Hugmynd: SMS blogg

Skrifað 27. apríl 2003, kl. 12:29

Það dreymir marga bloggara um að geta skrifað og sent stuttar blogg-færslur með GSM símanum sínum, sama hvar þeir eru staddir í heiminum. Með netþjóni tengdum við GSM síma og smá sérforritun væri hægt að setja upp einfalda þjónustu sem byði "bloggurum á fartinni" upp á einmitt þennan möguleika.

Flestar vefdagbækur er hægt að uppfæra með innsláttarforritum eins og BlogBuddy. Þetta gildir sér í lagi um dagbækur sem er viðhaldið hjá Blogger.com, með Movable Type og fleiri kerfum. BlogBuddy og slíkir ritlar notfæra sér forritunarviðmót sem öll þessi bloggkerfi eiga sameiginlegt, svokallað Blogger API. Þetta sama forritunarviðmót má nýta til að breyta SMS skeytum í bloggfærslur.

Þjónustuaðilinn þarf að hafa eftirfarandi:

  1. Tölvu tengda við GSM síma sem getur tekið við SMS skeytum og unnið með innihald þeirra.
  2. Forrit sem les og skrifar í gagnagrunn eftirfarandi upplýsingar um hvern notanda: símanúmer, blogg-notendanafn, blogg-lylkilorð, blogg-ID, og XML-RPC vefslóð bloggsíðunnar.
  3. Forrit sem móttekur SMS textaskeyti frá skráðum símanúmerum og notar upplýsingarnar úr gagnagrunninum til að senda blogg-færslur með XML-RPC skipun (blogger.newPost)
  4. 1 stk. vefsíðu með einföldum notkunarleiðbeiningum

Skráningar- og notkunarferlið liti svona út fyrir notendum:

  1. Notandi fer inn á vefsíðu SMS-blogg þjónustunnar og les leiðbeiningarnar.
  2. Hann sendir eitt eða tvö skráningar-SMS til þjónustunnar með: a) blogg-notandanafninu sínu, b) blogg-lykilorðinu, c) blogg-ID auðkenni og d) vefslóð til að senda XML-RPC köllin á.

    Dæmi: Reg:: u:jonbr pw:gulur123 id:3562146 url:plant.blogger.com/api/RPC2

    Ef allar upplýsingarnar rúmast ekki í einu SMS skeyti þá bíður þjónustan þar til restin berst í öðru SMS frá sama símanúmeri.

  3. Notandinn bíður í nokkrar mínútur eftir að færsla sem segir "Þú ert núna skráður í SMS-blogg" birtist á bloggsíðunni hans til marks um það að skráningin hafi heppnast.
  4. Öll skeyti sem notandinn sendir á SMS-blogg þjónustuna þaðan í frá birtast sjálfkrafa á bloggsíðunni hans, svo fremi að skeytin byrji ekki á "Reg::" því slík skeyti eru meðhöndluð sem um breytingu á upplýsingum um notandann sé að ræða (skref 2 og 3 endurtekin).

ATH: ég geri ekki ráð fyrir að SMS-blogg þjónustan þurfi að senda nein SMS skeyti sjálf, heldur getur allt "feedback" frá henni til notandans gegnum bloggsíðuna hans. Þetta getur haldið kostnaðinum við þjónustuna í algjöru lágmarki, en að sjálfssögðu er ekkert því til fyrirstöðu að þjónustan sendi svar skeyti beint í síma notandans.

Nokkrar viðbótarhugmyndir:

Hér að framan útlista ég hvernig svona þjónusta getur fúnkerað í sinni einföldustu mynd, en það má auðveldlega sjá fyrir sér ýmsa viðbótar virkni sem gaman væri að þjónustan gæti boðið upp á. Dæmi um slíkar viðbætur eru:

  • Þjónustan bíði í nokkrar mínútur með að senda bloggfærsluna og ef fleiri SMS berast frá sama símanúmeri innan þess tíma þá eru bæði SMSin send sem ein löng færsla. Að öðrum kosti má segja að ef SMS skeyti enda á þremur punktum (...) þá merki það að framhald sé á leiðinni og SMS-blogg þjónustan bíður með að senda þar til það berst.
  • Bjóða notendum að senda SMS skeyti á mismunandi blogg síður úr sama GSM símanum. Þá byrja notendur á að skilgreina "default" bloggið sitt með því að senda skeyti eins og tilgreint er í skrefi 2, en bæta svo við öðrum bloggum með því að senda Reg:: ... skeyti með stuttu textauðkenni fyrir viðkomandi blogg fremst í skeytinu. Dæmi: Reg::djamm:: u:jonbr[o.s.frv.]. Þegar notandinn vill skrifa á djamm-síðuna sína þá bætir hann orðinu djamm:: fremst í þau SMS skeyti.
  • Taka við MMS skeytum með ljósmyndum og vista myndirnar á vefþjóni og sýna þær sem hluta af bloggfærslunni.

Post Scriptum

Þessar hugmyndir fæddust í skemmtilegu spjalli sem við Finnur Magnússon áttum á föstudaginn. Ég birti þessar hugmyndir hér í þeirri von að einhver hafi áhuga á að skrifa svona þjónustu svo ég geti notfært mér hana. :-)


Meira þessu líkt: Farsímablogg, Hugdettur, Útgáfa.


Svör frá lesendum (8)

  1. egill svarar:

    Ég var lengi að reyna að útfæra þetta með sms->email, og nota þá frekar email-gátt til að blogga.

    Þannig var sjálfkrafa hægt að blogga í gegnum email.

    En því miður þá var email-gáttinni lokað. Veit ekki hvort það sé til slík gátt hérna heima?

    Afhverju eru símfyrirtækin ekki búin að gera eitthvað í málinu? Blogg-viðmót í gegnum VIT, eða hvað þetta heitir allt. Eða tengja þetta við Box-ið.

    27. apríl 2003 kl. 13:00 GMT | #

  2. Bjarni Rúnar svarar:

    Þetta er búið að vera á dagskrá hjá mér lengi, en aldrei komist inn í topp-tíu listann yfir "hluti sem ég ætti að gera í dag". :-)

    Enda alveg fokdýrt að ætla að díbögga svona græju og/eða nota hana að staðaldri.

    27. apríl 2003 kl. 16:04 GMT | #

  3. JBJ svarar:

    Ekki alvitlaust en ég veit að ég þyrfti að vera algjörlega netsambandslaus til að vilja senda færslu með SMS.. nógu leiðinlegt er að skrifa á þessa GSM færslur í símabókina :p

    27. apríl 2003 kl. 17:24 GMT | #

  4. Már Örlygsson svarar:

    Jói, GSM síminn væri bara enn einn ritillinn sem hægt væri að blogga með og kæmi ekki í staðinn fyrir núverandi skrifaðferðir, heldur mundi bara bæta heilli nýrri vídd við. T.d.: "Live" ferðadagbækur úr fjallgöngum og bakpokaferðalögum. Neyðarskeyti úr Smáralindinni til lesendahópsins um að það sé "gevveik" útsala í gangi og bla bla... Sér í lagi gæti sumum fundist áhugavert að halda sérstakt GSM blogg.

    Bjarni, það er lygilegt hvað fólk er tilbúið að eyða miklum peningum í SMS sendingar sín á milli, og mig grunar að svipuð neyslulögmál gætu gilt um SMSblogg.

    27. apríl 2003 kl. 18:30 GMT | #

  5. egill svarar:

    Fór í þessu sambandi að hugsa um það, það sem vantar helst á box.is til að ég myndi nenna að nota það er að geta slökkt á símanum mínum í nokkra daga, en box.is myndi sjá um að grípa sms sem berast.

    Líka ef maður myndi lenda í því að síminn bili, eða týnist. Nú eða ef maður er í útlöndum, og vill komast í sms-in sín (ég t.d. fer út í sumar og fæ mér danskt númer, en myndi vilja sjá allt sem berst á íslenska númerið).

    Fínt að nota dagbókina hans Márs til að skrifa niður hugmyndir/pælingar :-)

    27. apríl 2003 kl. 18:45 GMT | #

  6. Dagbók Hrafnkels: Blogg úr farsímum

    "Már skrifar um hugmynd sína að SMS-bloggi. Oft er sagt að stórhuga menn hugsi eins :) Ég hef verið að spá í þessa hluti lengi og sérstaklega að undanförnu. Ég WML væddi dagbók mína þegar ég flutti hana í..." Lesa meira

    27. apríl 2003 kl. 21:24 GMT | #

  7. Unnur svarar:

    Hehe... ég myndi aldrei vilja sms-blogga. Ég veit nefnilega að ég myndi ábyggilega notfæra mér tæknina til að blogga í beinni af barnum. Og það væri ekkert sniðugt... :)

    28. apríl 2003 kl. 18:09 GMT | #

  8. Már Örlygsson: Leitin að látúnsbloggaranum

    "Áfram heldur leitin að hinum sanna tóni hljóðbloggsins - að þessu sinni kemur útkoman í þremur þáttum. Frumsamið ástarhljóð Hjáróma sönglandi 1 Hjáróma sönglandi 2 Hljóðupptökur sem útgáfuform eru í eðli sínu gerólíkar rituðu máli. Að blaðra í vefvædda..." Lesa meira

    7. júlí 2003 kl. 04:39 GMT | #

Þessum svarhala hefur verið lokað. Kærar þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni.


 

Flakk um vefsvæðið



 

Nýleg svör frá lesendum

  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Rich (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Dinesh (Req.js - javascript lazy-loading and dependency managment made easy)
  • Már (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Ada (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • notandi (Taubleyjur í nútímanum - lítill leiðarvísir handa hræddri þjóð)
  • Geir (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Jenný (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Óli Jens (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Már (Lausnin á efnahagsvandanum)
  • Kjartan S (Lausnin á efnahagsvandanum)

 

 

Yfirlit yfir þetta skjal

(Atriðin í listanum vísa á ákveðna kafla ofar á síðunni.)