Mamma og Steve eru að koma í heimsókn. Þau lenda í kvöld. Við litla fjölskyldan ætlum að strætóast suður í Garðabæ að hitta þau heima hjá Óla.
Við sáum þau síðast í byrjun mars, þegar við Stína og Garpur heimsóttum þau í nýja húsinu þeirra í Ely. Það var í þerri heimsókn sem Garpur skreið á fjórum fótum í fyrsta skipti - á græna grasinu í bakgarðinum. Það verður gaman að sjá hvort sá stutti þekkir ömmu sína og "granddad" aftur.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Ágúst snilli pælir mikið í kynjajafnrétti þessa dagana. Hann vísar m.a. á greinar eftir erki-Tíkina Helgu Baldvinsdóttur Bjargardóttur.
Ég er hrifinn af því sem Helga segir í greininni Æ, þetta helv... jafnréttiskjaftæði. Hins vegar gengur Helga með tvo "hatta" til skiptis. Femínistahatt annars vegar og sjálfsstæðisflokkshatt hins vegar og mér finnst þeir stangast svolítið á þegar ég les hinar greinarnar sem Ágúst vísar á.
Það er eins og Helga hafi farið úr Bríetarrétttrúnaði yfir í rétt-fyrir-kosningar-flokkshollustu. :-) Mig grunar alla vega að Helga átti sig alveg á mikilvægi sýnilegra fordæma hvað varðar "möguleika" og "sókn" kvenna í hvers kyns valdastöður í samfélaginu.
Dæmi úr heimi karla: Það dugir skammt að segja "ykkur er frjálst að hætta að vinna og sjá um heimilið", því á meðan fyrirmyndirnar vantar þá þorir enginn karlmaður að stíga skrefið vegna a) ótta við viðbrögð annara karla (vina/kunningja/framtíðar vinnuveitenda) og b) viðbragða kvenna sem treysta þeim ekki og tala niður til þeirra.
Það sem ég á við er að sýnilegur fjöldi kvenna í pólitík hefur sterkt fordæmisgildi (enn þann dag í dag a.m.k.) og segir þannig víst eitthvað um möguleika þeirra sama hvað öll löggjöf um jafnrétti kynjanna segir. Ég er ekki fylgandi "jákvæðri mismunun" en ég er fylgjandi aktívum áróðri og háværum kröfum um jafna stöðu kynjanna - bæði karla og kvenna.
Svör frá lesendum (4) |
Varanleg slóð
Kl. 17:03: Tvær góðar dagbækur
Nýfundið, vel til fundið:
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Kl. 16:48: Frúin á miðopnunni
Svansson reynir sem mest hann má að sannfæra mig um að Samfylkingin sé innantóm, eins og hann sé hræddur umað atkvæðið mitt verði dropinn sem fyllir mælinn og hrekur Sjálfsstæðisflokkinn úr sjórnarráðinu. :-)
Ég hef líka unnið í auglýsingabransnum og veit sitt hvað um auglýsingar og hversu vel þessi ákveðna auglýsing var gerð. Það sem hreyfði kannski hvað mest við mér var sú staðreynd að ég er búinn að vera þáttakandi/lesandi á femínstapóstlistanum og er meðvitaður um jafnréttismál eins og þau snúa að mörgum konum. Það er náttúrulega tómt yfirmok hjá Svanssyni að reyna að gefa í skyn að forsætisráðherraembættið sé ekki ein valdamesta staðan á Íslandi. En þó svo væri, þá breytir það ekki þeirri grundvallarstaðreynd að forsætisráðuneytið er e.t.v. eina táknræna vígið sem konur hafa enn ekki "unnið" í baráttu sinni fyrir jöfnum tækifærum. Þessi táknræni þáttur er nefnilega mikilvægari en marga grunar, og ég er alveg tilbúinn að leggja mitt atkvæði af mörkum til að það vinnist, þó ekki væri nema í eitt kjörtímabil eða svo.
En ekki það, ég mun kjósa Alþýðusamkrullið af mörgum fleiri ástæðum en þessari einu auglýsingu. T.d. treysti ég þeim betur til að standa við stefnuskrá sjálfsstæðisflokksins en sjálfstæðisflokknum sjálfum, sem er kannski eitthvað sem sumir kjósendur sjálfsstæðisflokksins ættu að hafa í huga. :-)
Það vegur t.d. þungt á metunum hjá mér að með mögulegum sigri Samfylkingarinnar þá snaraukast líkurnar á einhvers konar vinstri stjórn næstu fjögur ár, og ég held að það væri kærkomin tilbreyting eftir 12 ára sjálftöku foringjaflokksins. Svo er ég bara miklu hrifnari af hóflegum og jöfnum skattalækkunum á alla landsmenn, heldur en prósentulækkunarloforðum sjallanna.
En nóg um pólitík í bili, pólitík er leiðinleg í of stórum skömmtum.
Svör frá lesendum (13) |
Varanleg slóð
Það er ekki oft semþað hendir mig að auglýsing hafi áhrif á mig, en það gerist í dag. Miðjuopnan í Fréttablaðinu í dag (blaðið virðist ekki vera komið á vefinn, en ég læt vísunina standa ef það skyldi lagast) er auglýsing frá Samfylkingunni þar sem spurt er hvort ekki sé tími til að breyta til. Þarna er stillt upp passamyndum af forsætisráðherrum Íslands gegnum tíðina, ein mynd fyrir hvert ár. Þessi súpa af miðaldra körlum virkar mjög sterkt á mann, og fjandinn hafi það ef ég ætla ekki bara að skjósa Alþýðusamfylkinguna í vor. Að auki grunar mig að það sé besta leiðin til að koma VG í ríkisstjórn - miklu vænlegra til árangurs en að kjósa þá beint... :-)
P.S. ég er óendanlega ósammála VG í flestum málum, en ég hef samt átt það til að kjósa þá til að skapa sem mest mótvægi við Sjálfsstæðisflokkinn. VG eru að mínu viti flokkur hafta og banna á alla hluti, og ég fíla það ekki. Hins vegar eru þeir það eina í íslenskum stjórnmálum sem kemst nálægt því að vera vinstri-sinnaðir og ég fíla þá fyrir það. Það getur verið erfitt að vera vinstri-frjálshyggjumaður þegar í kjörklefann er komið.. :-)
Svör frá lesendum (10) |
Varanleg slóð
Kizulands Halldóra gefur okkur blogg pælinguna sína. Einföld og fín úttekt á vefleiðaramenningunni. Dæmi:
"Fólk vill lesa um persónuleg mál í bland við stjórnmálaskoðanir og álit viðkomandi á því sem er að gerast í samfélaginu, fólk vill lesa um mannlegar tilfinningar, gleði og sorgir og fólk vill fá vísanir á áhugavert efni annarstaðar."
Þótt margir vina Kizu hafi skrifað lengi lengi á vefinn, þá er hún sjálf tiltölulega nýkomin í bloggandi manna tölu. Samt er meira vit í þessum pælingum hennar en mörgu því sem maður hefur lesið hérlendis og erlendis.
Svanhildur læða hefur komist að niðurstöðu með hvað hún ætlar að skrifa um í dagbókina sína og hvað ekki. Hún var einmitt að pæla í þessu um daginn og ég skrifaði henni smá svar.
Hún segist ætla að velja varfærnu leiðina til að virða rétt sonar síns til einkalífs. Mér finnst það góð ákvörðun, því börn eru líka fólk og það er alveg jafn rangt að blaðra um einkalíf barna og fullorðins fólks. Ég vona samt að Svanhildur leyfi okkur að njóta smá saklausra gullmola frá syninum af og til og deili með okkur fleiri hugleiðingum um það að vera foreldri lítils stráks. :-)
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Kl. 12:07: Um ljósmyndir af stríðum
Peter Howe: Which photos tell truer story?. Grein um spurningarnar sem ljósmyndarar í stríði þurfa að spurja sig. Áhugavert í framhaldi af blóðugu stríðsmyndunum sem ég vísaði á fyrr í dag. Áhugavert að hafa í huga þegar maður horfir á CNN, BBC, Al Jazeera. Allar eru þær eins og blindu mennirnir sem þreifuðu á fílnum.
"Wars are not fought by machines against machines, but people against people, and it is people who are war's victims, people such as the dead Iraqis in front of the bus. That such a photograph could produce the strong reaction against it is partly because it stands out when compared to the blander images that are the result, I believe, not of military censorship, but of the internal censorship that media companies impose upon their editors."
Viðbót Það má samt ekki gleyma að pólitísk ritskoðun á sér líka stað.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Kl. 11:31: Ekki í mínu nafni
Ég fann sófahershöfðingjagreinina hans Björns Bjarnasonar á heimasíðunni hans. Dæmi hver fyrir sig. Mér beinlínis ofbjóða skoðanir og siðferði þessa manns sem er einn af fyrrverandi óskasonum Sjálftökuflokksins. Eins og fram kemur í lokaorðum pistilsins þá beinlínis styður hann hugmyndir Bandarísku stjórnarinnar um The New American Century sem felst m.a. að einhliða-sprengja-til-helvítis alla sem ógna valdi Bandaríkjanna.
Ég segi bara, burt með sjálftökuhyskið úr stjórnarráðinu.
Sendu þitt svar |
Varanleg slóð
Kl. 11:11: Eitthvað þarf að gera - en hvaða "eitthvað"?
Um daginn skrifaði ég um grundvallar prinsipp stríðs. Eins og ég bjóst við þá svaraði Matti Á stuttlega og Jói JBJ og Ragnar Torfi honum að bragði. Gaman þegar fólk glímir í dagbókinni manns. Daginn eftir skrifaði Jói ágætlega um Morgunblaðsgrein Björns Bjarnasonar (sófahershöfðingjar) þar sem Björn lýsir í grófum dráttum yfir hrifningu sinni á stríðsrekstri Bandaríkjamanna og gerir lítið úr þeim sem mótmæla og vilja frið í heiminum. Á þriðja degi skrifar Matti síðan laaanga Sófahershöfðingja stríðsromsu á heimasíðunni sinni. Þegar maður les þetta, og annað sem hann hefur skrifað, þá sér maður að Matti [- er-] virðist alveg viss í sinni sök og bregður fimlega fyrir sig svipuðum rökum og Björn Bjarnason og aðrir.
Rökin má að mínu mati smætta niður í eftirfarandi málflutning: "Saddam er vondur og pyntar fólk og það þarf að gera eitthvað í málinu."
[svo kemur löng vandræðaleg þögn] "...og það að hefja blóðuga innrás í landið er sko sannarlega 'eitthvað'".
Mér fallast alltaf hendur frammi fyrir svona af því mér finnst þetta svo bjánaleg rök. Ég meina auðvitað þurfti að gera "eitthvað" en svona snjallir menn eins og Björn og Matti (og skoðanabræður þeirra) hljóta að hafa frjórri hugsun en svo að stríð sé besta "eitthvaðið" sem þeim dettur í hug. Skárri væri það nú hugmynda(s)neyðin. Í þessu sambandi má benda á að Bandaríkjamenn sjálfir eiga firnagott orðtak sem er "two wrongs don't make a right", eða "ein misgjörð réttlætir ekki aðra".
Aðgerðaleysi Bandaríkjamanna í upplausnarástandinu sem hefur ríkt eftir fall Bagdad sannar enn betur að þeir hafa engan áhuga á velferð Íraskra borgara. Sérstaklega þegar ómetanleg bóka- og þjóðminjasöfn Íraks eru rænd og brennd þá standa Bandaríkjamennirnir fastan vörð um eina byggingu í allri Bagdad - Olíumálaráðuneytið!
Ég segi það enn og aftur að vondur, en fyrirsjáanlegur, harðstjóri er þó illskárri kostur heldur en blóðug (varúð, ógeðslegar myndir) herför og sprengjuregn í íbúðarhverfum. Eða eins og ég sagði um daginn: "Jafnvel undir kúgun viðskiptabanns og ógnarstjórn Saddams þá þrífst menning og líf. Mannkynið finnur alltaf leið til að lifa og brosa og eiga börn og halda afmæli þótt aðstæður séu bágar. Í stríði er hins vegar bara dauði og ógn. Það sefur enginn vel þegar sprengjum rignir."
Ég er samt ekki að halda því fram að stundum þurfi ekki að beita (her)valdi til að koma á friði og tryggja mannúð (dæmi: Júgóslavía, Rúvanda), en ég segi vei þeim sem styðja ofbeldismálstað Bandaríkjamanna (varúð, ógeðsleg heimsvaldastefna) í Írak.
Svör frá lesendum (8) |
Varanleg slóð
Nýleg svör frá lesendum