Ég og Keli gengum áfram eftir strönd Reyjkavíkur og Seltjarnarness í sólarblíðunni í dag. Garpur var með í för og virtist hafa almennt gaman af upplifelsinu. Keli segir skemmtilega frá ferðinni.
Það er skemmst frá að segja að ég er dauð-, kúguppgefinn eftir daginn. Við gengum álíka langa leið og síðast, ca. 12 kílómetra, en með 11-12 kg strák á bakinu í 3-4 kg bakpoka með bleyjum og mjólk gerði stórgrýtissprangið mun meira þreytandi en síðast.
Við komumst að Gróttu á góðri fjöru, en höfðum gleymt að þar er mikið fuglavarp í byrjun sumars og öll umferð bönnuð fram í júlí. Grótta bíður því betri tíma, og við héldum ótrauðir áfram alla leið inn undir JL hús.
GPS tækin voru að sjálfssögðu með í för og eins og sjá má þá er höfuðborgarkortið farið að taka á sig sífellt skýrari mynd.
Að lokum má nefna að Eldsnemma á laugardagsmorgun (föstudagsnótt?) er fyrirhugað fjallaklifur með Jósa og/eða Loga til að freista þess að sjá sólmyrkvann stóra.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Kl. 05:47: Heimasíða fyrir GPS kortlagningarnar
Keli er búinn að setja upp síðuna Kortagerð litla mannsins til að halda utan um söfnun, birtingu og úrvinnslu GPS mælinga okkar tveggja. Síðan byggir á Movable Type þannig að það verður auðvelt að hafa hana lifandi.
Til að skoða Reykjavíkurkortið sem er að verða til hægt og bítandi, eða Íslandskortið, þarf að sækja og setja inn ókeypis SVG viðbót frá Adobe (mjög fljótlegt og einfalt ferli, nema fyrir Opera).
Keli rölti fyrir Arnarnesið í byrjun vikunnar og veltir fyrir sér að því tilefni hvort það megi sjá eitthvað listrænt út úr þessum GPS gjörningum.
Í dag ætlum við Keli að taka Garp með okkur restina af leiðininni út skerjafjörðinn, út í Gróttu (á háfjörunni rétt fyrir hádegið), og eitthvað áleiðis í átt að Ánanaustinu, eins og við nennum.
Svör frá lesendum (3) |
Varanleg slóð
Kl. 05:23: Geðveikt: Snoppufrítt RSS
Ég var rétt í þessu að afreka eitt það bjánalegasta sem ég hef gert lengi. Ég var að skrifa fyrir RSS skrárnar mínar, nýjar færslur og svör frá lesendum, þannig að núna líta þær "fallega" út í öllum nýlegum vöfrum. Allt er vænt sem vel er grænt, er það ekki? :-)
Eins og við var að búast þá teiknast RSSið fallegast í fullkomnustu vöfrunum, Opera og Mozilla, en Internet Explorer teiknar hvítan ramma utan um allt skjalið og reiknar eina staðsetningu vitlaust (ég vann mig fram hjá þeim vankanti með smá CSS trixi).
En af því að RSS er ekki vefsíðu-skráarsnið, heldur skráarsnið fyrir hráar upplýsingar, þá er ekki hægt að smella á neinar fyrirsagnir eða vefslóðir til að sækja þær, og það er einmitt það sem gerir þetta RSS/CSS ævintýri mitt svo stórkostlega tilgangslaust.
Ég vil benda benda þeim sem vilja taka upp þennan skemmtilega sið og skreyta RSS skrárnar sínar með grænum bakgrunni á að bæta eftirfarandi XML skipun í næst efstu línuna í viðkomandi RSS skjali:
<?xml-stylesheet type="text/css" href="http://mar.anomy.net/files/2003/05/rss.css" media="screen, handheld" ?>
P.S. Ef einhver hefur spennandi hugmyndir um bakgrunnsveggfóður og töffaralegri litasamsetningar fyrir RSS skjölin þá er ég alveg til í að útfæra það líka - bara til að toppa sjálfan mig í fáránleiknum.
P.P.S. Ég var ekkert að grínast þegar ég skrifaði "Geðveikt" í fyrirsögnina...
Svör frá lesendum (7) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum