Matrix Reloaded er góð
...ég sá hana kl. tvö í dag, og kom út úr bíósalnum fullviss um það að ég gæti hlaupið í loftinu, stokkið flókin heljarstökk og stöðað byssukúlur. Tilfinningin minnti mig á þegar ég kom út af Superman 2 í Nýja Bíó á Siglufirði í gamla daga, fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. Ég flaug um allt í heila viku á eftir.
Undanfarna daga hef ég forðast algjörlega að lesa nokkra dóma um myndina, því ég vildi fara á hana laus við alla fordóma og fyrirframgefnar væntingar. Núna skilst mér að hún hafi fengið mjög misjafna dóma, og sumir hreinlega þoli hana ekki. Mikið svakalega er ég ósammála því fólki, því mér fannst Matrix Reloaded takast fullkomlega að koma með skemmtilega og spennandi sögu í sama stíl og af sömu gæðum og fyrri myndin.
Það er almennt viðurkennt að Matrix 1 olli ákveðnum straumhvörfum í væntingum fólks til ævintýra og spennumynda. Tæknibrellurnar þóttu frábærar og öll sjónræn hönnun myndarinnar var ein sú svalasta sem hafði sést fram að því. Matrix var myndin sem allar ævintýraspennumyndir miðuðu sig við eftir það.
Matrix reloaded byggir á traustum grunni fyrri myndarinnar, hvað útlit og brellusenur varðar, og heldur áfram í sama dúr, nema með óendanlega fleiri brellum, margfalt flóknari og lygilegri bardagaatriðum, einhverjum æsilegustu hraðbrautar-aksturssenum sem sést hafa, ásamt því að keyra goðsöguna um frelsarann Neo áfram á skemmtilegan hátt.
Mér fannst gaman að sjá hvernig höfundar myndarinnar láta samfélag mannana í Zion vera laust við kynþáttafordóma og kynjamisrétti. Hetjurnar/persónurnar í myndinni eru nokkurn veginn jafn margar konur og karlar og af öllum hugsanlegum kynþáttum.
Aðrir punktar:
- Monica Bellucci er svoo foxí í þessari mynd sem endranær. Woff.
- Trinity er aftur einhver svalasta (kven)hetja sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Hún er uppáhalds persónan mín í öllum myndunum. Hún er töffari út í eitt.
- Þetta er fyrsta myndin þar sem ég sé tölvuhakkara (Trinity) nota ssh til að logga sig inn í tölvukerfi.
- Djöfull hefur grey leikarinn sem leikur útsendarann hr. Smith þurft að taka sum atriðin aftur og aftur og aftur og aftur... Ábyggilega mjög þreytandi. :-) Ég segi ekki meir til að skemma ekki spennuna fyrir þeim sem hafa ekki enn séð myndina.
Meira þessu líkt: Listir og menning, Sögur og minningar.
Svör frá lesendum (5)
Bjarni Rúnar svarar:
Ég er alveg sammála þér - þetta var ógeðslega flott mynd. Mér fannst algjör snilld hvernig myndatakan var oft eins og myndir úr teiknimyndabók hefðu verið gæddar lífi með raunverulegu fólki, raunverulegum húsum og bílum og auðvitað sprengingum. Súperman atriðin voru hrikalega töff.
Söguþráðurinn fannst mér reyndar frekar fyrirsjáanlegur, ekki alveg jafn grípandi og í fyrstu myndinni - en það er líka voða erfitt að toppa undrunina sem fylgir því að kynnast glænýjum og framandi heimi eins og gerðist í fyrri myndinni. Maður fór hvort eð er á myndina til að upplifa stemningu og segja vá, sem er nákvæmlega það sem gerðist. :-)
Ég var alveg sáttur og vel það. Ég hefði bara viljað fá að sitja áfram og sjá þriðju í beinu framhaldi!
Og mér fannst mjög gaman að sjá ssh dæmið - helvíti gott bara. Greinilega sett inn til að láta alla nördana segja "jess", sæt kveðja til okkar frá framleiðendunum. Magnað samt hvernig kvikmyndapersónur virðast alltaf kunna öll lykilorð án þess að þurfa að hugsa sig um. :-)
17. maí 2003 kl. 13:43 GMT | #
Freyr: Dark City vs. The Matrix
18. maí 2003 kl. 01:24 GMT | #
Már Örlygsson svarar:
Freyr, þetta er meira en mánaðar gömul færsla sem þú vísar á. Og hvað með það þótt það megi finna ýmislegt líkt með útliti Dark City og Matrix? Það eru jú meira eða minna sami útlitshönnunar- og tæknihópur sem vinnur að báðum myndunum, og slíkir einstaklingar hafa sinn stíl rétt eins og leikstjórar og kvikmyndatónskáld.
Ég meina, er ekki bara ágætt að Matrix gat tekið það skársta úr Dark City og notað það í að gera skikkanlega kvikmynd? ;-)
18. maí 2003 kl. 01:43 GMT | #
Jón Heiðar svarar:
Matrix II er fín - dáldið langdregin á köflum en axjón atriðin eru snilld.
18. maí 2003 kl. 15:40 GMT | #
Tóró svarar:
Jæja, þá les ég loks færsluna þína um Matrix. Er eins og þú búinn að vera að forðast upplýsingar, en var að koma út úr bíóinu núna.
Tilfinningin sem þú lýsir Már, með að koma út með ofurmennatilfinningu - hana fékk ég á fyrstu myndinni. Þurfti þá að minna sjálfan mig sérstaklega á það að keyra nú varlega heim :)
Þessi var fín. Auðvitað er næstum vonlaust að ná wow-faktornum sem sú fyrri hafði, en þetta var ágæt tilraun.
Mér finnst samt sorglegt að brot úr tveimur senum skyldu slá aðeins á sjarmann. Tvö skipti þar sem tölvuteikningarnar voru of augljósar - fyrra skiptið átti kannski að vera vísun í teiknimyndir (multiple Smith og járnstöng) en í seinni senunni fannst mér eins og menn hefðu bara ekki verið að vanda sig (bílar sem trampólín/brimbretti).
Með því að klippa þarna út 20+5 sek hefði ég verið alveg sáttur - skrýtið að screeningar hafi ekki leitt þetta í ljós, varla er ég sá eini sem tók eftir þessu?
Ætli maður kryfji svo ekki allar póstmódernísku einræðurnar þegar hún kemur á DVD.
En, vel þess virði að upplifa í bíó og ég held að lokahnykkurinn verði schwalur.
18. maí 2003 kl. 22:43 GMT | #