægt að byggja heilmargt sniðugt á þessum dæmum.
Svör frá lesendum (4) |
Varanleg slóð
Það markar stór tímamót í lífi lítils drengs þegar hann uppgötvar leyndardóma "opna/loka" takkans á geisladrifinu á tölvunni.
Í nokkrar vikur höfum við forðast að horfast í augu við þá staðreynd að brátt mundi Garpur missa sakleysið gagnvart tölvunni og við þyrftum að huga að girðingu í kringum tölvukassann á gólfinu - eða finna henni stað ofar í íbúðinni.
Það er aðeins tímaspursmál hvenær næstu vígi sakleysisins falla. DVD drifið, "Reset" og kveikja slökkva - að ekki sé minnst á rauða ljósarofann á fjöltenginu sem heldur öllum rafmagstækjunum í stofunni í gangi.
Litli drengurinn minn er að verða stór... *snöft*
Svör frá lesendum (2) |
Varanleg slóð
Kl. 07:06: Frábær nýr vafri: Firebird
Firebird er nýjasti vafrinn sprottinn af rótum Mozilla. HTML/CSS renderingin er sú sama og í Mozilla (sem er sú langbesta í bransanum!) en allt notendaviðmótið er eldsnöggt og létt, smekklegt og ótrúlega þjált notkun.
Joel Spolsky segir að Firebird 0.6 sé betri en Internet Explorer 6.0 og það sé full ástæða fyrir alla aðdáendur IE að skipta yfir í þennan nýja, fullkomna og fislétta vafra. Ég gæti ekki verið meira sammála. Opera og Firebird eru núna mínir aðal vafrar.
Firebird er til fyrir Linux, MacOS/X og Windows, og nýjustu útgáfuna er hægt að sækja neðst á síðunni http://www.mozilla.org/projects/firebird/release-notes.html
P.S. Firebird vafrinn hét áður Phoenix. Ég veit ekki af hverju nafninu var breytt, en planið er svo að breyta nafninu aftur, og þá heiti hann Mozilla, og stóra, þunga Mozilla skrímslið sem við þekkjum í dag hverfi af sjónarsviðinu.
Viðbót: var ég búinn að nefna að Firebird er ótrúlega lipur og hraður? :-)
Svör frá lesendum (6) |
Varanleg slóð
Kl. 00:25: Lífsgæðabrjálæðið og foreldrahlutverkið
Áhugaverð grein á Kuro5hin, Is It Time to Redefine a Women's Role - One More Time?
Þrátt fyrir titilinn fjallar greinin ekki um konur sérstaklega, heldur almennt um fjölskylduna, efnishyggjukapphlaupið og hamingjuna. Viðbrögð lesenda í kjölfar greinarinnar eru líka mjög skemmtileg, en ég tengist mjög sterkt þessum hugmyndum um minimalískan lífsstíl.
Hvað eru lífsgæði, og hvar á hamingjan heima? Á hamingjan heima í stóru húsi á Arnarnesinu? Eru lífsgæðin flottur bíll? Eða er glæstur starfsframi og platínukort frá Visa málið? Ég held ekki...
Við Stína höfum ákveðið að setja strákinn okkar, Garp, ekki til dagmömmu (a.m.k. ekki í bili) og vinnum bæði hluta úr degi. Þannig skiptum við umönnuninni á milli okkar, annað okkar er með Garp frá því hann vaknar fram til kl. 2-3 eftir hádegi, og þá tekur hitt við fram til kvölds. Þannig vinnum við bæði okkar vinnu - að hluta - og erum heimavinnandi foreldri að hluta.
Heildartekjur heimilsins eru að sjálfssögðu ekki eins háar og ef við ynnum bæði 100% vinnu, en þetta fyrirkomulag með strákinn er samt bara svo gott að okkur langar ekki að sleppa því. (Það er ekkert smá æðislegt að vera aktífur pabbi sem fæðir og klæðir barnið sitt!)
Þegar strákurinn kemst á leikskólaaldur, þá hyggjumst við setja hann á leikskóla hálfan daginn (eftir hádegi) en halda áfram að skipta á milli okkar umönnuninni á morgnana og eftir leikskólann. Þannig munum við bæði geta unnið næstum fulla vinnu, en samt átt bæði góðan tíma með stráknum hvern einasta dag.
Svör frá lesendum (4) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum